Ríkey

mánudagur, mars 30, 2009

Diskó Friskó....

Hvernig væri að diskó tíminn kæmi aftur í tísku - held að það myndi gera lífið skemmtilegra, að minnsta kosti yrði það litríkara. Allavegana miðað við þá búninga sem fólk kom í í afmælispartýið okkar Kristínar síðustu helgi. Það skemmtilegasta við þetta var að nánast allir mættu í búning og tóku þátt í gleðinni með okkur. Langar að nota tækifærið og þakka öllum sem komu fyrir komuna og takk fyrir mig. Læt fylgja eina mynd af okkur fögru litlu diskódísunum :)

fimmtudagur, mars 26, 2009

Long time no hear.....

Þá er maður búinn að prófa að skíða í hinni stóru ameríku. Gekk mjög vel þrátt fyrir svart útlit í byrjun ferðar, ég hölt og Óli veikur. Það var haltur sem leiddi blindann á leiðinni út í vél, en eftir að hafa andað að okkur ameríska fjallaloftinu í nokkra daga þá var skíðað alveg villt og galið. Það er svo fyndið hvað kaninn er mikið fyrir small talk. Allir byrja að spjalla við mann eins og þeir hafi rosalegan áhuga á að kynnast manni. Fólkið sem var með manni í lyftunni, leigubílstjórar og bara allir. Svo eru allir svo kurteisir, t.d. lyftuverðirnir óskuðu manni góðrar ferðar þegar maður settist í lyftuna. Þeir spurðu líka alltaf hvernig maður hefði það, stundum sundu þeir fyrir mann. Eitthvað aðeins annað en lyftuverðir á Íslandi sem yfirleitt garga á fólk því Íslendingar kunna ekki að vera 4 saman í röð til að fara í stólalyftuna.

Um leið og fólk komst að því að maður var frá Íslandi þá heyrðist yfirleitt:
"You really made the news"
"Do you have any money left in the country?" (með mikilli samúð í röddinni)

Svo var einn leigubílstjóri sem spurði bara hvernig þetta gerðist eiginlega......humm hvernig útskýrir maður hrun hagkerfisins í stuttu máli fyrir einhverjum sem veit ekkert um Ísland og líka þegar maður veit kannski ekki alveg sjálfur hvað gerðist.....

mánudagur, mars 02, 2009

Held að ég ætti að breyta nafninu mínu í Bárður því ég er algjör klaufabárður þessa dagana. Byrjaði á byltunni minni í skíðabrekkunni og þar með fór hnéð í klessu. Svo geri ég ekki annað en að reka mig í, dúndra vitlausa beininu í, missi hluti og svo framvegis........ vonandi fer þessi óheppni mín minnkandi með hækkandi sólu. Ætli þetta sé árstíminn eða bara sú staðreynd að ég braut spegil í fyrra, humm ætli það séu þá 6 ár eftir af þessu..... úff púfff......

sunnudagur, mars 01, 2009

Ég þekkti einu sinni fatlafól.......

Núna er ég búin að vera fatlafól í viku og það fer mér engan veginn.... þoli ekki að komast svona hægt áfram, ég tek yfirleitt framúr fólki þegar það er að ganga um gangana í vinnunni en núna taka allir fram úr mér. Var með tvær hækjur í einn dag, það var alveg nóg - þær gerðu ekki annað en að þvælast fyrir mér og mér fannst ég vera gjörsamlega ósjálfbjarga, eitthvað sem ég þoli ekki. Ég er að vinna í húsi sem er 4 hæðir og ég er staðsett á þeirri þriðju, en sem betur fer er lyfta í húsinu því annars tæki það mig allan daginn að fara í og úr mat. En hingað til hef ég aldrei notað lyftuna áður enda ekki lengi að labba upp á 3.hæð og maður hefur bara gott af því. Mér finnst eins og allir sem ég vinn með geri það sama og velji alltaf stigann, en hins vegar hef ég tekið eftir því að alltaf þegar ég ætla að fara í lyftuna þá er hún á annarri hæð en hún var síðast sem þýðir að það er fullt af fólki sem ferðast með lyftunni. Held reyndar að það séu letingjarnir á 4.hæðinni sem nenna ekki að labba upp;) Ég hélt bara að nú til dags þegar það er hamrað á því hversu holl hreyfing er að allir myndu velja stigann í staðinn fyrir lyftuna þegar tækifæri gefst ....... en sem betur fer styttist í að ég geti hætt að taka lyftuna og farið að hlaupa upp og niður stigana aftur. Það er ekki alveg minn tebolli að vera svona hægfara en þetta er nú allt að lagast. Verð farin að hlaupa 10km áður en ég veit af ;o)

En annað sem ég hef tekið eftir er að þegar maður er svona meiddur þá eru allir tilbúnir að aðstoða mann, opna fyrir mann hurðir, halda á dótinu manns, færa manni eitthvað að drekka o.s.frv. - greinilegt að fólk er alveg ágætt inn við beinið, hehe..... nei ég segi nú bara svona en það góða í fólki kemur í ljós þegar einhver þarf á hjálp að halda. Ég gerði reyndar tilraun til þess að slasa einn vinnufélaga minn í vikunni, tókst næstum því. Ég alveg óvart lokaði skápahurð á hausinn á honum og hann varð hálfvankaður eftir það, ehemmm ég sá ekki hvar hann var staddur og ætlaði að loka skápnum og drífa mig svo áfram eins og venjulega en allt í einu var einhver fyrirstaða og skápurinn lokaðist ekki....... greyið fékk næstum gat á hausinn. Hann hélt að ég væri bara að reyna að fá einhverja fleiri með mér í slasaða liðið ;) Þannig að passið ykkur á mér........