Ríkey

fimmtudagur, mars 03, 2005

Eitt góðverk á dag kemur skapinu í lag.
Þetta heyrði ég að minnsta kosti einhvern tíman þegar ég var lítil en kannski var þetta bara sagt til að plata mann til að gera hlutina:) En í gær gerði ég góðverk. Leið mín lá sem sagt niður í miðbæ Reykjavíkur og ég fann mér stæði í Þingholtunum rétt hjá sendiráði Bandaríkjanna. Hafði reyndar áhyggjur af því að ég yrði sektuð eða bílinn dreginn í burtu, en eftir mikla leit að einhverjum merkingum, sem á stæði að ég mætti ekki leggja þarna, þá fann ég ekkert og rölti af stað niður í bæ. Þar sem ég er að ganga þarna fram hjá allskyns litlum og sætum húsum þá sé ég allt í einu lyklakyppu hangandi þarna í einni útihurðinni. Ég gekk þó áfram nokkur skref en stoppaði svo og hugsaði að ég myndi ekki vilja eiga heima í bænum og gleyma lyklunum mínum úti. Þannig að ég sneri við og bankaði á hurðina. Til dyra kom maður sem átti í mestu vandræðum með að halda hundinum sínum innandyra. En hann var mjög ánægður þegar ég benti honum á lyklana hans sem voru í skránni. Eftir að vera búin að þessu ánægð með góðverk dagsins hélt ég áfram leið minni niður í bæ með bros á vör:) Fór svo í búð og lenti á afgreiðslukonu sem hefði alveg mátt vera með smá vott af þjónustulund í sér en nei nei það hafði hún ekki. Kannski var þetta bara ekki hennar dagur. En ég rölti af stað aftur og fann sem betur fer bílinn minn á sínum stað og engin sekt eða neitt.
Er núna komin aftur upp á bókasafn í VR2 að læra. Já maður er að reyna nýta tímann vel:)