Ríkey

föstudagur, maí 12, 2006

Ég fékk þá flugu í höfuðið í gærkvöldi að ef það yrði gott veður í dag þá myndi ég hjóla í skólann - í morgun spratt ég á fætur og sá að sólin skein og það var næstum heiðskýrt þannig að þar með var það ákveðið að ég myndi spara bensínið í dag og hjóla. Ég hefði kannski átt að hugsa málið aðeins betur og átta mig á því að ég hef ekki hjólað neitt síðan fyrir ári síðan. En nema hvað ég fer af stað og ég og hjólið þurftum aðeins að venjast hvort öðru þar sem þetta er hjólið hans Óla, enda hafði hjólinu ekki verið hjólað í rúm tvö ár. Svo þegar ég er komin niður í mjódd þá fer fólk að byrja að taka fram úr mér, sem mér fannst allt í lagi meðan það voru einhverjir hjólagaurar með massa vöðva á lærunum og í hjóla-outfittinu. EN þegar kona á "besta aldri" (jafngömul mömmu:)) tók framúr mér þá fór ég nú að hjóla hraðar. Svo gekk mér nú ágætlega að hjóla en þegar ég var að koma að Nauthólsvíkinni þá var ég nú alveg farin að finna vel fyrir rassinum á mér, eiginlega það mikið að ég gat ekki fundið neina þægilega stellingu til að hjóla í. Var búin að gleyma að það er vont fyrir rassinn að vera með karlmannshnakk og hugsaði með hrillingi til heimferðarinnar. En þegar þarna var komið þá vissi ég að ég ætti stutt eftir þannig að ég gat nú ekki farið að gefast upp og reiða hjólið þannig að ég hjólaði bara aðeins hægar enda var svo gott veður að mér fannst bara upplagt að njóta þess og fallega útsýnisins sem ég hafði yfir Skerjafjörðinn. Hins vegar þegar eldri menn sem voru að hjóla þarna fóru að taka fram úr mér þá var mér nú eiginlegast nóg boðið og reyndi eins og ég mögulega gat að gefa aðeins í og mér tókst að koma mér niður í skóla óskaddaðri.
Fór síðan niður í leikfimishús til að baða mig og konan sem vinnur þar fór að spyrja mig hvaðan ég hefði verið að hjóla og ég sagði henni það sigri hrósandi. En nei þá sagði hún bara: "Já úr Breiðholti, það er ekkert mál. Ég hef oft komið hjólandi eða skokkandi úr Hafnarfirðinum". Þar með gekk ég niðurlút inn í sturtuklefa og fannst hjólaafrekið mitt ekki lengur svo mikið afrek:(
Svo er það nú spurning dagsins hvernig fer ég heim - ætli mér takist að hjóla heim? Allavegana upp í Mjódd og reiði svo kannski hjólið upp bröttustu brekkuna heim, ætti kannski að taka strætó úr Mjóddinni og heim;)

Ég fór í gær og keypti mér hjálm svo ég yrði nú örugg á hjólinu. Í hjólabúðinni sem ég fór í var kona líka á "besta aldri" að kaupa sér hjálm. En hún sagðist ómögulega geta verið með svona hjálm, hann færi henni svo illa. Ég hélt að fullorðið fólk hugsaði ekki svona, allavegana fannst mér þetta hálf skrítin hugsun. En þá sagði búðarmaðurinn við hana að þetta snérist ekki um að líta vel út heldur um öryggi og sagði svo: "Bílbeltið í bílnum mínum fer nú ekki vel við jakkann minn en ég nota það samt". Nokkuð mikið til í þessu.

Góða helgi krúttin mín;)