Ríkey

þriðjudagur, október 28, 2008

Var úti í Barcelona síðustu helgi í sól og 25°C, þegar komið var til Keflavíkur aftur þá langaði mig helst að snúa við og hoppa upp í næstu flugvél aftur til Spánar. Svo í morgun þá sýndi hitamælirinn á bílnum -7°C, brrrrr það tók dágóðan tíma að komast í gang enda næstum 30 gráðu munur milli daga. Það var nú samt gott að koma aftur heim því það er ekkert svo gaman að vera á ferðalagi þegar maður veit varla hvað evran kostar. Betra að vera bara hérna á klakanum þar sem maður getur notað verðlausu krónurnar sínar út í búð :)

mánudagur, október 20, 2008

Brrrrr .......... veturinn er greinilega byrjaður að minna á sig þó svo að fyrsti vetrardagur sé ekki fyrr en næsta laugardag. Reyndar finnst mér alltaf skemmtilegra að hafa snjókomu frekar en rigningu, þetta er bara spurning um að klæða sig vel. Var að horfa á fréttirnar og þar var verið að segja frá því að byrjað væri að búa til snjó í skíðabrekkurnar, reyndar fyrir norðan en það þýðir bara að maður verður að fara í ferðalag til að komast á skíði. Maður hefur nú svo sem lagt á sig lengra ferðalag en það til að komast á skíði. Þetta þýðir samt að maður þarf af fara huga að skíðakaupum, því það er erfitt að fara á skíði á engum skíðum;) Er það hvort eð er ekki það eina sem maður getur gert fyrir peningana í dag, kaupa eitthvað fyrir þá áður en þeir brenna upp í verðbólgunni...............

fimmtudagur, október 16, 2008

Horfði á nýjasta þáttinn af dagvaktinni í gær og hló mig máttlausa eins og venjulega yfir þessum þáttum. Fór svo í vinnuna í dag sem væri náttúrulega ekki í frásögur færandi nema hvað...... ég var niðri á stofu fyrir hádegi, sem hefur ekki gerst síðan í maí.... en allavegana þá bentu strákarnir mér á að líta út um gluggann og hvað haldiði........ þarna stóð Læðan. Jább Læðan hans Ólafs Ragnars - eigum við að ræða það eitthvað :)

miðvikudagur, október 15, 2008

Var að horfa á sjónvarpsfréttir og ég held að ég hafi aldrei séð fréttamann vera jafn feginn að lesa frétt eins og þegar hann las fréttina um að Ísland hafi unnið landsleikinn í kvöld. Sennilega feginn vegna allra skelfilegu fréttanna sem hann hefur þurft að lesa undanfarna daga. En svona á þessum síðustu og verstu tímum þá skellti maður sér aðeins út á lífið síðasta föstudagskvöld og æfði aðeins dansmúvin, enda er farið að styttast í árshátíðina í vinnunni. Held að ég þurfi samt kannski eitthvað aðeins að athuga dansstílinn minn þar sem ég kom heim með marblett á ristinni eftir pinnahæl og svo fékk míní glóðurauga (veit samt ekki eftir hvað). Kannski var einhver að reyna segja mér að ég taki of mikið pláss á dansgólfinu en ræð bara ekkert við mig þegar tónlistin byrjar :)

fimmtudagur, október 02, 2008

Veturinn er kominn ....... a.m.k. þurfti ég að skafa í morgun og þess vegna fannst mér að veturinn væri kominn. Svo leit ég út um gluggann áðan og sá að það snjóaði alveg villt og galið.....hummm ætli það sé ekki endanleg staðfesting á því að veturinn sé kominn. Eins gott að fara draga fram öll vetrarfötin. Maður kemur úr síðbúnu sumarfríi þar sem hitinn var 20-25°C og hér á klakanum tekur á móti manni 0°C og svo snjór, brrrrrrr.
En þvílíkt næs að taka sér svona síðbúið sumarfrí og lengja sumarið aðeins. Reyndar ekkert hressandi að fara erlendis og koma síðan heim í kreppuna miklu.... dollarinn rokinn upp úr öllu valdi og allt að fara á hliðina. Ætli það sé ekki bara best að taka allar milljónirnar út úr bankanum og sofa með þær undir koddanum, múhahahaaaaaaa þetta er sennilega rétti tíminn til að vera ánægð að eiga ekki neitt :)