Ríkey

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

Tíminn flýgur áfram eins og venjulega og ég tók eftir því í fyrrakvöld þegar ég var á leiðinni heim í strætó að verið var að hengja upp jólaskraut niðri í bæ. Það þýðir bara eitt, jólin eru á næsta leiti. Eftir að hafa áttað mig á þessu fór ég að líta í kringum mig meðan á strætóferðinni stóð og þá sá ég, mér til mikillar furðu, að fólk er byrjað að skreyta húsin sín. Í sumum húsum eru komnar seríur eða annað ljósaskraut í hvern glugga. Sem betur fer eru þetta samt ekki mörg hús. Því mér finnst að maður eigi ekki að skreyta húsin fyrr en aðventan byrjar, og hana nú:) En það er bara mín skoðun. Kannski finnst manni þetta allt of snemmt því undanfarin ár hefur maður ekki séð neitt jólalegt fyrr en 21. desember, eftir síðasta próf. Gæti verið að það hafi haft áhrif á mann að hafa alltaf verið lokaður inni í skóla og lært eins og brjálæðingur nokkur ár í röð og alltaf misst af mesta jólaundirbúningnum. Jólin hafa verið undirbúin á 2 dögum og engin jólakort verið send, sem er náttúrulega ekki nógu gott. Vonandi hefur þetta verkfræðinám ekki breytt manni í Hr. Skrögg!!! Nei ég held að jólabarnið lifi góðu lífi innra með manni. Held meira að segja að ég geti skrifað nokkur jólakort þetta árið þar sem að próftaflan hefur aldrei verið betri:)