Ríkey

laugardagur, nóvember 27, 2004

Skrapp til útlanda......


Já haldiði að maður hafi ekki bara skellt sér til útlanda. Fórum í stelpuferð til Strassbourg í Frakklandi í gær (föstudag). Lögðum af stað upp úr hádegi, en þá komu Ásta, Bjargey og Óttar Geir (hann fékk að fara með í stelpuferðina) að ná í okkur Hafrúnu. Ferðin þangað gekk eins og í sögu enda vorum við með þvílíkar leiðbeiningar. Lögðum bílnum og ætluðum að rölta af stað í bæinn. Vorum nú ekki alveg vissar hvar við vorum eða í hvaða átt við ættum að fara þannig að við ákváðum að spyrja vörðinn í bílastæðahúsinu um leiðbeiningar. Þá kom upp babb í bátinn, engin okkar talar frönsku þannig að við ætluðum að byrja á þýsku en nei vorum ekki lengur í Þýskalandi þannig að það gekk ekki. Vissum nú svo sem að íslenskan kæmi okkur ekki til hjálpar þarna þannig að nú þurftum við að grafa upp enskuna sem hefur verið mjög lítið notuð undanfarið. Soldið skondið hvað maður getur ruglað saman tungumálum. En við komumst í bæinn að lokum. Byrjuðum að fá okkur að borða á rosa sætu litlu veitingahúsi, þurftum reyndar að bíða í nokkrar mínútur eftir borði en það var allt í lagi því á meðan við biðum þá fengum við rósavín til að sötra á. Urðum sko ekki fyrir vonbrigðum með að bíða eftir borðinu því biðin var þess virði, þvílíkt góður matur þarna. Rúlluðum okkur síðan út af staðnum (vorum svo saddar) og inn í göngugötuna. Þar var verið að byrja að koma fyrir jólamarkaði og jólaskrautið byrjað að koma. Röltum um bæinn og skoðuðum einhverja kirkju sem er þarna í miðbænum. Kíktum síðan í einstaka búð, þó svo að þetta hafi ekki verið verslunarferð en þá komu samt nokkrir pokar með heim. Maður kaupir alltaf eitthvað þegar maður fer til útlanda, það er bara skylda;) Fórum svo á kaffihús og ætluðum nú að fá okkur ekta franska súkkulaðiköku. Alveg magnað hvað fólk talar bara frönsku í Frakklandi þó svo að maður skilji ekki neitt. En enduðum í sykursjokki eftir þessa kaffihúsaferð en komumst að því að heitt súkkulaði er miklu betra á Íslandi en í Frakklandi. Röltum svo aðeins meira um bæinn eða þangað til það var búið að loka öllum búðunum þá fannst okkur tími til kominn að koma okkur heim. Ætluðum að borga fyrir bílastæðið í bílastæðahúsinu og settum miðann í kassann sem maður borgar í en miðinn hafði krumpast aðeins þannig að kassinn neitaði að gera nokkurn skapaðan hlut. Þá kom vörðurinn fram úr búrinu sínu og spurði hvað við hefðum eiginlega gert við kassann. Hann var eiginlega reiður við okkur, eins og við hefðum verið að eyðileggja uppáhaldsdótið hans. En við fengum nú að borga undir lokin. En núna vissum við hins vegar ekki alveg hvernig við ættum að komst út úr borginni þar sem að við vorum ekki með neinar leiðbeiningar um það og það var komið mikið myrkur. En með góðri samvinnu þá tókst það í fyrstu tilraun, við erum alveg ótrúlega klárar að rata:) Brunuðum svo heim saddar og sælar eftir góðan dag í útlandinu. Það er samt magnað hvað maður sá mikinn mun á því að vera í Frakklandi eða þegar maður kom aftur til Þýskalands. Göturnar urðu breiðari (eru þýskir bílar stærri en franskir, ég veit ekki) miklu snyrtilegra og þar að auki þá var maður kominn "heim".