Ríkey

þriðjudagur, júlí 20, 2004

Vá júlí æðir alveg áfram og er bráðum búinn. En mér hefur þó tekist að afreka hluta af því sem að ég ætlaði mér. Ég er byrjuð að læra og ég fór Fimmvörðuhálsinn. Já síðusta laugardag hittist vaskur hópur á umferðarmiðstöðinni í glampandi sól og steig upp í áætlunarbíl. Við stigum síðan út úr honum á Skógum og við vorum varla búin að hreyfa okkur eitt hænufet þá byrjaði að rigna smá. Þannig að allir drifu sig að borða og klæddu sig í regnfötin. Svo var haldið af stað og strax eftir fyrstu brekkuna þá var farið að afklæðast aftur. Þetta var þó skammgóður vermir því fljótlega þurftum við að fara í regngallann aftur. Eftir því sem nær dró hálsinn þá varð þokan þykkari og þykkari. Við sáum síðan orðið mjög takmarkað. Við gengum framhjá fallegum gljúfrum (okkur var sagt frá þeim) og loks komum við að þeim stað þar sem við héldum að mesta erfiðið væri búið, þ.e. að eftir það væri allt niður í móti. En nei það var ekki alveg þannig og er ég eiginlega fegin að það var þoka þannig að ég sá ekki allar brekkurnar sem ég átti eftir að ganga. En þegar við fórum nú að fara niður í móti þá var það ekkert smá bratt. Eftir því sem að við nálguðumst Þórsmörk meira þeim mun meira fór að rigna og þegar við komum þangað loksins vorum við svo blaut að það hefði mátt halda að við hefðum hent okkur í Krossá. Allir voru nú orðnir þreyttir, svangir og blautir. Þetta lagaðist þó fljótt því niðri í mörk biðu mamma og pabbi eftir okkur með allt dótið okkar og það var allt þurrt. Þannig að við drifum tjöldin upp og viti menn að um leið og síðasta hælnum var stungið í jörðina þá hætti að rigna:) veiveivie
Fórum svo í sturtu hvert á fætur öðru og þó svo að þetta hafi ekki verið kröftugasta sturta í heimi þá var hún með þeim betri því manni leið svo vel á eftir. Svo grilluðum við og borðuðum þvílíkt góðan mat. Við ætluðum nú svo að djamma þvílíkt en þreytan var farin að segja til sín sérstaklega eftir 2 hvítvínsglös og svo 2 bjóra. Ég þurfti ekki meira þetta kvöldið. Þó voru  sumir aðeins duglegri en ég og djömmuðu eitthvað áfram. Vöknuðum frekar hress daginn eftir og fórum út í sólbað og fengum okkur Brunch. Þegar fór að líða að heimferðatíma þá áttuðum við okkur á því að við værum að fara með allt of mikið af áfengi heim aftur þannig að allir fengu sér a.m.k. einn bjór enda gekk mjög vel að taka saman;)
Rútuferðin heim tók fulllangan tíma fyrir minn smekk, en áætlunarbílar stoppa víst á ansi mörgum stöðum. Maður er nú sem betur fer ekki oft að ferðast með svona áætlunardóti.
Það er alltaf jafn gott að koma heim til sín og sérstaklega þegar maður er svona þreyttur. Ég átti von á því að ég gæti ekki hreyft mig eftir allt þetta erfiði, sérstaklega þar sem að lítið fór fyrir teygjum. Þegar maður er allur blautur og þreyttur þá er það það síðasta sem manni langar til að gera, þ.e. teygja. Núna er kominn þriðjudagur og engir strengir komnir þannig að ég held að ég hafi sloppið alveg. Ætli maður verði þá ekki að drepast á morgun úr einhverjum síðbúnum strengjum. Væri nú týpískt.
Jæja best að fara koma sér í háttinn. Þessi kvöld líða svo ótrúlega hratt. Kann einhver leið til að stoppa tímann bara í svona 15-20 mín, bið ekki um meira.......