Ríkey

fimmtudagur, janúar 08, 2009

Mikið agalega var erfitt að mæta fyrsta daginn í vinnuna eftir jólafríið, gekk ekki vel að koma sér á fætur. En síðan ákvað ég að taka mig á og mæta snemma í vinnuna og viti menn það gengur bara alveg ágætlega. Þvílíkur munur að mæta snemma og geta þá hætt fyrr á daginn, ótrúlegt að maður geri þetta ekki alltaf.
Ég er búin að skemmta mér konunglega yfir viðbrögðum fólks þegar það sér mig gleraugnalausa. Flestir horfa á mig og eru ekki alveg viss hvað það er sem er öðruvísi en sjá að það er eitthvað. Kallarnir/strákarnir (best að móðga engan) koma með ýmis skemmtileg komment, einn horfði á mig og spurði svo: "Notar þú ekki gleraugu?" annar sagði: "Það vantar eitthvað á þig" en flestum finnst þetta skrítið svona fyrst þegar þeir sjá mig. Sjálfri finnst mér þetta ennþá svolítið skrítið að vera gleraugnalaus og ég hef komist að því að ég er með ýmsa gleraugnakæki. Er t.d. alltaf að ýta gleraugunum upp á nefið á mér, laga þau til þegar mér finnst þau vera skökk, þegar ég fer út í rigningu bíð ég eftir að sjá dropana lenda á gleraugunum og þegar ég kem inn úr kulda bíð ég eftir að sjá móðuna leggjast á gleraugun og byrgja mér sýn eins og hérna en nei ekki lengur, sem betur fer því þetta er óþolandi..... uhhh var óþolandi. Já lífið er yndislegt svona gleraugnalaus :) Fór svo í skoðun hjá augnlækninum og ákvað að spyrja hann í leiðinni hvort ég þyrfti ekki að fá vottorð hjá honum og fara með til löggunnar til að endurnýja ökuskírteinið því það stendur á því að ég eigi að nota gleraugu. Hann horfði á mig, hrissti hausinn og sagði: " Það eru bara verkfræðingar sem spyrja um þetta, vilja hafa öll smáatriði á hreinu, eru ótrúlega smámunasamir. Það er enginn annar að spá í þessu" Hummm vissi ekki að ég væri smámunasöm, hef einmitt talið mig vera andstæðu þess, er kannski einhver sem vill leiðrétta þann misskilning minn eða........... nei hélt ekki ;)