Ríkey

mánudagur, janúar 31, 2005

Ég er mjög ánægð núna því það er búið að gera við tölvuna mína. Það er allt Kjartani að þakka og segi ég nú bara einu sinni enn takk fyrir Kjartan. En annars er bara allt það sama hérna í KA. Fórum í stelpuferð í IKEA síðasta föstudag. Hérna er búðin eiginlega bara alveg eins og heima. Fyrir utan að þegar maður er búinn að borga þá kemur svona pulsusala eins og heima nema hvað að þar er hægt að kaupa sænskar kökur og snakk og hvað haldiði vodka. Já ef maður hefur alveg farið yfirum að versla húsgögn þá getur maður bara dottið í það í lok verslunarferðarinnar, alveg magnað;)
Annars var helgin frekar í rólegri kantinum eftir þessa æsispennandi IKEA ferð á föstudaginn þá fórum við Hafrún bara upp í sveit á laugardaginn, til Wernersberg og pössuðum tvo óþekktarorma. En það var nú ekki svo erfitt þar sem að þeir voru æstir í að sýna okkur Herr der Ringe (Lord of the Rings) og við fengum að sjá lengri útgáfuna. Úfff eftir svona 5 tíma af glápi fannst okkur nóg komið og hentum gríslingunum í rúmið. Sunnudagurinn var svo með venjulegu móti komum heim úr sveitinni um hádegi og svo var fótbolti. Ekki svo auðvelt að hlaupa í smá föl eða kannski auðvelt að hlaupa en erfitt að stoppa;)
En læt heyra í mér seinna, chiao.......

föstudagur, janúar 28, 2005

En einn dýrðardagurinn í Karlsruhe runninn upp. Leit út um gluggann og það liggur snjór yfir öllu en þessi snjór verður farinn um hádegi. Var að borða morgunmat í rólegheitunum og skoðaði helstu fréttir af klakanum í leiðinni og hvað haldiði að ég hafi séð, jú öl er kannski ekki svo mikið böl. Kannski samt spurning að drekka í hófi;)
Jæja best að drífa sig í skólann:)

miðvikudagur, janúar 26, 2005

Jæja nú er rescue-abend nr.2 búið og tölvan enn í klessu. En það verður haldið áfram að reyna að laga hana. En hér er núna búið að snjóa í þrjá daga, eða frekar 3 morgna og varla hægt að kalla þetta snjó meira svona smá sýnishorn af snjó. En mjög fyndið að á háskólalóðinni þá er snjófölinni sópað burtu skil ekki til hvers því þetta er allt horfið eftir klukkutíma, þ.e. snjórinn. Soldið fyndið:)
En fór í dag og ætlaði að skrá mig í prófin sem ég er að fara í og fá að vita nákvæmar dagsetningar en nei það var ekki alveg svo auðvelt. Ég var send úr einni byggingu í aðra og svo lenti ég á skapvondum skrifstofukonum sem bara görguðu á mig. Get ekki sagt að ég hafi verið svo hress eftir þetta allt saman og eiginlega engu nær með prófin. Líklega bara best að tala við kennarana sjálfa þeir hljóta að vita eitthvað og ef þeir vita ekki neitt hver veit eitthvað þá, hummm.....
Var að heyra í einhverjum gáfumanna þætti í sjónvarpinu að bananar gera mann hamingjusaman. Bananinn sem ég borðaði í dag gerði nú ekki neitt svo mikið fyrir mig nema ég varð bara aðeins minna svöng. Þeir eru líka að segja að bananar verði að vera a.m.k. 80 cm langir til að seljast í Evrópu, ætli þetta sé einhver ES staðall:)
Jæja maður ætti kannski að fara að sofa áður en ég held áfram að skrifa allan þáttinn niður á netið. Þetta er nú samt mjög fróðlegur þáttur um banana, en ég segi nú bara:
Gute Nacht meine liebe Freunde;)

mánudagur, janúar 24, 2005

Vaknaði í morgun og leit út um gluggann og ég þurfti að nudda augun til að athuga hvort ég sæi rétt. Það var snjókoma úti, humm og ég sem hélt að það væri að hlýna hérna en ekki kólna. Þegar ég kom svo út og ætlaði í skólann þá þurfti ég að skafa. Nei ég er ekki á bíl heldur hjóli og það var frosinn snjór á hnakknum sem ég þurfti að skafa af;) haha aldrei lent í svona áður.

En síðasta vika er sem betur fer búin. Hún byrjaði eins og aðrar vikur en úff endirinn var ekki svo góður. Byrjaði á því að hraðbanki át kortið mitt á fimmtudagskvöldið og ég þurfti að hringja til íslands á föstudagsmorguninn og fá bankann heima til að senda fax hingað út sem sagði að bankinn hérna mætti afhenda mér kortið mitt. Ég fór svo í tíma og hann var ekki búinn fyrr en kl.15:30 þannig að ég þurfti að bruna í bankann fyrir lokun. Þegar ég kom þangað þá var faxið komið og þau búin að ná í kortið úr hraðbankanum en NEI ég gat ekki fengið kortið af því að ég var ekki með passann minn. Þannig að best að hoppa upp á hjólið og bruna heim og ná í passann. Ég hafði 15mín til að komast aftur í bankann fyrir lokun. Ég held að ég hafi aldrei hjólað jafn hratt enda þegar ég kom aftur í bankann náði ég varla andanum. Ágætis workout þann daginn:)
En svo á fimmtudagskvöldið þá kíktum við aðeins út á lífið með Konna og vinum hans sem voru í heimsókn frá Íslandi. Það heppnaðist ekki betur en að það brotnaði smá brot úr annarri framtönninni á mér, þannig að núna er ég að fara að leita að tannlækni. Svo á föstudagskvöldið þá ætlaði ég að kveikja á tölvunni minni en neibb hún neitaði því það er einhver vírus í henni. Kjartan var svo í allt gærkvöldið að reyna að bjarga henni en björgunin verður að halda áfram síðar. Finnst ég vera hálf utanveltu og vængbrotin að hafa ekki tölvuna mína:(
Núna er komin ný vika og vona að hún verði betri;)

miðvikudagur, janúar 19, 2005

Jæja þá er alvara lífsins aftur tekin við. Já skólinn kominn á fullt og það styttist óðum í prófin, vei;) En ég var aðeins að skoða netið áðan og rakst þá á þetta. Merkilegt nokk að Einstein var 100 árum eldri en ég. Fæðast ekki svona snillingar bara einmitt á 100 ára fresti?
En mig langar til að óska Eyrúnu og Unnari til hamingju með nýfædda soninn. Hlakka ekkert smá til að sjá myndir sérstaklega þar sem að þegar ég kem næst heim þá verður hann næstum farinn að ganga, úff furðuleg tilhugsun.
Ætli ég fari ekki að segja góða nótt núna því ég þarf að vakna svo snemma í fyrramálið. Það er nebbla double tími á morgun því það féll niður tími í des. Frábært það er nú erfitt að halda einbeitingu í 1 og 1/2 tíma venjulega en 3 tímar um það sama þetta verður skrautlegt. Ætli það sé ekki bara einn sterkur kaffibolli í morgunmatinn á morgun, hehe;)
En Gute Nacht......

föstudagur, janúar 14, 2005

Það er komið út úr Hagverkfræðiprófinu og ............................... ÉG er að fara að útskrifast;) VEI VEI VEI ég er ekkkert smá ánægð. Heyri í ykkur seinna:)

miðvikudagur, janúar 12, 2005

Jæja þá er maður kominn aftur "heim" til Karlsruhe. Var þó ekki jafn auðvelt og það átti að vera. Lagði af stað á mánudaginn út á völl svoldið í seinna lagi en átti nú samt alveg að ná í tíma. Þegar ég var nýlega lögð af stað þá hringir Jón Atli í mig (hann var líka að fara út) og hann var kominn út á völl. Hann vildi bara láta mig vita af 1 klst. seinkun á vélinni þannig að það var aðeins létt á bensínfætinum. Kom út á völl og tékkaði mig inn og fór svo að bíða. Við áttum flug til London með express og svo þaðan með Ryanair til Baden Baden en þar sem það var mjög knappt að við næðum því flugi þá keyptum við annað flug sem var seinna og við áttum að ná örugglega til Stuttgart. Við vissum fyrst að það var búið að seinka fluginu um klukkutíma að við næðum aldrei fluginu til Baden en við áttum nú annan miða þannig að við kæmumst nú alveg heim. Við hittum fleiri námsmenn sem voru á leið heim eftir jólafrí og áttu líka tengiflug frá London eins og við. Röltum öll glavösk út í vél og þegar allir voru búnir að koma sér fyrir og vélin fór ekkert af stað þá var okkur ekkert farið að lítast á blikuna. Þá fór flugstjórinn að tala og sagði að það þyrfti að af-ísa vélina áður en við færum af stað. Ok það var gert og tók nú smá af okkar annars dýrmæta tíma. Úti snjóaði alveg látlaust og brjálað og snjómoksturstæki höfðu varla undan að moka. Síðan fer vélin nú af stað og í áttina að flugbrautinni en svo stöðvast hún skyndilega og flugstjórinn byrjar að tala aftur. Í þetta skiptið þurftum við að bíða því það var Flugleiðavél á undan okkur og hún var föst í snjóskafli og það var verið að draga hana úr honum. Humm nú var okkur ekkert farið að lítast á blikuna því tíminn orðinn af mjög skornum skammti. Svo loksins komumst við í loftið og af stað til London. Ég komst að því að um borð voru enn fleiri námsmenn á leiðinni út m.a. til Hollands, Vínar ofl. allir sáu fram á að missa af tengifluginu í London. Flugfreyjurnar reyndu að hjálpa okkur þegar við lentum og okkur var öllum hleypt fyrst út úr vélinni en það skilaði engu þar sem að allar töskurnar komu á sama tíma og allir búnir að missa af fluginu sínu. Þegar maður litaðist um flugvöllinn sá maður bara spurningarsvip á öllum, hvað var til ráða? En við fundum næsta flug sem við gátum tekið og það var daginn eftir þannig að við fundum okkur bara næsta bara á flugvellinum og fengum okkur bjór og samloku. Þegar barnum lokaði þá var ekkert annað að gera en að finna sér sæti á flugvellinum og reyna að sofna. Það var allt morandi af fólki sem var sofandi þarna og því vorum við heppin að finna sæti. Verð að viðurkenna að þetta var ekki besta nótt sem ég hef upplifað, því maður gat bara sofið í stuttan tíma í hverri stellingu og svo vaknaði maður dofinn og aumur og reyndi þá að finna sér aðeins betri stellingu til að sofa í. Svo eftir 4 tíma að reyna að sofa þá var bara kominn tími fyrir morgunmat og svo tékkuðum við okkur inn og fórum af stað til Þýskalands kl. 7:10 á þriðjudagsmorgni. Ég var ekkert smá fegin þegar ég kom heim og gat tannburstað mig og lagst út af í rúmið mitt.
En hvað lærði maður af þessu: jú ekki hafa of stuttan tíma á milli fluga þegar verið er að fljúga frá snjólandinu Íslandi þar sem að flugvélarnar festast í snjóskafli:)

Hér er svo ekkert sem minnir á veturinn enginn snjór og ekkert frost bara ágætis veður. Við Hafrún vorum ótrúlega duglegar í dag og fórum á bókasafnið að læra og sátum þar sem fastast allan eftirmiðdaginn. Því var kominn tími til að ég léti vita af mér héðan úr germaníunni;)

fimmtudagur, janúar 06, 2005

Gleðilegt nýtt ár allir saman:)
Já og jólin bara líka búin einmitt í dag, þrettándann. Fólk er misduglegt að losa sig við jólin og einn nágranni minn var svo æstur að losa sig við jólatréð að hann hafði ekkert fyrir því að losa séríuna af trénu heldur henti því út með henni á og smá skrauti. Hver þarf svo sem að eiga jólaskraut - maður kaupir bara nýtt næsta ár;)

Ég er búin að vera að skoða nokkrar bloggsíður og flest allir eru að gera upp árið 2004 hjá sér og ætli maður geri það ekki líka þó svo að það sé mjög fljótgert. Jan - maí: var í VR2 daginn út og inn þar til prófin voru búin. Fór þá í útskriftarferð til Malasíu og Thailands sem var frábær á alla kanta enda var ég þar með frábæru fólki:) Júní - ágúst: Vinna, gerði mest lítið annað. Ágúst: VR2 gleðin tók við aftur en bara í 3 vikur þetta skiptið og endaði þessi frábæra dvöl með 3 æðislegum prófum. Tók svo smá vinnusyrpu þangað til að ég fór út til hins margrómaða Þýskalands. Sept-des: Tíminn flaug hraðar en nokkru sinni fyrr enda var alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast í þýskalandinu. Ég og Hafrún ákváðum að sitja ekki auðum höndum þarna úti heldur skipulögðum vel pakkaða dagskrá fyrir hvern dag vikunnar. Spurning hvernig manni tekst að halda í við þessa dagskrá svona á nýju ári:)

En jólafríið er búið að vera ótrúlega næs hérna á klakanum, ekkert gert nema borða, sofa, lesa, sofa, horfa á sjónvarpið, sofa, hitta fjölskyldu og vini og síðast en ekki síst sofa:) Sem sagt draumajólafrí, verst að það er á enda núna og alvara lífsins tekur við. Já framundan eru verkefnaskil og próftörn á þýsku, úffff spurning hvernig það gengur.......
Ég er nú samt búin að vera ótrúlega myndarleg húsmóðir síðustu tvo daga. Fékk nebbla pönnukökupönnu í jólagjöf og auðvitað varð ég að prófa hana áður en ég færi og bakaði í gær skonsur (auðveldara en pönnukökur í fyrstu tilraun), eldaði svo svaka fínan rétta handa manni mínum upp úr uppskriftabók sem ég fékk í jólagjöf. Eldaði meira að segja svo mikið að hann gat tekið með sér nesti í vinnuna. Í kvöld eldaði ég svo annan rétt úr nýju bókinni og bauð mömmu og pabba í mat og aftur var nægur afgangur fyrir Óla að taka með sér. Mér finnst ég alveg ótrúlega dugleg í þessari matargerð. Kemur nú svo í ljós hversu lengi þessi dugnaður endist........