Ríkey

fimmtudagur, janúar 06, 2005

Gleðilegt nýtt ár allir saman:)
Já og jólin bara líka búin einmitt í dag, þrettándann. Fólk er misduglegt að losa sig við jólin og einn nágranni minn var svo æstur að losa sig við jólatréð að hann hafði ekkert fyrir því að losa séríuna af trénu heldur henti því út með henni á og smá skrauti. Hver þarf svo sem að eiga jólaskraut - maður kaupir bara nýtt næsta ár;)

Ég er búin að vera að skoða nokkrar bloggsíður og flest allir eru að gera upp árið 2004 hjá sér og ætli maður geri það ekki líka þó svo að það sé mjög fljótgert. Jan - maí: var í VR2 daginn út og inn þar til prófin voru búin. Fór þá í útskriftarferð til Malasíu og Thailands sem var frábær á alla kanta enda var ég þar með frábæru fólki:) Júní - ágúst: Vinna, gerði mest lítið annað. Ágúst: VR2 gleðin tók við aftur en bara í 3 vikur þetta skiptið og endaði þessi frábæra dvöl með 3 æðislegum prófum. Tók svo smá vinnusyrpu þangað til að ég fór út til hins margrómaða Þýskalands. Sept-des: Tíminn flaug hraðar en nokkru sinni fyrr enda var alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast í þýskalandinu. Ég og Hafrún ákváðum að sitja ekki auðum höndum þarna úti heldur skipulögðum vel pakkaða dagskrá fyrir hvern dag vikunnar. Spurning hvernig manni tekst að halda í við þessa dagskrá svona á nýju ári:)

En jólafríið er búið að vera ótrúlega næs hérna á klakanum, ekkert gert nema borða, sofa, lesa, sofa, horfa á sjónvarpið, sofa, hitta fjölskyldu og vini og síðast en ekki síst sofa:) Sem sagt draumajólafrí, verst að það er á enda núna og alvara lífsins tekur við. Já framundan eru verkefnaskil og próftörn á þýsku, úffff spurning hvernig það gengur.......
Ég er nú samt búin að vera ótrúlega myndarleg húsmóðir síðustu tvo daga. Fékk nebbla pönnukökupönnu í jólagjöf og auðvitað varð ég að prófa hana áður en ég færi og bakaði í gær skonsur (auðveldara en pönnukökur í fyrstu tilraun), eldaði svo svaka fínan rétta handa manni mínum upp úr uppskriftabók sem ég fékk í jólagjöf. Eldaði meira að segja svo mikið að hann gat tekið með sér nesti í vinnuna. Í kvöld eldaði ég svo annan rétt úr nýju bókinni og bauð mömmu og pabba í mat og aftur var nægur afgangur fyrir Óla að taka með sér. Mér finnst ég alveg ótrúlega dugleg í þessari matargerð. Kemur nú svo í ljós hversu lengi þessi dugnaður endist........