Ríkey

þriðjudagur, desember 12, 2006

Jólin hér, jólin þar, jólin þau eru alls staðar...................

Já það er allt jóla jóla núna. Ég fór til dæmis í klippingu áðan og það var jólaklippingin:) reyndar fékk ég jólaeyrnaþvottinn í leiðinni......stelpan sem þvoði á mér hárið ákvað að ég þyrfti greinilega að þvo betur á mér eyrun því hún sprautaði vel og rækilega inn í eyrun á mér meðan hún var að þvo mér um hárið. Yfirleitt reyna þær að passa sig að það fari ekki margir lítrar af vatni inn um eyrun en þessari leist greinilega ekki á blikuna og smúlaði allt vel og rækilega. Þannig að maður fer nú bara að verða tilbúinn fyrir jólin, er allavegana nýklippt og með alveg tandurhrein eyru, hehe:)

Ég fór í leikhús á sunnudaginn með börn systur minnar á leikritið "Leitin að jólunum" og skemmtum við okkur alveg konunglega. En sum börnin sem voru þarna voru alveg skíthrædd þegar jólakötturinn birtist og síðan ætlaði allt um koll að keyra þegar Frú Grýla mætti á svæðið. Leikritið var ekki í venjulegum leiksal heldur eltum við leikarana um allt Þjóðleikhúsið þannig að börnin voru mikill partur af leikritinu og sátu mjög nálægt leikurunum. Mér fannst þetta mjög skemmtileg útfærsla á leikriti því það getur verið svo skemmtilegt að sjá hversu mikið krakkar lifa sig inn í leikritið sem þau eru að horfa á. Á tímabili í leikritinu "týndist" annar aðalleikarinn og ein stelpan sem var áhorfandi vildi mikið hjálpa til við að finna hann. Svo loks þegar hann "fannst" aftur þá hljóp hún til hans og faðmaði hann og sagði: "við erum búin að leita að þér út um allt" og sagði honum hvað hún væri fegin að hann væri fundinn. Auðvitað sprungu allir fullorðnu áhorfendurnir úr hlátri og aumingja leikarinn vissi ekki hvaðan af sér stóð veðrið en náði að halda andliti og spinna út frá þessu og halda svo áfram með leikritið. Eins og ég sagði mjög góð skemmtun;)