Ríkey

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Um daginn gerði ég ekki annað en að detta eða reka mig í eða eitthvað álíka en ég hélt að það væri nú búið en NEI aldeilis ekki. Var að ganga í gær og steig greinilega á eina hálkublettinn sem var þar sem ég var stödd og svoleiðis flaug á hausinn. Ég er að tala um eins og í bíómyndunum þar sem að báðum fótunum er kippt undan manni og áður en maður veit af eru fæturnir komnir hærra en höfuðið. Já ég veit ég er ótrúlega fær:) en sökum þess að rassinn og höfuðið skullu í jörðinni þá geng ég eins og áttræð kelling, svo ég tali nú ekki um tilþrifin sem ég þarf að sýna þegar ég sest inn í bílinn og stend upp aftur. En eins gott að vera með smá púða á rassinum þegar maður dettur svona til að koma í veg fyrir að maður brotni. Þannig að passið ykkur á þessu svelli það gæti stolið fótunum undan ykkur, það er að segja ef að þið eruð jafn blind og ég og takið ekki eftir eina svellinu í kílómeters radíus;)

Ég prófaði í gær að keyra metanbíl. Tók þátt í ökutækjakeppni sem var í gangi hérna í skólanum. Það var reyndar bara alveg eins og að keyra venjulegan bíl nema mér fannst hann ekki eins hávær. Í keppninni voru líka tvinnbíll (sem heyrist nánast ekkert í þegar hann er í gangi), rafmagnsbíll (sem er enn hljóðlátari) og svo bensín og díselbílar (bæði fólksbílar og jeppar). Einnig var vetnisstrætóinn með í för, en hann er ekki sambærilegur við hina bílana. En mér finnst soldið fyndið hvað allir hugsa til framtíðarinnar bíða eftir að vetnisbílar komi á markað og það eins og það eigi eftir að bjarga umhverfinu. En það er svo langt þangað til það gerist og af hverju pælir fólk þá ekki í núinu og fær sér tvinnbíl eða metanbíl sem eru til í dag. Segi ég og keyri um á bensínbíl, en hann er lítill og eyðir frekar litlu og ég er ekki á nagladekkjum þannig að ég er ekki að búa til óþarfa svifryk með því að spæna upp malbikið. Verð þó að viðurkenna að ég vissi ekki að hægt væri að kaupa metanbíl sem sýnir kannski það sem er að, þ.e. að fólk veit ekki nóg um hvernig það getur bætt umhverfið. En svo er það spurning hvort maður sé hræsnari að hugsa bara um umhverfið út frá bílnum en engu öðru, eins og að svortera fernur, pappakassa ofl. sem fellur til á heimilinu.........æ það er endalaust hægt að gera betur á öllum sviðum þegar umhverfismálin eru annars vegar. Kannski er það samt málið að byrja smátt og fikra sig svo áfram á þessari braut og svo að lokum þá verður maður orðinn grænn fram í fingurgóma. Held þó reyndar að mínir fingur verði aldrei grænir þar sem að ég hef ekki verið þekkt fyrir að halda plöntum á lífi, mér hefur meira segja tekist að láta kaktus sem ég átti mygla:)

mánudagur, nóvember 20, 2006

Við Óli tókum leikhúsin með trompi þessa helgina. Fórum á föstudagskvöldið að sjá Pétur Gaut og svo í gær fórum við á Manntafl. Mjög ólík verk en bæði skemmtileg, þó miserfitt að skilja þau. Verð að viðurkenna að ég mátti hafa mig alla við til að ná að fylgja söguþræðinum eftir í Pétri Gaut, kannski vegna þess að ég vissi ekkert um sýninguna áður en við fórum á hana. Held samt að ég hafi skilið verkið í lokin, eða kannski ekki hver veit:)

Alveg magnað hvað það gat komið mikill snjór á skömmum tíma um helgina. Verð þó að viðurkenna að Yarisinn er ekki kannski alveg besti bílinn í hlíðum Breiðholtsins þegar það er svona mikill snjór en mér tókst þó að koma honum út af planinu í morgun með smá herkjum. Reyndar var Óli búinn að moka aðeins frá bílnum í gærkvöldi svo að ég kæmist nú leiðar minnar í morgun. En svo er það stóra spurningin kemst ég út úr bílastæðinu hérna við skólann á eftir eða ekki? Er reyndar búin að finna fólk til að ýta mér ef með þarf:)

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

Ég held að það hafi lítill Hans klaufi tekið sér bólfestu inn í mér. Ég geri ekki annað þessa dagana en að klaufast. Á föstudaginn flaug ég á hausinn í stiganum heima og fékk fallega marbletti eftir það og mjög aum hné. Í gær gekk ég á glerhurð af fullum krafti, stangaði hana þannig að það glumdi í öllu. Ég veit að ég sé illa en hvað er málið með að sjá ekki heila hurð en afrakstur þess er lítil sæt kúla á enninu. Ég er svona eins og lítið barn sem er að byrja að ganga og ræður ekkert við sig:)

mánudagur, nóvember 13, 2006

Helgin búin og enn einn mánudagurinn kominn. Átti reyndar mjög fína helgi sem ég eyddi kökuát og afslöppun. Fór í gær í baðstofuna í Laugum með Ingu systur og við slöppuðum af. Fengum boðsmiða í þetta dekur og ákváðum að nýta okkur það. Þetta er mjög flott þarna og ekkert smá þægilegt að vera þarna í rólegheitunum enda leið tíminn mjög hratt þarna. Við prófuðum flest allar gufurnar, en það eru ekkert smá margar þarna með mismunandi ilmum og mismiklum hita og mismiklu rakastigi. Reyndar voru sumar erfiðari en aðrar sökum hita. En fórum síðan í heita pottinn sem var með jarðsjó í sem á að vera rosagott fyrir húðina, kannski það sé ástæðan fyrir því að mér líður eins og nýrri manneskju:)

En svo er Afró aftur í kvöld og vonandi tekst mér að teypa tærnar á mér nógu vel svo ég fái ekki aftur svona miklar blöðrur eins og síðast. Fékk reyndar svo stóra blöðru á annan fótinn að ég gat varla gengið eftir tímann. En þetta er svo þvílíkt skemmtilegt að þó maður sé að drepast í fótunum þá langar manni samt að halda áfram að dansa. En talandi um að halda áfram þá er líklegast best fyrir mig að halda áfram að vinna hérna svo verkefnið komist eitthvað áfram;)

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Hann á afmæli í dag,
hann á afmæli í dag,
hann á afmæli hann Óli,
hann á afmæli í dag.
vei vei vei vei vei vei vei

Til hamingju með afmælið elsku Óli:)

föstudagur, nóvember 03, 2006

Dagurinn í gær var ekki alveg minn dagur. Það var þrisvar sinnum reynt að keyra á mig meðan ég var að keyra. Þótt ég sé á litlum bíl þá er óþarfi að reyna að keyra yfir hann:) Svo ætlaði ég að vera svo dugleg að gera mælingar fyrir verkefnið mitt, sem hefur nú ekki gengið áfallalaust hingað til, en dagurinn í gær var greinilega ekki dagurinn til þess að gera þessar mælingar því um leið og ég ætla að byrja þá bilar hluti af mælibúnaðinum. Núna er ég að bíða eftir að fá sendan nýjan magnara (sem var það sem bilaði). En þolinmæði þrautir vinnur allar eða er það ekki annars:)
Já maður verður að vera jákvæður því annars gerir maður sér svo erfitt fyrir í lífinu......vó ég fór greinilega réttu megin fram úr í morgun. Hvernig getur maður ekki verið í góðu skapi í dag þar sem að það er föstudagur og ég er að fara í óvissuferð á morgun með saumaklúbbnum mínum og spennan er gríðarleg fyrir þá ferð.

Síðasta mánudag byrjaði ég á Afró námskeiði með Kristínu vinkonu og mömmu hennar. Þetta er ekkert smá gaman en samt soldið púl. Maður er nú samt soldið eins og kjánaprik, sveiflandi höndum og fótum út í loftið að reyna að ná sporunum:) Kannski maður dansi bara afró í kringum jólatréð þessi jólin, hehe;)