Ríkey

miðvikudagur, júlí 26, 2006

Held að heilinn sé í sumarfríi svona rétt eins og Ísland. En alveg magnað hvað maður afrekar miklu meira með því að fara 50 mín fyrr á fætur á morgnanna. Held að ég þurfi að koma þessu upp í vana að vakna fyrr, það gæti þó orðið þó nokkuð erfitt fyrir svefnpurrku eins og mig. Annars þá gengur lífið sinn vanagang en þó held ég að það búi ljósaperuálfur í kjallaranum hjá okkur Óla sem eyðileggur perurnar. Ég steig nebbla framúr í gærmorgun og var að teygja mig og rak mig þá í loftljósið í svefnherberginu (það er frekar lágt til lofts hjá okkur) og þá fékk ég bara peruna í hausinn áður en hún datt í gólfið og smallaðist. Ekki sérlega gaman að þurfa byrja morguninn á því að draga fram ryksuguna. Sem betur fer er bjart úti meirihluta sólarhringsins ennþá þannig að það skiptir ekki svo miklu máli þó að nánast helmingurinn af ljósunum hjá okkur sé með sprungna peru. Vona að ljósperuálfurinn verði ekki svona skæður þegar það fer að dimma meira. Ekki nema maður taki það upp að lýsa íbúðina upp með kertaljósi í vetur, það gæti orðið mjög kósí en kannski leiðinlegt til lengdar;)

Eins og flestir vita þá er ég búin að vera að hlaupa/skokka í allt sumar og núna er ég búin að skrá mig í 10 km hlaupið í maraþoninu í ágúst þannig að það verður ekki aftur snúið. Jább ég lét loksins verða af því, er búin að vera að geyma það að skrá mig en núna hef ég tekið áskorun minni á sjálfa mig. Eins gott að standa sig:)
En er þá ekki best að drífa sig út og skokka smá, maður verður allavegana að reyna;)

mánudagur, júlí 17, 2006

Ísland er í sumarfríi......

Ég er búin að komast að því að í júlí þá er Ísland í sumarfríi. Það er gjörsamlega allt í lamasessi og enginn við sem maður þarf að ná í, því viðkomandi er í sumarfríi og sumarafleysingarmanneskjan veit ekki neitt af því sem ég er að leitast eftir að fá upplýsingar um. Hef aldrei tekið eftir þessu áður því venjulega er maður að vinna sjálfur allt sumarið og svo þegar maður fer aftur í skólann á haustin þá er allt komið aftur í eðlilegar horfur. Þannig að ef maður þarf að nota eitthvað í júlí þá er best að vera búinn að útvega sér það fyrir 1.júlí annars getur maður gleymt því þar til eftir verslunarmannahelgi. En sem betur fer er netið ekki í sumarfríi í júlí og allar upplýsingarnar sem eru þar eru bara á sínum stað;)
En þið sem eruð í sumarfríi njótið þess og góða veðursins, hehe:)

föstudagur, júlí 14, 2006

Ég held að íslendingar séu alveg að gefa upp vonina á því að fá smá sumar. Mér heyrist flest allir vera orðnir leiðir á þessari rigningu, roki og kulda sem hefur einkennt sumarið í sumar. Ég er nú samt næstum farin að tengja þetta við mig persónulega. Af hverju? Jú ég skal útskýra...... sumarið 2004 kom hitabylgja í ágúst - hún stóð yfir í ca.3 vikur og akkúrat í þessar 3 vikur sat ég inni og lærði fyrir sumarpróf. Sumarið 2005 var ekkert sérstakt í þýskalandi en víst alveg ágætt á Íslandi, hummm ég var í þýskalandi þetta sumarið en ekki á Íslandi. Sumarið 2006 er alveg agalega gott í Þýskalandi en hræðilegt á Íslandi - ég er á Íslandi en ekki í Þýskalandi. Ég er virkilega farin að halda að þetta hafi eitthvað með mig að gera:)
En þá er bara best að vera með sól í hjarta og klæða sig betur þegar maður fer út í "góða" veðrið - segi ég kuldaskræfan mikla;)
En að lokum: Góða helgi og njótið veðurblíðunnar, muhahahahahahahahahahaha................

miðvikudagur, júlí 12, 2006

Fyrirmyndir
Heyrði í morgun umræðu um fyrirmyndir á einni útvarpsstöðinni á leið minni í skólann. Að mestu leyti snérist þetta um að börn nú til dags hefðu engar heilbrigðar fyrirmyndir eins og voru hér á árum áður. Einnig snérist umræðan um að ung börn væru að nota kynferðisleg og klámfengin orð dagsdaglega og flestir sem hringdu inn í þennan þátt voru sammála um að þetta væri allt foreldrunum að kenna að leyfa börnunum sínum að hanga á netinu og glápa á sjónvarpið daginn út og daginn inn. En eftir að hafa hlustað á þessa umræðu alla leið niður í skóla þá fór ég að velta fyrir mér hvort þetta blessaða útvarpsfólk hefði einhvern tímann velt því fyrir sér að þau væru líka fyrirmyndir barna sem hlusta á þáttinn. Einn þáttastjórnandinn var að hneykslast á því að lítil börn væru að nota orðið *sexy* en á þessum 15 mín. sem ég hlustaði á þau þá notaði þessi sami þáttastjórnandi þetta orð örugglega 4-5 sinnum þannig að er það nema furða að lítil börn noti það sem þau heyra í útvarpinu.
Þetta fékk mig bara til að hugsa að maður þarf kannski að passa sig meira hvað maður segir og í návist hvers maður segir hlutina.

þriðjudagur, júlí 11, 2006

Ég held að sumt fólk hafi virkilega fengið ökuskírteinið sitt í Cheerios-pakka. Það voru allavegana nokkrir sem voru á undan mér í morgun á leið minni í skólann sem kunnu ekki að skipta um akrein. Hvernig getur fólk verið svona utan við sig að það taki það nokkrar mínútur að skipta um akrein og á meðan á þessu stendur þá keyrir fólk á tveimur akreinum í einu og það er vonlaust að fara fram úr. Og svo þegar einn þessara frábæru bílstjóra var loksins búinn að ákveða sig á hvorri akreininni hann ætlaði að vera (eða ég hélt það að minnsta kosti) þá var hann næstum kominn yfir aftur og beint í hliðina á mér, en ég slapp.
En annars er ég bara hress og kát, svona fyrst ég komst heil á húfi niður í skóla:)

föstudagur, júlí 07, 2006


Í sól og sumaryl......... já loksins lét hún sjá sig þessi gula þarna á himninum. En það hefur lítið heyrst frá mér undanfarið ekki vegna þess að ég sé búin að vera svona ofurdugleg að vinna í verkefninu mínu, nei því miður, heldur var ég að vinna á ráðstefnu sem var haldin hérna niðri í háskóla. Aumingja útlendingarnir sem voru á ráðstefnunni þegar þeir horfðu út um gluggana á veðrið (sem var rok og rigning) og litu svo á okkur Íslendingana og spurðu hvort þetta væri venjulegt sumarveður? Einn sagði mér að hann væri mjög feginn að hafa tekið þá ákörðun að taka skíðaúlpuna sína með sér, humm það var nú ekki svo vont veður þó það væri ekkert sérstakt.
En nú er ráðstefnan búin og ég búin að snúa mér aftur að verkefninu mínu. Verð nú samt að viðurkenna að það var mjög gott að setjast aðeins í heitapottinn í vesturbæjarlauginni áðan og láta sólina skína smá á sig svona í hádeginu:) Segja svo að það sé ekki gott að vera námsmaður, hehe;) Ég vona bara að sólin sé komin til að vera það sem eftir er sumars, alveg kominn tími á það. Annars er bara ekkert nýtt að frétta nema allt stefnir í það að við Óli förum í okkar fyrstu útilegu í sumar sem verður mína fyrsta útilega síðan sumarið 2004, vííííííí ég hlakka mikið til.