Ríkey

sunnudagur, maí 22, 2005

Kannski kominn tími til að maður láti heyra í sér. Síðasta vika fór í ferðalag með skólanum. Var mætt út í skóla rétt fyrir klukkan 7 á þriðjudagsmorguninn, ekki kannski alveg minn tími enda sofnaði ég um leið og rútan lagði af stað. Við byrjuðum á að fara til Nürnberg í heimsókn til Siemens Power Generation. Skoðuðum þar framleiðslu á gufutúrbínum, já ég veit ykkur finnst þetta mjög spennandi;) Eftir þessa heimsókn keyrðum við til München þar sem við gistum. Tókum smá rölt í borginni um kvöldið. Daginn eftir byrjuðum við á að fara og heimsækja Stadtwerke München þar sem við fengum að skoða orkuver hjá þeim sem er mjög nýlegt. Hefði getað verið fróðlegra ef sá sem var leiðsögumaðurinn hefði gert sig skiljanlegan. Það var mikill hávaði þarna inni og það heyrði enginn neitt í honum, en engu að síður gaman að sjá þetta. Eftir hádegi fórum við svo til E.on Energy München þar sem þeir fræddu okkur um sölu á raforku og orkunetinu þeirra og fleiru því tengt. Fórum svo beint á farfuglahemilið þar sem við gistum, skiptum um föt og fórum svo út að borða með kennaranum okkar. Hann meira að segja bauð upp á fyrsta hring af drykkjum, við vorum sko 23 en það vill til að bjór er ódýr í þýskalandi;)
Á fimmtudagsmorgninum var farið snemma á fætur til að vera komin á réttum tíma í næstu heimsókn sem var hjá MTU Aero Engines. En eins og nafnið gefur til kynna þá framleiða þeir flugvéla - og þotuhreyfla. Við vorum þar allan daginn og sáum alla framleiðsluna, alveg magnað að sjá hvernig þeir prufa nýja hreyfla. Alla vegana mjög skemmtilegt og fróðlegt. Um kvöldið bauð MTU okkur út að borða og voru Þjóðverjarnir alveg í essinu sínu þarna. Þegar Þjóðverji þarf ekki að borga fyrir mat né drykk þá fær hann sér eins mikið og hann getur í sig látið þó svo að hann sé fyrir löngu orðinn saddur. Þess á milli borðar hann ekki mikið því þá þarf nískupúkinn að borga sjálfur, alveg magnað. Segi það ekki að eyðsluóðu Íslendingarnir mættu nú alveg læra eitthvað af hinum sparsömu Þjóðverjum en maður þarf nú líka að borða af og til.
En hvað um þá þurftum við að vera komin út úr herbergjunum okkar fyrir klukkan 7 á föstudagsmorgninum, ótrúlega hressandi:) Fórum svo upp í rútu þar sem allir sofnuðu á leiðinni til Augsburg, en þar heimsóttum við MAN B&W Diesel. En þar var einmitt fyrsta Diesel vélin búin til af honum Rudolf Diesel. En þetta var mögnuð heimsókn þar sem að við sáum risavélar settar saman. Svona vélar eins og eru í stóru millilandaskipunum. Þessar vélar eru næstum jafn stórar og heilt hús og ein vélin sem við sáum samsetta og tilbúna til afhendingar vó aðeins ein 270 tonn, takk fyrir. Alveg magnað fyrir svona lítinn vélaverkfræðing að fá að sjá þetta. Lögðum svo af stað aftur heim og það var mjög gott að geta slappað af eftir þessa frekar ströngu en skemmtilegu ferð.
Samt alveg magnað hvað maður fann strax fyri því að vera komin í stórborg, Karlsruhe er sem sagt bara lítil með einungis 300.000 íbúa;) En á gangstéttunum í München var hundaskítur út um allt og undergroundið þar er ekki sérlega glæsilegt. Held sem sagt að ég sé meira fyrir svona smábæjarlíf eins og hér í KA;)
Auðvitað eins og svo oft áður þá fannst öllum voða merkilegt að ég kæmi frá Íslandi, þ.e. krökkunum sem voru í ferðinni og einn spurði hvort að það þekktust ekki allir á Íslandi fyrst að það búa svona fáir þar..........hummm það er nú ekki eins og allir þekkist sem búa í KA sem er með svipaðan íbúafjölda og allt Ísland. Svo spurði sami strákur hvort að það væru til skemmtistaðir á Íslandi, ég játti því náttúrulega og þá spurði hann hvort að ég hefði ekki komið á þá alla. Ég sagði nei en það þótti honum merkilegt hvernig það gæti nú bara verið. Ótrúlegt hvað þessir Þjóðverjar halda stundum um Ísland. En það besta samt sem ég hef heyrt var að Bjargey (vinkona mín hérna) var spurð af einni sem er með henni í bekk hvort að það væri til einhver svona venjuleg hús á Íslandi. Bjargey spurði hvað hún meinti með "venjuleg hús", þá hélt þessi stelpa að það væru bara torfbæir á Íslandi. Hélt ég yrði ekki eldri þegar ég heyrði þetta, finnst þetta eiginlega betri brandari en þegar fólk heldur að við búum í snjóhúsum;)
En nóg af heimskum Þjóðverjum. Hér var haldið Eurovisionpartý í gær og ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei verið í jafn rólegu Eurovisionpartýi enda ekkert fjör að horfa á stigagjöfina þegar við erum ekki með. En mér fannst lagið frá Moldavíu hefði átt að komast lengra, amman var nebbla svo frábær. En greinilegt hvað var inn þetta árið í Eurovision = nánast nakin söngkona með nokkra stæðilega karlmenn sem dansara. Fannst samt Noregur soldið flottir en ég held að þeir hafi komið beint úr smiðju Eiríks Haukssonar;)
Jæja held að ég hætti núna í bili og fari að gera eitthvað af viti.
Bis später........