Ríkey

miðvikudagur, júní 30, 2004

Hvað haldiði að hafi gerst í dag????? nei ég vann ekki í lottó, but I wish. Ég mætti í morgun í mesta sakleysi mínu í vinnuna og byrjaði að vinna. Svo allt í einu þá brotnuðu gleraugun mín, ekki glerin sjálf heldur umgjörðin. Mér tókst reyndar aðeins að reka þau utan í mælitækin sem ég var að nota en hey gleraugu eiga ekki að brotna sig svona.... þannig að ég fór síðan í kaffi og fékk teip hjá verkstjóranum. Þegar einn strákurinn sá mig sagði hann: " hey þú lítur alveg eins út og skáknörd". Ég meina þó svo að ég hafi verið með grænt teip utan um gleraugun mín milli augnanna þá var ég ekki nördaleg, leit meira út eins og geimvera. Það versta er að þetta er ekki í fyrsta skiptið sem þetta gerist fyrir gleraugun mín. Er farin að halda að hausinn á mér blási svona út eða eitthvað, skil þetta ekki alveg. Síðan kom Óli í hádeginu að redda mér, skutlaði mér heim og þar fann ég gamlar ónotaðar linsur og tróð þeim í mig og fór aftur í vinnuna. Er núna eins og ég veit ekki hvað með svima og hausverk og fleira skemmtilegt út af vitlausum styrkleika. Vonast til að geta reddað þessu á morgun. Ég sem ákvað það einmitt um daginn að kaupa mér ekki ný gleraugu strax en greinilega röng ákvörðun. En best að fara og taka linsurnar úr mér áður en þær hoppa úr sjálfar. Framhald af ævintýrinu kemur seinna....
Þessi blinda;)

sunnudagur, júní 27, 2004

Ótrúlegt en satt þá tókst mér ekki að opna skólabækurnar þrátt fyrir heiðarlega tilraun í vikunni. En best að stefna á að byrja í næstu viku. Maður verður nebbla að setja sér markmið, þetta er alltaf sagt við mann;)
Þá er annars ágætis helgi að verða búin. Var samt að vinna á laugardaginn, kom heim um 4 dreif mig í sturtu og svo að kjósa. Það er nú alltaf jafn hressandi að sitja inni í einhverjum klefa og hugsa um hvar á maður að setja krossinn eða á maður kannski ekki að setja neinn kross,hummm.... erfiðar ákvarðanir. Síðan var ég drifin austur á Nesjavelli á samkomu sem félag ungra framsóknarmanna var með. Löng saga að segja frá því af hverju við fórum en enduðum þar í kokteilboði og 3 rétta kvöldverð, en þetta endaði á því að verða hin ágætasta skemmtun. Alltaf gaman þegar maður gerir eitthvað óvænt. Hver veit í hvaða ævintýri maður lendir næst.......

fimmtudagur, júní 24, 2004

Halló umheimur. Loksins nenni ég að setjast fyrir framan tölvuna í stað þess að hlamma mér fyrir framan sjónvarpið og enda með því að sofna þar. Hélt í dag að það væri kominn vetur aftur. Var í kraftgalla á tímabili í vinnunni, þetta er ekki djók og ég er að vinna á höfuðborgarsvæðinu en ekki upp á fjöllum. Það er nú svo sem ekkert spennandi að gerast hjá manni þessa dagana nema hvað ég er að átta mig á því að sumarið er að fljúga frá mér og ég sem ætlaði að gera svo margt og vera síðan svo dugleg að læra, hummm ekki alveg að gerast. Tók nú samt til námsbækurnar í gær, bara svona til að friða samviskuna. Ætti þess vegna að snúa mér við og opna a.m.k. eina þeirra því þegar ég lít á þær þá heyri ég að fróðleikurinn bíður eftir því að ég opni bókina svo hann geti frussast út og beint upp í heilann minn. Vildi að það væri svona einfalt að læra:)
En best að hætta þessari vitleysu og reyna að rembast við að opna eina bók. Læt vita seinna hvernig gekk......

fimmtudagur, júní 17, 2004

Jæja jæja þá ætla ég loksins að skrifa eitthvað aftur. En kannski svo að maður klári ferðasöguna.
Síðasta vikan var frábær enda var það eina sem var á áætlun þá vikuna var afslöppun. Við flugum sem sagt frá Bangkok til Phuket og þegar við komum þangað var hlaupið beint út á strönd í sólbað. Það var nú svo sem ekki mikið annað gert en að slappa af og liggja í sólbaði. Fórum einn daginn í siglingu og snorkluðum með fiskunum í sjónum, sem er mjög heitur þarna í Thailandi. Ef maður kastaði brauði í sjóinn þá komu heilu torfurnar af fiskum í öllum regnbogans litum og syntu svo allt í kringum mann. Einn daginn voru haldnir hinir ógleymanlegu Phuketleikar sem voru svolidið í anda Survivor. Öll liðin voru með búninga og allir málaðir í framan með stríðsmálingu. Fólkið á hótelinu hélt örugglega að við værum klikkuð því svo vorum við líka með svona Tóka - kvöld (eins og gert er í MR). Þá bundu allir lökin af rúminu sínu utan um sig og svo örkuðum við niður á strönd og héldum partý þar. Hótelstarfsmennirnir ætluðu að fara að stoppa okkur í að fara í lökunum en þá var ein stelpan úr hópnum sem sagði að þetta væri hefð á Íslandi að útskriftarhópar gerðu þetta þannig að okkur var bara óskað til hamingju með útskriftina og svo sagt góða skemmtun:) Næst síðasta kvöldið héldum við svo uppi stemningunni á hótel barnum með söng og íslenskum hressleika. Heimferðin var hins vegar ekki eins skemmtileg þar sem að ég var hálflasin, út af ofvirkri loftkælingu á hótelherberginu mínu. Ég var svo stífluð og kvefuð að ég fékk þvílíkar hellur í fluginu og sársaukinn sem fylgdi var næstum óbærilegur. En eftir fyrsta flugið fékk ég góð ráð frá einni í hópnum, ég átti að setja glös yfir eyrun á mér í lendingu því að það myndi minnka þrýstingsbreytinguna eða eitthvað álíka. Allt gekk voða vel í fluginu til London en þegar við vorum að lenda í Keflavík þá leið mér ekki vel og leit út eins og asni með glös yfir eyrunum. En ég fékk mestu hellur sem ég hef nokkurn tíma fengið og heyrði ekkert í heilan dag. En heyrnin kom svo smám saman. Mæli sem sagt ekki með því að fara í flug þegar maður er kvefaður.

En í dag er 17. júní, vei ;) Ég og Óli fórum í bæinn í dag en héldum á tímabili að við myndum fjúka á haf út því það var svo mikið rok. En það var sól og þess vegna ætlaði ég nú aldeilis að vera fín og fór í pilsi og engum sokkabuxum. Ekki góð hugmynd en við löbbuðum bara nógu hratt í gegnum bæinn og drifum okkur svo heim aftur. Það er alveg ágætt að halda sig innandyra í þessu gluggaveðri:)