Ríkey

mánudagur, desember 04, 2006

Við skötuhjúin ætluðum að taka jólagjafainnkaupin með trompi þetta árið og byrja snemma. Fórum sem sagt í búðir í gær í þeim tilgangi að kaupa gjafir, það er að segja þær sem við vorum búin að ákveða. En þar sem að gert er ráð fyrir að allir Íslendingar séu á síðasta snúningi með jólagjafainnkaupin þá er ekki allt komið í búðirnar sem þær eru þó búnar að auglýsa í jólagjafabæklingunum sem hafa flætt inn um dyralúguna undanfarna daga. Þannig að okkur tókst ekki að klára jafn mikið og áætlanir stóðu til en við erum þó byrjuð, sem er nú hálfgert met á okkar heimili;)

Þegar við vorum á leiðinni heim og ég að hneykslast á þessum seinagangi búðanna þá benti Óli mér nú á að það væru nú aðeins liðnir nokkrar dagar af desember þannig að þetta væri nú kannski allt í lagi. Ég er bara svo vön að hafa einungis nokkra daga fyrir allt jólastússið því þetta eru fyrstu jólin sem ég er ekki í prófum og ég kann bara ekki á þetta að hafa svona marga daga til að geta verslað:) Held að þetta prófleysi sé líka ástæðan fyrir því að mér finnst ekkert eins og það séu alveg að fara að koma jól.

En það var nú fleirum en okkur sem datt í hug að fara í gær í verslunarleiðangur því það var þvílíkt mikið af fólki þarna í Kringlunni og mér fannst þetta bara vera eins og nokkrum dögum fyrir jól. Nema hvað maður fann að fólk var afslappaðra en það er síðustu dagana fyrir jól.

Best að reyna að demba sér í lærdóm og athuga hvort maður finni ekki jólastemminguna í bókunum:)