Ríkey

laugardagur, maí 12, 2007

Ég sinnti borgaralegri skyldu minni í morgun og fór á kjörstað og kaus. Það getur verið hættulegt að kjósa. Ég kom inn í kjörklefann með kjörseðilinn minn og ákvað að setjast niður í rólegheitunum og ganga frá skilríkjunum mínum. En þar sem ég er að setjast niður, kannski réttara sagt að hlamma mér á stólinn, þá finn ég allt í einu eitthvað stingast inn í lærið á mér............ Áiiiiiiiii. Það var sem sagt svona krókur á einni hliðinni á borðinu og sú hlið snéri að sjálfsögðu fram, verið að refsa manni fyrir að vera fyrstur í kjörklefann. Dreif mig síðan að merkja X á seðilinn og benti síðan starfsfólkinu á þetta svo að fleiri saklausir borgarar þyrftu ekki að meiða sig. Gekk síðan út af kjörstað en fékk þá allt í einu bakþanka, kaus ég kannski vitlaust - hummmmm...... jæja það verður að hafa það.
Dreif mig síðan af stað niður í skóla til að halda áfram með hin stórskemmtilegu ritgerðarskrif. Þegar ég var nýkomin inn á reykjanesbrautina, sem er 3 akreinar í hvora átt, þá fer ég inn á miðju akreinina og er þar í mestu makindum að keyra þegar gamli maðurinn hægra megin við mig ákveður að hann þurfi skyndilega að skipta um akrein. Sem betur fer er ekki mikil umferð þarna á laugardagsmorgnum þannig að ég gat naumlega forðað mér áður en hann keyrði inn í hliðina á mér. Magnað hvað sumir líta hvorki til hægri né vinstri og keyra bara þangað sem þeim sýnist, eins og þeir hafi keypt götuna.