Ríkey

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Börn geta verið ótrúlega fyndin. Ég er að passa bróðursyni mína núna og í morgun þegar ég kom með þann yngri á leikskólann hans þá heyrði ég samtal nokkurra stráka sem voru þegar mættir. Við vorum í fatahenginu að ganga frá útifötunum hans þá heyri ég að einn þeirra sem var mættur hækkaði aðeins róminn og sagði félögum sínum mjög alvarlegur í rómi: " Það er sko mikið stríð og styrjöld úti í heimi, í útlöndunum sko!!" hann var alveg með þetta á tæru. Já greinilegt að börnin byrja ung að fylgjast með heimsmálunum;)

Annars er allt gott að frétta af manni og loksins get ég sagt að verkefnið mitt sé að komast á gott skrið, 7 9 13, allavegana það sem af er þessari viku þá hefur allt gengið vel og áfallalaust. Ætli að það fari þá ekki allt í klessu eftir hádegi fyrst ég er að gefa út þessa yfirlýsingu, hehe:)

Á leiðinni í skólann í morgun þá var ég að hlusta á útvarpið og umræðan snérist um það hvað ríkir íslendingar gera við peningana sína. Það var kona sem hringdi inn og var að hneykslast á manninum sem keypti hús upp á einhverjar 100 milljónir og lét svo rífa það um daginn svo hann geti byggt nýtt hús. Henni fannst þetta vera algjör sóun á peningum og að hann ætti nú að nota peningana í eitthvað betra. Þá spurði þáttastjórnandinn hana ef að maðurinn ætti svona mikla peninga hvort hann mætti ekki bara eyða þeim í það sem hann vildi. Hún viðurkenndi það nú að þetta væru hans peningar og hann mætti jú eyða þeim í það sem hann vildi og þá var hún spurð hvað væri þá svona slæmt við þetta og konugreyið muldraði bara eitthvað og þar með var það samtal búið. Skil ekki af hverju fólk er að skipta sér af því hvað annað fólk gerir við sína eigin peninga, ætli það sé ekki bara öfundin sem fær fólk til að hneykslast. En ég hugsaði nú bara aðra hlið á þessu máli, þ.e. með manninn sem lét rífa húsið til að byggja nýtt, er hann ekki bara að skapa atvinnu og þannig að koma peningunum sínum út í þjóðfélagið - eru þá ekki allir að græða? Bara pæling:)