Ríkey

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Hola Amigos..................
Í morgun var greinilegt að það er farið að hausta og skólarnir að byrja aftur. Í allt sumar hefur verið alveg sama á hvaða tíma sólarhringsins ég hef farið niður í skóla þá hefur aldrei verið mikil umferð en svo í morgun þá var sælan búin. Allir farnir af stað og búnir í sumarfríi.

En annars þá varð nú ekki mikið af afrekum mínum þennan mánuðinn. Eins og ég var nú búin að tilkynna hérna á blogginu þá var ég búin að skrá mig í 10km hlaup í maraþoninu en neibb mér tókst að veikjast og lá veik alla síðustu viku og endaði með því að ég þurfti að fá sýklalyf. Þannig að heilsan leyfði mér ekki að hlaupa þessa 10 km sem ég var búin að æfa mig fyrir en þá er bara að setja markið hátt og taka þetta á næsta ári með stæl:)

Í gær þegar ég mætti í skólann sá ég að flestar stofurnar í VR2 voru uppteknar undir haustpróf, ég fékk hálfgerðan hroll að sjá inn í eina prófstofuna og sá fólk sveitt yfir prófinu sínu. Mikið er ég fegin að ég sit ekki inni í einni af þessum stofum og rembist við að gera mitt besta í prófi. Mér nægir að sitja hérna og reyna að koma verkefninu mínu áfram:)

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Jæja þá er verslunarmannahelgin búin og þýðir það ekki að sumarið fer að verða búið líka. Þá verður maður að fara að spíta í og gera eitthvað af viti. Enn eina verslunarmannahelgina var ákveðið að vera í bænum, sé reyndar ekkert eftir þeirri ákvörðun. Enda var þetta fín helgi í alla staði og þá sérstaklega laugardagskvöldið sem nýtt var til grillveislu, singstar og smá dansferðar í miðbæ Reykjavíkur.

Um daginn fann ég geitungabú úti í garði, rétt hjá svefnherbergisglugganum okkar. Ég var ekkert sérlega hrifin af þessum fundi þar sem ég verð að viðurkenna að ég er ekki mikill aðdáandi þeirra. En hins vegar var ég mjög ánægð þegar ég sá meindýraeyðinn koma og drepa þær allar með tölu. Núna get ég farið að opna svefnherbergisgluggann aftur án þess að hafa áhyggjur af því að þessar brjáluðu Bínur komi inn.

En best að fara að kíkja í bækurnar þar sem þær voru eiginlega lagðar til hliðar um helgina, svona að mestu:)