Ríkey

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Já enn ein helgin afstaðin ekki svo langt í þá næstu. Alveg magnað hvað þessar helgar koma ört. Vaknaði eldsnemma á laugardagsmorgun og sat fyrir framan tölvuna í 45 mín. til að reyna að kaupa miða á U2 tónleika. Ekkert gekk og hræðsla um að missa af miðum farin að gera vart við sig. Því var ákveðið að drífa sig af stað niður í bæ og bíða í biðröð. Eftir nokkuð langa bið og smá áhyggjur af miðaframboði þá fengum við miða á fínum stað á tónleika. Ég er sem sagt á leiðinni á U2 tónleika 12.júní í Gelsenkirchen, VEI VEI VEI..... er búin að dreyma lengi um að fara á tónleika með þessari snilldarhljómsveit:) Var sem sagt mjög ánægð með þennan laugardagsmorgun.
Eftir hádegi á laugardag fórum við með Dóru og Bjarka niður í bæ. Þau voru í heimsókn hjá okkur í einn dag og þvílíkur dagur. Aldrei hefur ringt jafn mikið hérna síðan ég kom hingað í haust eins og á laugardaginn, enda eftir smá bæjarferð þá flutum við heim. Þórey Edda kom svo í heimsókn seinnipartinn á laugardaginn. Var ákveðið að kíkja aðeins út á lífið og sýna Dóru, Bjarka og Þóreyju hvernig næturlífið er hér í KA. Allir skemmtu sér mjög vel.....:)

Komst að því í dag að veturinn hefur sko alls ekki yfirgefið KA. Vaknaði og leit út í morgun og hummmm.... þvílík snjókoma og ég sem skildi hjólið mitt eftir úti síðustu nótt. Það þýddi ekkert annað en að ég þurfti að skafa af hjólinu áður en ég gat hjólað af stað í skólann. Hélt að þetta myndi nú hætta fljótlega rétt eins og það hefur alltaf, en nei það snjóaði hérna í allan dag. En það fyndnasta er nú samt að þó svo að það snjói allan daginn þá er nánast enginn snjór eftir, undarlegur snjór;)

Fór sem sagt í tíma í morgun og kennarinn sem kennir okkur venjulega gat ekki kennt okkur og var því forfallakennari sem kenndi. Hann var svo sem ágætur nema hvað hann talaði hratt og andaði ekki nema á svona 5 mín. fresti. Og þegar ég er að hlusta á einhvern sem andar svona sjaldan og talar svona hratt þá hætti ég líka að anda, en þetta er mjög slæmt því eftir smá stund er mig farið að svima og ég löngu hætt að hlusta á kennarann. Þannig að ég sat í dag og var að rembast við að anda reglulega. Eftir tímann var ég bara hálf þreytt en þó aðallega svöng, enda tekur það á að einbeita sér svona mikið:)
En fyrirlesturinn minn bíður þannig að best að snúa sér að honum aftur........