Ríkey

þriðjudagur, nóvember 25, 2008

Kom við í Nettó á leiðinni heim í dag til að kaupa í matinn. Var búin að setja nokkra hluti ofan í körfuna og var komin í pasta og hrísgrjóna rekkann í búðinni og var í sakleysi mínu að leyta að ákveðinni tegund af pasta. Þar sem ég stóð þarna og var að leita sá ég útundan mér hvar eldri maður kom labbandi og stoppaði rétt áður en hann kom að mér. Ég hugsaði með mér að ég væri fyrir honum og ákvað að færa mig svo hann kæmist fram hjá. Þá horfði hann á mig og sagði: "mikið ert þú myndarleg"..... mér hálfbrá og horfði á hann, hélt kannski að þetta væri einhver sem ég þekkti - en nei ég kannaðist ekkert við hann. Ég horfði betur á hann og þá sá ég að hann var hálf perralegur með skyrtuna opna niður á miðja bringu, gráu bringuhárin blöstu við mér. Hann stóð þarna með bumbuna út í loftið og hálf sveittur í framan og horfði bara á mig. Ég missti út úr mér eitt stórt HA!! - það var það eina sem mér datt í hug að segja. Svo gekk hann áfram á meðan ég stóð eftir mjög pússluð, vissi ekki hvort þetta hefði verið gamall maður að reyna vera indæll eða hvort hann væri jafn mikill perri og hann leit út fyrir að vera. Ég dreif mig að ná mér pasta úr hillunni, fór á kassann og borgaði. Því næst dreif ég mig út í bíl, nema þegar ég var komin út á bílaplan og stóð fyrir utan bílinn að reyna opna hann með takkanum á fjarstýringunni þá gerðist ekki neitt. Alveg sama hvað ég reyndi ekkert gerðist, hummm mér fannst þetta nú svolítið skrítið og ákvað að kíkja á bílnúmerið til að fullvissa mig um að ég væri við réttan bíl........ og auðvitað var ég að reyna opna einhvern annan bíl sem var alveg eins á litinn, lagt alveg eins og ég hafði lagt. Minn bíll var bara þremur stæðum frá. Þessi gamli kall hafði alveg slegið mig út af laginu.