Ríkey

fimmtudagur, júní 22, 2006

Síðasta helgi var alveg frábær - held að þetta hafi verið skemmtilegasta brúðkaup sem ég hef farið í (með fullri virðingu fyrir öllum öðrum brúðkaupum sem ég hef farið í) Þetta virðist ætla að verða brúðkaupssumarið mikla því boðskortin streyma inn um lúguna hjá okkur, er það kannski merki um að maður sé að eldast eða eru vinir okkar kannski bara þroskaðri og fullorðnari en við Óli:)

En talandi um fullorðið fólk, þá hef ég alltaf haft þá hugmynd að fólk ætti að sýna meiri ábyrgð og vera þeim sem yngri eru góð fyrirmynd. Kannski er ég bara skrítin en þetta hélt ég að væri svona nokkurn veginn það sem felst í því að verða fullorðinn. Í morgun þegar ég var á leiðinni í skólann þá sé ég mann á hjóli í góða veðrinu. Nema hvað að hann var að hjóla úti á miðri götu með engan hjálm og eiginlega fyrir bílunum. Ég veit að það er ekki alltaf einfalt að komast leiðar sinnar á hjóli í Reykjavík en þarna var hjólastígur við hliðina á götunni. Hvað er að fólki, er það að reyna að láta keyra sig niður? Mér fannst þessi maður allavegana ekki sýna neina ábyrgð og því síður að hann væri góð fyrirmynd fyrir neinn. Er það kannski bara bull að maður verði ábyrgðarfyllri þegar maður verður fullorðinn? Hvenær er maður annars orðinn fullorðinn? Ég hef aldrei fengið almennilegt svar við þeirri spurningu enda held ég að það sé ekki til. Ég var einmitt að tala um þetta við eina sem er jafngömul mér og hún er núna orðin tveggja barna móðir en henni fannst hún samt ekkert fullorðin þó svo að öll merki bentu til þess:) Ætli maður verði kannski aldrei fullorðinn......... æ þetta eru kannski aðeins of heimspekilegar hugsanir fyrir svona sólríkan dag. Best að fara að gera eitthvað af viti svo maður geti komist aðeins út í sólina á eftir.