Ríkey

þriðjudagur, maí 27, 2008

Það er enn til fólk sem hugsar um aðra en sjálfa sig. Við vorum stödd niðri í bæ í kvöld og lögðum bílnum á bílastæði við bæjarins bestu og fórum með nokkrum vinum okkar að borða. Þegar við vorum að klára matinn þá var hringt í Óla og það var löggan. Þá hafði einhver séð þar sem að bíll rakst utan í okkar bíl og keyrði svo í burtu. Viðkomandi náði niður númerinu á bílnum sem keyrði í burtu, hringdi í lögguna og lét hana vita. Við fórum svo út og löggan lét okkur hafa tjónaskýrslu. Löggan fór svo heim til skráðs eiganda bílsins og náði í viðkomandi og kom með hann niður á bílastæðið til okkar. Þá gátum við fyllt út tjónaskýrslu með reyndar mömmu stelpunnar sem rakst utan í okkar bíl. Þannig að þetta endaði vel. Stelpan hafði sem sagt ekki tekið eftir því að hún hafði rekist á okkar bíl. En magnað að fólk sé svona hjálpsamt og hringi í lögguna ef það sér svona gerast. Eitt góðverk á dag kemur skapinu í lag, ekki satt :)

miðvikudagur, maí 14, 2008

Sumarið er tíminn.......

Já sumarið er svo sannarlega komið. Fór út að skokka þegar ég kom heim úr vinnunni gat ekki annað eftir að hafa verið inni í allan dag uppi á heiði. Hins vegar þá var þetta um kvöldmatarleytið sem ég fór að skokka og ég held að það hafi allir í Seljahverfi verið að grilla. Ef fólk var ekki að grilla þá var það nýbúið að bera á pallinn hjá sér því annað hvort var það grilllyktin eða pallaáburðarlykt sem fyllti vit mín. Veit ekki hvor lyktin var verri þar sem að ég var orðin frekar svöng þegar ég loksins kom heim aftur. Vona bara að það verði fleiri svona dagar, það hlýtur eiginlega að vera þar sem að háskólinn er ennþá í prófum og ég man að það var alltaf gott veður í maí þegar maður var í prófum:)

Annars alveg magnað hvað það verður líka sumarlegt að sjá allt þetta fólk vera hjólandi í vinnuna á morgnanna. Um leið og átakið hjólað í vinnuna hófst þá fylltust allar gangstéttar af hjólafólki á morgnanna. Ég er ekki að taka þátt í þessu annars góða átaki, held samt að ef ég myndi hjóla upp í virkjun þá myndi fyrirtækið mitt vinna, pottþétt. Veit hins vegar ekki hvort ég myndi gera mikið annað þann daginn en að hjóla upp eftir og heim aftur;)