Ríkey

miðvikudagur, janúar 12, 2005

Jæja þá er maður kominn aftur "heim" til Karlsruhe. Var þó ekki jafn auðvelt og það átti að vera. Lagði af stað á mánudaginn út á völl svoldið í seinna lagi en átti nú samt alveg að ná í tíma. Þegar ég var nýlega lögð af stað þá hringir Jón Atli í mig (hann var líka að fara út) og hann var kominn út á völl. Hann vildi bara láta mig vita af 1 klst. seinkun á vélinni þannig að það var aðeins létt á bensínfætinum. Kom út á völl og tékkaði mig inn og fór svo að bíða. Við áttum flug til London með express og svo þaðan með Ryanair til Baden Baden en þar sem það var mjög knappt að við næðum því flugi þá keyptum við annað flug sem var seinna og við áttum að ná örugglega til Stuttgart. Við vissum fyrst að það var búið að seinka fluginu um klukkutíma að við næðum aldrei fluginu til Baden en við áttum nú annan miða þannig að við kæmumst nú alveg heim. Við hittum fleiri námsmenn sem voru á leið heim eftir jólafrí og áttu líka tengiflug frá London eins og við. Röltum öll glavösk út í vél og þegar allir voru búnir að koma sér fyrir og vélin fór ekkert af stað þá var okkur ekkert farið að lítast á blikuna. Þá fór flugstjórinn að tala og sagði að það þyrfti að af-ísa vélina áður en við færum af stað. Ok það var gert og tók nú smá af okkar annars dýrmæta tíma. Úti snjóaði alveg látlaust og brjálað og snjómoksturstæki höfðu varla undan að moka. Síðan fer vélin nú af stað og í áttina að flugbrautinni en svo stöðvast hún skyndilega og flugstjórinn byrjar að tala aftur. Í þetta skiptið þurftum við að bíða því það var Flugleiðavél á undan okkur og hún var föst í snjóskafli og það var verið að draga hana úr honum. Humm nú var okkur ekkert farið að lítast á blikuna því tíminn orðinn af mjög skornum skammti. Svo loksins komumst við í loftið og af stað til London. Ég komst að því að um borð voru enn fleiri námsmenn á leiðinni út m.a. til Hollands, Vínar ofl. allir sáu fram á að missa af tengifluginu í London. Flugfreyjurnar reyndu að hjálpa okkur þegar við lentum og okkur var öllum hleypt fyrst út úr vélinni en það skilaði engu þar sem að allar töskurnar komu á sama tíma og allir búnir að missa af fluginu sínu. Þegar maður litaðist um flugvöllinn sá maður bara spurningarsvip á öllum, hvað var til ráða? En við fundum næsta flug sem við gátum tekið og það var daginn eftir þannig að við fundum okkur bara næsta bara á flugvellinum og fengum okkur bjór og samloku. Þegar barnum lokaði þá var ekkert annað að gera en að finna sér sæti á flugvellinum og reyna að sofna. Það var allt morandi af fólki sem var sofandi þarna og því vorum við heppin að finna sæti. Verð að viðurkenna að þetta var ekki besta nótt sem ég hef upplifað, því maður gat bara sofið í stuttan tíma í hverri stellingu og svo vaknaði maður dofinn og aumur og reyndi þá að finna sér aðeins betri stellingu til að sofa í. Svo eftir 4 tíma að reyna að sofa þá var bara kominn tími fyrir morgunmat og svo tékkuðum við okkur inn og fórum af stað til Þýskalands kl. 7:10 á þriðjudagsmorgni. Ég var ekkert smá fegin þegar ég kom heim og gat tannburstað mig og lagst út af í rúmið mitt.
En hvað lærði maður af þessu: jú ekki hafa of stuttan tíma á milli fluga þegar verið er að fljúga frá snjólandinu Íslandi þar sem að flugvélarnar festast í snjóskafli:)

Hér er svo ekkert sem minnir á veturinn enginn snjór og ekkert frost bara ágætis veður. Við Hafrún vorum ótrúlega duglegar í dag og fórum á bókasafnið að læra og sátum þar sem fastast allan eftirmiðdaginn. Því var kominn tími til að ég léti vita af mér héðan úr germaníunni;)