Ríkey

föstudagur, janúar 20, 2006

Þá er þessi vika loksins að verða búin, vona að sú næsta verði betri. Það er að ég verði hressari og framkvæmi það sem ég ætla mér að gera:)
Í gær eftir skóla skrapp ég aðeins í Kringluna með Fjólu og eftir að hafa rölt um allt og skoðað næstum því allt þá var kominn tími til að halda heim á leið. Ég rölti af stað út í strætóskýli og þegar ég kom þangað var alveg góður slatti af fólki þar að bíða eftir strætó. Það var orðið dimmt og þeir sem þekkja mig vita að ég er frekar náttblind. En allavegana þá var ég ekki alveg viss hvort að minn strætó væri farinn framhjá eða ekki svo ég fór að líta í kringum mig að góðu fórnarlambi til þess að spyrja þegar ég sá nokkra unglingsstráka standa þarna í strætóskýlinu og tveir þeirra voru að kyssast(að því að mér fannst í myrkrinu). Mér fannst nú ekkert að því og ákvað að spyrja engan út í strætóinn heldur kíkja bara á ferðaáætlunina. Ég rölti nær þessum strákahóp og þá stendur parið sem var að kyssast beint fyrir framan strætóáætlunina, en þá sá ég að þetta par tilheyrði ekkert strákahópnum og þetta voru ekki tveir strákar heldur strákur og stelpa með þvílíka strákaklippingu og strákalega húfu:) Nema hvað þegar ég ætlaði að reyna að smeygja mér á bak við þau, þar sem þau voru ennþá upptekin af því að kyssa hvort annað, og kíkja á áætlunina þá segir strákurinn hátt og snjallt við kærustuna sína: "Ég elska þig" og því fylgdi að sjálfsögðu mjög innilegur koss. Þarna stóð ég og var ekki að sjá á strætóáætlunina en var ekki alveg viss hvort að ég ætti að biðja þau um að færa sig(og eyðileggja þar með momentið hjá þeim) eða hvort að ég ætti að bíða og vona að þau myndu hætta áður en að næsti strætó kæmi...... En loksins tók stelpan eftir mér og þau færðu sig hálfskömmustuleg og ég gat kíkt á hvenær strætó kæmi.
Svo kom strætó og ástfangna parið fer upp í sama vagn og ég og sest rétt hjá mér, það nálægt að ég heyri allt sem þau segja - ekki það að ég hafi verið að hlusta. En þá heldur þessi rómeó áfram að heilla kærustuna og segir við hana:"Þetta er fyrsta strætóferðin okkar saman" og honum fannst það mjög rómantískt. Ég verð að viðurkenna að mér finnst ekkert sérlega rómanstískt að vera að frjósa úr kulda í einhverju strætóskýli og fara svo í strætó. Kannski ég þurfi að fara að bjóða Óla með mér í strætó og athuga hvort að ég skilji þetta þá. Kannski ég bara bjóði honum í strætó í dag svona í tilefni bóndadagsins:)

Núna um helgina á að reyna að koma ofan í mann súrum mat, já ég er að fara á þorrablót á laugardaginn. Það er sem betur fer bara einu sinni á ári sem maður þarf að borða skemmdan mat. En hafið það sem allra best um helgina og gangið hægt um gleðinnar dyr:)