Ríkey

mánudagur, febrúar 07, 2005

Ég er á lífi þó svo að það hafi ekkert heyrst frá mér í heila viku. Það var bara svo mikið að gera í síðustu viku að hún bara flaug framhjá mér á ógnarhraða. Það var náttúrulega nóg að gera í skólanum og svo var smá ferðalag með einu námskeiðinu sem ég er í. Áttum að leggja af stað á fimmtudagsmorgun kl.7:30 og viti menn ég var mætt fyrst af öllum, en það hefur nú ekki verið mín sterka hlið að vakna svona snemma á morgnanna:) Ég sofnaði þó fljótlega eftir að rútan fór af stað. Eftir 4 tíma keyrslu komum við til Essen þar sem að við heimsóttum fyrirtækið sem kennarinn okkar vinnur hjá. Eftir marga klukkutíma af misáhugaverðum fyrirlestrum var klukkan orðinn 19:00 og þá var kominn tími til að bruna á farfuglaheimilið sem við gistum á. Við áttum bara að fá að henda dótinu okkar inn og fara svo aftur því það var búið að panta borð fyrir okkur á veitingastað í nágrenninu. En við stelpurnar urðum náttúrulega að skipta um föt og gera okkur sætar, en það skipti ekki máli þar sem að það tók bara 5 mín að keyra í matinn. Þar var okkur boðið í mat af fyrirtækinu sem kennarinn vinnur hjá. Eftir matinn fórum við aftur upp á farfuglaheimilið og sátum bara og spjalla og mér til mikillar undrunar þá þekktist fólk ekki þannig að við byrjuðum á að kynna okkur. Og auðvitað komu fullt af skemmtilegum spurningum um Ísland eins og alltaf þegar þjóðverjar komast að því að ég sé frá Íslandi.
Á föstudeginum þá fengum við aðeins meira af fyrirlestrum en svo fórum við og skoðuðum kolaorkuver sem var mjög gaman. Myndi samt ekki vilja búa þarna í nágrenninu, mér fannst allt vera hálf grátt þarna en fólk býr samt bara rétt handan við hornið. Svo var loksins brunað af stað aftur heim um kl.16:00 og ég var komin heim til mín um hálf níuleytið. Þá tók ég mig til á mettíma og dreif mig niður í bæ þar sem að Íslensku stelpurnar voru á veitingahúsi. Þetta átti nebbla að vera kveðjudjamm fyrir Ástu en hún er að flytja heim á fimmtudaginn. Verð að viðurkenna að ég var orðin soldið þreytt undir lok kvöldsins og var mjög fegin að komast heim í rúmið mitt.
Á laugardagskvöldið var svo skundað heim til Fredriks (einn af svíunum sem er hérna) því hann var búinn að bjóða í innflutningspartý. Það endaði auðvitað með bæjarferð og fullt af vitleysu eins og oft vill verða. Til dæmis ákvað Konni að gefa okkur (mér, Tryggva og Jón Atla) morgunmat á þjóðlegu nótunum, já hann gaf okkur kaldann sviðakjamma. Verð að viðurkenna að þessi eini biti sem ég borðaði var ekki alveg það besta sem ég hefði getað hugsað mér í morgunmat. En eftir að hafa sofið svo í nokkra tíma var skundað út í bakarí og keyptur betri morgunmatur, uhmmm nýbökuð rúnstykki og súkkulaði croissonts.
Seinnipartinn á sunnudaginn var síðan haldið þetta líka svaðalega bollukaffi heima hjá Elínu og Adrian. Eins og íslendingum einum er lagið var alveg þvílíkt mikið á boðstólnum og allir átu á sig gat og enginn þurfti á kvöldmat að halda þetta kvöldið. Eftir mjög skemmtilega tiltekt eftir kaffiboðið, takk fyrir skemmtiatriðið Bjargey ;) , var haldið heim á leið.
Þannig að maður missti ekki alveg af bolludeginum þó svo að maður sé ekki á klakanum en þið sem eruð heima þá segi ég nú bara: Passið ykkur á bollunum:)