Ríkey

sunnudagur, mars 30, 2008

Annar dagurinn í röð þar sem að veðrið er frábært. Maður lítur út um gluggann og finnst eins og það sé komið sumar. Næst á dagskrá er að klæða sig og þar sem að veðrið er sumarlegt verður pils fyrir valinu. Síðan stekkur maður út berfættur í opnum skóm og hvað gerist...... jú kuldinn nístir inn að beini og tærnar detta næstum af eftir 5 skref. Enn einu sinni gleymir maður því að á Íslandi kemur alltaf fyrst gluggaveður áður en það fer að hlýna í alvörunni. En ég er samt mjög ánægð með þetta gluggaveður, maður fer þá að hlakka til sumarsins og þunglyndi skammdegisins hverfur smá saman. Einhvern veginn þá er orðið auðveldara að vakna á morgnanna, eða réttara sagt að koma sér fram úr. Ok núna gæti einhver haldið að ég sé illa haldin eftir myrkur vetrarins og bíði þess ekki bætur. Nei þvert á móti, var að fatta að bráðum fer kertavertíðinni að ljúka. Já það er eitt af því góða sem fylgir myrkri vetrarins það er kósíheitin við það að hafa kveikt á kerti á kvöldin í myrkrinu. Reyndar skil ég ekki af hverju við eigum að vera eitthvað meira þunglynd en aðrar þjóðir bara út af myrkrinu sem er yfir veturinn, eiginlega ættum við að vera minna þunglynd - allavegana ef eitthvað er að marka þessa frétt. Höldum við ekki bara að við eigum að vera eitthvað leiðari yfir myrkasta tímann vegna þess að það er alltaf verið að tala um það ár eftir ár.
Jæja ég er allavegana farin að gera eitthvað skemmtilegt í góða veðrinu, eins og hamingjusömum víkingaerfinga sæmir:)