Ríkey

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Afmælisbarn dagsins er Silja, til hamingju með daginn;)

Í gær hélt ég að sumarið væri bara að byrja, sólin skein og það var eiginlega hlýr vindur sem lék um kinnarnar. En í dag er svo orðið kalt aftur, hummm ekki alveg sátt en kannski full snemmt að sumarið byrji í febrúar.

Á þriðjudaginn var hérna svokallað Fasching, en þá fer risaskrúðganga í gengum bæinn og fólk er klætt í allskonar búninga. Þeir sem að eru í skrúðgöngunni eru með allskonar vagna og spila tónlist og henda nammi til áhorfenda sem standa meðfram götunni tilbúnir að beita öllum ráðum til að fá sem mest nammi. Sumir voru með regnhlífar og héldu þeim á hvolfi og náðu þannig í mikið nammi aðrir hentu sér bara í götuna og hirtu allt sem þar lenti. Ég fór ásamt Hafrúnu og Bjargey niður í bæ til að fylgjast með öllu. Auðvitað urðum við að taka þátt í þessu og keyptum okkur þessa líka fínu hatta. Það voru eiginlega fleiri fullorðnir sem voru í búningum en börn og mikið lagt í suma búningana þó svo að aðrir hafi verið ekkert spes.

Í gær var svo flutningur á dagskrá. Ásta, Toggi og Óttar Geir eru nebbla að flytja heim á klakann aftur og í gær voru allir að hjálpa til við að setja búslóðina þeirra í gám. Svo var okkur boðið í mat um kvöldið til þeirra, en það var reyndar heima hjá jónunum. Fengum humar, bruchetta, salat og fiskirisotto, ekkert smá gott. Svo reyndi ég að taka af mér tærnar, var á leiðinni á klósettið en það er svona örlítil hækkun þegar maður gengur inn á klósettið og ég var greinilega ekki að hafa fyrir því að lyfta fótunum því ég held að ég hafi skilið eftir smá stykki af táberginu þarna. Ekkert sérlega þægilegt en bara týpískt fyrir mig;)

Er svo núna að fara að gera fyrirlestur sem ég á að flytja í næstu viku, vei get ekki beðið. Kennarinn var að reyna að stappa í okkur stálinu í morgun fyrir þessa fyrirlestra því hann heldur að við séum öll að deyja úr stressi yfir þessu. Hann segir reyndar að vélaverkfræðingar kunni ekki að halda fyrirlestra og séu verstu fyrirlesarar allra tíma, ekki að þessi kennari kunni það neitt betur. Þannig að eins gott að fara að hreinsa raddböndin og brosið og sýna honum hvernig maður heldur fyrirlestur, hehe;)