Ríkey

fimmtudagur, október 29, 2009

Eru til einhverjar reglur sem segja að frá og með ákveðnum degi í október megi auglýsa jólavörur og annað sem tengist jólunum. Finnst eins og í síðustu viku þá hafi þessi dagur verið. Heyri ekkert annað en jólatónleika og jólahlaðborðsauglýsingar í útvarpinu. En sem betur fer hef ég ekki heyrt nein jólalög ennþá - verð að viðurkenna að þó svo að maður sé kannski farinn að huga að jólagjafakaupum þá er ég samt ekki tilbúin til þess að heyra jólalög strax. Tíminn líður reyndar alveg ótrúlega hratt núna og það eru reyndar bara 8 vikur til jóla, ekki að ég sé að telja :o)

laugardagur, október 03, 2009

Já sæll bara kominn október og farið snjóa í fjöllin og mér finnst ég vera nýbúin í sumarfríi. Sit núna á laugardagskvöldi fyrir framan tölvuna og blogga í staðinn fyrir að vera hjálpa til við málningarvinnuna sem er í gangi á heimilinu. Ótrúlegt hvað það hljómar alltaf vel að fara út í það að mála og breyta og bæta heima hjá sér þangað til að því kemur. Var alveg búin að gleyma hvað það getur verið mikið stúss að fara í svona framkvæmdir, þó svo að þær séu litlar í þetta skptið. En bláu veggirnir í stofunni eru horfnir, þ.e. liturinn á þeim er orðinn hvítur aftur og þvílíkur munur. Skil ekki hverjum datt eiginlega í hug að mála veggina bláa......... en þá er bara að vona að maður fái ekki leið á þessum hvíta lit ;o)

þriðjudagur, ágúst 11, 2009

Jákvæðni borgar sig

Ég hef alltaf reynt að vera frekar jákvæð manneskja og sjá björtu hliðarnar á flestum málum, núna er búið að sýna fram á að það borgar sig - loksins :o)

þriðjudagur, maí 26, 2009

Greinilegt að sumarið er komið - helsta merki þess er að það er komið gott veður og ég vinn þá eins og brjálæðingur. Hefur verið helsta merki þess að það sé komið sumar síðustu árin. Kom heim úr vinnunni áðan og var úti að njóta síðustu sólargeisla dagsins og aðeins að spjalla við pabba þegar "uppáhalds" nágranninn kemur að spjalla við okkur líka. Áður en ég veit af þá er hann farinn að dansa fyrir okkur .................. verð að viðurkenna að ég þurfti að halda í mér hlátrinum. Frekar fyndin sýn að sjá næstum sjötugan kall hoppandi og skoppandi fyrir framan mann. Sem betur fer fór hann áður en ég sprakk úr hlátri. Hef alltaf vitað að sumt fólk er spes en vá....... ég hélt jafnvel að þreytan væri farin að segja svona mikið til sín en fyrst að pabbi sá þetta líka þá veit ég að þetta gerðist. Gott að nágrannarnir geta fengið mann til að brosa :)

fimmtudagur, apríl 30, 2009

Klaufabárður

Held að ég þurfi að skipta um nafn ...... held að ég ætti að taka upp nafnið Bárður, Klaufabárður........ tókst að skera mig aftur á hníf í eldhúsinu. Búin með 3 af 5 puttum á vinstri hendi. Er allavegana búin að segja starfi mínu í eldhúsinu lausu þori ekki að fórna fleiri puttum. Greinilegt að það var ekki kennt að beita hnífum í verkfræðinni :o)

sunnudagur, apríl 12, 2009

Gleðilega páska....

Held að ég elski páskafríið .... vildi bara að það væri aðeins lengra :o) Þá hefði ég lengri tíma til að borða páskaeggin mín - úff er komin með í magann af öllu súkkulaðiátinu í dag. En hvers vegna hámar maður allt í sig á einum degi, hversu heimskulegt er það. Maður treður í sig af súkkulaði og einstaka mjólkusopa inn á milli þangað til maður engist um af magaverkjum, þá fyrst kemur sú hugsun upp að kannski ætti maður að stoppa í smá stund.

Til þess að ég þurfi að gera sem minnst í þessu páskafríi þá gerði ég heiðarlega tilraun til þess að skera af mér tvo putta í gær. Tókst ekki betur en svo að ég er með tvo vel plástraða fingur á vinstri hendi - ekkert alvarlegt en það blæddi samt alveg nóg úr þessu. Verð nú samt að viðurkenna að ég mæli ekkert sérlega mikið með þessari aðferð til að liggja og gera ekki neitt........

mánudagur, mars 30, 2009

Diskó Friskó....

Hvernig væri að diskó tíminn kæmi aftur í tísku - held að það myndi gera lífið skemmtilegra, að minnsta kosti yrði það litríkara. Allavegana miðað við þá búninga sem fólk kom í í afmælispartýið okkar Kristínar síðustu helgi. Það skemmtilegasta við þetta var að nánast allir mættu í búning og tóku þátt í gleðinni með okkur. Langar að nota tækifærið og þakka öllum sem komu fyrir komuna og takk fyrir mig. Læt fylgja eina mynd af okkur fögru litlu diskódísunum :)