Ríkey

mánudagur, október 24, 2005

Kvennafrídagurinn minn er þannig að ég sit upp í skóla og er að læra. Já það er enginn sem vill klára fyrirlesturinn minn sem ég á að halda á miðvikudaginn fyrir mig þannig að ég neyðist víst til þess að gera það sjálf. Mér var bent á það að biðja einhvern kall sem er með 64,15% hærri laun en ég til að gera hann fyrir mig en hér eru allir á sömu lélegu laununum, þ.e. námslánum frá LÍN. Þó svo að LÍN mismuni fólki eftir ýmsu þá hafa þeir allavegana ekki hingað til mismunað fólki eftir kyni, ekki svo ég viti til eða eru strákar kannski að fá hærri námslán en stelpur, hver veit???
Nei en annars þá sit ég hérna inni í hlýjunni fyrir framan tölvuskjáinn og pikka inn fyrirlesturinn minn og hugsa bara til þeirra sem eru úti í kuldanum að berjast fyrir jafnrétti og betri launum. Væri ekki líka hægt að berjast fyrir hlýrra veðri hér á klakanum. Rennilásinn á úlpunni minni var nebbla að bila sem er afar óhagstætt þegar það er svona kalt. Svo sér maður ekki neitt annað en spár um fimbulkulda sem á að vera í Evrópu í vetur, kannski eins gott að maður fari að drífa sig með úlpuna í viðgerð.

Fór á laugardaginn í útskriftarveislu hjá Hlín Ben og þvílíkt stuð. Maður dansaði alveg eins og vitlaus væri og svo var tekin einstaklega vanhugsuð ákvörðun = að fara í bæinn. Það var hvergi hægt að komast inn því það voru svo langar raðir alls staðar, meira segja allt of löng röð á Nonna til að nenna að bíða þannig að við fórum bara heim. Ég segi bara takk kærlega fyrir frábært partý Hlín...........

fimmtudagur, október 13, 2005

Suma daga á maður ekki að fara fram úr.........ég átti einn slíkan í gær. Byrjaði á því að ég var að ryksuga og var að rembast við að kíkja undir skáp hvort að það væri nokkuð eitthvað dót þar sem ég mætti ekki láta hverfa inn í ryksuguna. Við það þá rak ég mig svona harkalega í hornið á massívu tréborði og gerði þar með heiðarlega tilraun til þess að kinnbeins brjóta mig með tilheyrandi sársauka. En áfram héldu þrifin. Þar næst þegar ég var alveg að verða búin að ryksuga þá sá ég allt í einu að einn puttinn á mér var allur blóðugur, ég hafði greinilega rekið mig í og fengið sár. Nema hvað restin af tiltektinni tókst nú áfallalaust. Síðan var komið hádegi og ég orðin svöng, ótrúlegt en satt. Þannig að fyrir valinu varð ristuð beygla og þegar ég er að taka beygluna upp úr brauðristinni þá brenni ég mig á þumalputta og fékk blöðru. Um kvöldið voru svo tærnar á mér orðnar eitthvað of stórar þannig að mér tókst að berja þeim í hitt og þetta sem á vegi mínum varð. Vona að þetta hafi verið óheppni dagurinn þetta árið og það sé langt í þann næsta.

Annars þá fór ég á kaffihús í gærkvöldi með Eyrúnu og Kristínu. Við sátum á kaffihúsi niðri á Lækjartorgi og allt í einu sjáum við fullt af menntaskólakrökkum á leið á skólaball. Það er nú svo sem ekki í frásögur færandi nema hvað stelpurnar voru í nánast engu og það var alveg skítkalt úti, bbrrrrrr. Held að sum pilsin hafi ekki verið efnismeiri en hárband.......omg er ég að verða kelling eða klæddi maður sig kannski líka svona þegar maður var í menntó, algjörlega óháð veðri............eða er maður kannski bara abbó af því þessar stelpur geti verið í svona stuttum pilsum meðan maður myndi aldrei sýna fínu lærin sín í svona stuttu, ég veit ekki;)

fimmtudagur, október 06, 2005

Í dag er kominn mánuður síðan ég kom heim og ég held að ég sé komin yfir bloggstoppið sem ég er búin að vera í. Ýmislegt hefur gerst á þessum mánuði........þó kannski ekki neitt eitthvað agalega spennandi. Ég fór á reunion hjá árgangnum mínum úr grunnskóla og það var bara mjög gaman enda dansaði maður alveg af sér fæturna, svo sem ekki í fyrsta skipti:)
Svo hefur gengið svona upp og niður í þessum skóla hérna. Mér finnst eins og ég sé að byrja hérna upp á nýtt. Maður þekkir allt í einu nánast engan, maður hefur enga séraðstöðu og umsjónarkennarinn minn er nánast hættur að vinna við skólann þannig að einhvern veginn var allt hálf glatað þegar ég kom aftur í VR. En núna er allt að batna og maður er farinn að finna MS nema út um allt sem voru bara í felum fyrstu vikurnar og það er farið að vinna í aðstöðuleysinu hérna fyrir MS nema. Já kannski var þetta ekkert svo slæmt heldur var ég bara í einhverju neikvæðnis kasti sem ég er að ná mér upp úr. Komst reyndar að því í gær að ég er að fara í dagsferð austur á land eftir 2 vikur að skoða virkjanasvæðið á Kárahnjúkum og álversframkvæmdirnar á Reyðarfirði, held að það verði rosa gaman.

Ég og strætó erum orðnir alveg bestu vinir, nema það sem mér þykir kannski verst er að það tekur mig alveg 40 mín að komast heim og þegar maður situr einn í strætó og hugsar allan tímann um hvað maður ætlar nú að vera duglegur og framtakssamur þá er maður bara orðinn alveg uppgefinn þegar maður kemur heim og framkvæmir akkúrat ekki neitt, nema þá helst að horfa á íslenska bachelorinn eða leitina eða hvað þetta heitir.

Þessi helgi stefnir reyndar í góða helgi þar sem að hún byrjar með því að það verður haldið Októberfest hérna í HÍ og það virðist lofa góðu miðað við dagskrána. Aldrei að vita nema að maður fái sér Bratwurst, Brezel og svo kannski bara smá bjórsopa svona til að kræsingarnar standi nú ekki í manni. Þannig að ef þig vantar eitthvað skemmtilegt til að gera á föstud. komdu þá í sirkustjaldið sem búið er að reisa fyrir framan HÍ og þá erum við að dansa;)

En þá er komið að því sem ég er búin að setja fyrir mig í langan tíma, ég var klukkuð og þarf því að segja 5 tilgangslausar staðreyndir um sjálfa mig. So here goes nothing:

1) Mér finnst grænar baunir vondar. Ég er búin að reyna að læra að borða þær en Neibb þær eru ekki góðar, tut mir leid!
2) Mér finnst bjór góður, hummmm........kemur líklega engum á óvart:)
3) Ég hef tvisvar sinnum búið í Þýskalandi í eitt ár í senn, kannski skýringin á bjórdrykkjunni!!!
4) Ég er búin að vera í skóla síðastliðin 20 ár samfellt, ég hlýt að vera klikkuð
5) Mér leiðast keðjubréf............
sem er ástæðan fyrir því að ég ætla ekki að klukka neinn, muhahahahhahahaaaa........

Prost und auf Wiedersehen...........