Ríkey

sunnudagur, ágúst 14, 2005

Þá er ég komin heim úr sveitinni. Held að ég hafi aldrei spilað jafn mikið á jafn stuttum tíma. Auðvitað vildu krakkarnir læra eitthvað íslenskt spil þannig að ég kenndi þeim Þjóf. Spilið gengur út á að enda með sem flest spil í sínum bunka en maður getur stolið bunkanum af mótspilurunum. Þetta gekk allt vel og strákunum fannst þetta mjög skemmtilegt spil en Nele (sú yngsta af systkinunum) var ekki alveg sátt þegar stóri bróðir hennar rændi bunkanum hennar og hljóp grátandi í burtu. Henni fannst bróðir sinn náttúrulega vera vondur við hana og það tók svolítinn tíma að útskýra það fyrir henni að spilið gengi út á þetta. Svo fórum við í snú-snú og ég held að það séu komin nokkur ár síðan ég fór síðast í snú-snú. Mér tókst síðan að ná mér í nokkrar freknur því það var ágætis veður meðan ég var þarna. En það sem mér tókst líka að ná mér í var flensan sem yngri krakkarnir voru með. Jább ég kom veik heim:) Held að lestarferðin heim hafi verið ein sú skelfilegasta á ævi minni. Því mér var svo óglatt, ég náði mér sem sagt í ælupesti. Var mjög hrædd allan tímann að ég myndi æla í lestinni en ég hafði tekið með mér poka til öryggis. Ég hélt að ég væri orðin græn í framan á tímabili en ég náði mér í svo margar freknur í sveitinni þannig að ég var bara alveg voða sæt þó svo mér liði skelfilega. Ég stoppaði á lestarstöðinni og keypti mér nóg af kóki til öryggis og tókst svo að skríða heim. Þegar þangað var komið þá hálfpartinn rak ég greyið Hafrúnu út úr íbúðinni því ég hafði miklar áhyggjur af því að ég myndi smita hana og hún er að fara í síðasta prófið sitt á morgun, þannig að mig langaði ekki að hún myndi missa af því út af mér.
En núna er ég öll að hressast en held að ég haldi mig bara inni í dag og taki því rólega. Það er hvort eð er ekkert sérstakt veður, sem betur fer:) Held samt að bráðum verði ég búin að skoða allt sem er á netinu. Þá verð ég bara að fara að lesa eða gera eitthvað annað skemmtilegt.
Tschüss........