Ríkey

sunnudagur, febrúar 20, 2005

Úff tíminn farinn að fljúga frá manni enn á ný.
Síðasta vika fór í fyrirlestrargerð að mestu leyti. Fór nú samt í magadans á miðvikudagskvöldið og þegar við Hafrún vorum á leiðinni þangað þá sáum við að fólk var búið að henda út á gangstéttarnar allskonar húsgögnum. Þetta er víst gert nokkru sinnum á ári þá hendir fólk út stólum, borðum, gömlum sjónvörpum ofl. ofl. sem það er hætt að nota. Svo eftir að þetta er komið út á götu þá má hver sem er hirða það sem hann vill. Þetta var mjög fyndið þegar við vorum að labba í strætó þá sáum við fólk með vasaljós að leyta að einhverju góssi í þessum gömlu húsgögnum, mjög fyndið:) En svo á fimmtudaginn þá kom bara ruslabíll og hirti allt draslið. Soldið furðulegt, en þetta er eins og íslendingar gera með jólatrén sín.

Svo rann upp hinn fagri fimmtudagur og komið að mér að halda fyrirlesturinn mikla. Ég mætti á svæðið aðeins meira stressuð en ég hafði ætlað mér. Ég hélt fyrirlesturinn og hann gekk alveg allt í lagi. Fékk bara uppbyggilega gagnrýni annað en strákurinn sem var á eftir mér, hann var skammaður í 10 mín. greyið. Fór svo um kvöldið í bíó með Hafrúnu og Bjargeyju. Við fórum á Meet the Fockers og hún var bara ágætis skemmtun. Fórum á hana með ensku tali auðvitað;)

Föstudagurinn var nú síðan soldið vel pakkaður. Fór í tíma og svo beint út í mötuneyti í skólanum og hitti þar flest alla íslendingana og Palla Vald, sem kominn var til að heilsa upp á okkur. Borðuðum saman og svo var best að drífa sig heim í sturtu. Fórum svo heim til Bjargeyjar og gerðum okkur sætar og fínar. Síðan komu strákarnir og náðu í okkur og ferðinni var heitið til Stuttgart á Þorrablót Íslendingafélagsins. Þar tók á móti okkur þessi líka girnilegi þorramatur. Ég var svo dugleg að ég fékk mér einn bita af hákarli og kom honum niður með einu staupi af brennivíni. Verð að viðurkenna að þetta var ekki jafn ógeðslegt eins og ég hafði ímyndað mér EN þetta var nú samt ekki neitt sérlega gott heldur. Eftir að við vorum búin að troða í okkur matnum þá byrjuðu skemmtiatriði sem voru nú svona misgóð. Það voru líka seldir happadrættismiðar og dregið úr þeim en heppnin var ekki með mér þetta kvöldið. En þegar öll skemmtiatriðin voru búin þá var komið að hljómsveitinni, en það voru Land og synir sem spiluðu fyrir dansi og þvílíkur dans. Ég hef ekki dansað svona mikið lengi lengi. Þegar hljómsveitin hætti síðan að spila þá var komið að heimferð, en við höfðum leigt okkur bíl og Toggi keyrði heim. Mikið var gott að komast heim og sofa, þreytt en ánægð með frábært þorrablót.

Laugardagurinn var nú svona frekar mikill rólegheitadagur, enda þreyta í fólki eftir allt blótið:) Framundan er svo skemmtileg vika þar sem ég er nú að fara í próf næsta fimmtudag. Öll kennsla er hætt í skólanum en síðasti tíminn var á föstudaginn þannig að þessi önn er í raun búin nema próf og verkefnaskil. Þannig að best að snúa sér að þessum blessuðu bókum........