Ríkey

mánudagur, nóvember 15, 2004

Mánudagur, mér finnst alltaf vera mánudagur, skil þetta ekki.
Reyndar búið að vera mikið að gera síðustu daga en þó ekki í skólanum. Á fimmtudagskvöldið komu sænsku stelpurnar hingað til okkar og við elduðum saman. Mjög góður matur og góð skemmtun sem endaði á bjórkvöldi eða einhverju álíka á stúdentagörðum hérna rétt hjá okkur. Frekar þreyttur föstudagur rann svo upp og hann leið mjög hratt en endaði í sjónvarpsglápi heima hjá Jónunum og ég hef aldrei vitað um jafn þreytta samkomu. Það sofnuðu nánast allir fyrir framan sjónvarpið, greinilegt að kvöldið áður hafði verið fullerfitt fyrir flesta. Svo byrjaði laugardagurinn nú vel. Við Hafrún fórum að læra, svaka duglegar. Hefði þó mátt endast lengur en fórum svo um kvöldið í þetta líka svaka fína matarboð til Bjargeyjar. Enduðum síðan á því að fara og dansa pínulítið eins og okkar er von og vísa. En fólk var nú ekki alveg á því að hætta þó að við værum farin af diskótekinu heldur drifum við okkur heim til Jónanna á nýjan leik og elduðum okkur morgunmat, eða réttara sagt borðuðum matinn sem þeir ætluðu að hafa í matarboði á sunnudagskvöldinu, úpppssss:) Á sunnudeginum tók svo við hressandi fótbolti. Þetta átti að vera Ísland-Svíþjóð en þar sem að einungis 2 svíar mættu þá var þetta blandað. Mér var nú samt skipt út úr hálfsænska liðinu því þeir sögðu að ég væri svo léleg. Ekki sátt við það þá byrjaði ég bara að tækla þá þegar ég var nú orðin andstæðingur þeirra. Þá áttuðu þeir sig á því að þeir hefðu gert mistök........nei ég segi nú bara svona. En mæli með þessu svona á sunnudegi að fara í fótbolta, maður hressist ótrúlega mikið við þetta.
Fór svo í ótrúlega skemmtilegan tíma í morgun og komst að því að það er bara einn þjóðverji í tímanum, við hin erum öll útlendingar. Það hlaut að vera ástæða fyrir því að kennarinn talaði svona rosalega skýrt, en bara betra;) Jæja best að fara að drífa sig af stað til að hitta Hafrúnu í Mensunni í hádegismat. Maður þarf að taka sér góðan tíma í að klæða sig því það er svo kalt úti. En gott að vera á hjóli þegar allir sem eru á bílum eru að skafa rúðurnar á morgnanna þá hjólar maður bara af stað og vonar að bremsurnar séu ekki frosnar, það væri verra.