Ríkey

miðvikudagur, apríl 16, 2008

Fjallgangan gekk ekki fram af mér þó svo að ég hafi verið með þónokkra strengi á mánudaginn. Verð þó að viðurkenna að þegar ég keyrði upp í virkjun á mánudaginn og sá fjallið þá kom það mér á óvart hvað það virkaði hátt en var þá mjög ánægð að hafa farið þarna upp:

Hefði alveg viljað hafa svona gott veður þegar við fórum þarna upp því það er víst mjög mikið útsýni af toppinum. Verð að tékka á því aftur seinna:)

sunnudagur, apríl 13, 2008

Fór í dag í fjallgöngu með gönguhóp úr vinnunni. Ferðinni var heitið á Vífilsfell. Þegar ég vaknaði í morgun og leit út um gluggan var ég næstum farin upp í rúm aftur, en ákvað svo að skella mér út í snjókomuna. Klæddi mig vel og arkaði af stað, eða hljóp út í bíl til Hildigunnar sem kom og sótti mig. Brunuðum upp að Litlu Kaffistofunni og hittum hina göngugarpana þar. Eftir smá bið þá var ljóst að ekki kæmu fleiri en við vorum 7 sem lögðum af stað upp á fjallið. Þessi ganga átti að vera auðveld og taka um 2 tíma. Hins vegar held ég að sá tími sé miðaður við sumarfærð en ekki þegar allt er fullt af snjó. Ekki nóg með að það væri snjór heldur var mikið af klaka undir snjónum sem varð þess valdandi að maður var alltaf á hausnum. Það er að segja við sem ekki vorum ekki með göngustafi. Þegar við svo loksins héldum að við værum komin á toppinn þá sáum við að við fórum upp á vitlausan topp þannig að áfram var haldið og á endanum komumst við upp á réttan topp á fjallinu, við mikla ánægu göngugarpanna. Leiðin niður var mun betri, þá settumst við bara á rassinn og renndum okkur eins langt niður og hægt var.
Eftir fína ferð á fjallið þá fórum við Hildigunnur í sund og létum þreytuna líða úr okkur. Alltaf jafn gott að skella sér í heitan pott. Er samt ekki viss um að ég geti gengið á morgun því ég hef ekki hreyft mig svo lengi en núna verður bætt úr því - vonandi:)