Ríkey

föstudagur, september 15, 2006

Jább Óli kom heim í gær enda hefði ég ekki orðið glöð með að vera komin út á völl og hann hefði ekki komið. Ég er nebbla ekki mikið fyrir það að vakna kl.5:30 á nóttunni. En þegar ég kom út og var að labba út í bíl þá stoppaði ég aðeins og virti fyrir mér hvað allt var rólegt. Það var alveg þögn úti, alveg logn og 15°C hiti. Það er nebbla soldið fyndið hvað veðrið virðist fara í gang um leið og dagurinn, svona rétt eins og það sé ýtt á "On"- takka til að setja daginn og veðrið í gang á sama tíma. Maður ætti kannski að fara að vakna fyrr á morgnanna og njóta góða veðursins sem er þá................ hummmm kannski samt ekki, held að mér finnist betra að sofa aðeins lengur.

Þar sem ég stóð út á flugvelli og beið þess að Óli kæmi þá var ég að fylgjast með fólkinu sem var að koma til landsins og fólkinu sem sótti það. Það voru allir svo glaðir að hitta vini sína og ættingja sem voru komnir að sækja þá. Allir að kyssast og knúsast þarna og fólki var alveg sama um þá sem á eftir þeim komu út úr tollinum, fólk tók sér bara sinn tíma og hinir máttu bara bíða þangað til það var pláss fyrir þá að komast lengra. Það lá stundum við umferðaröngþveiti þarna. En allt fór þetta nú vel fram og Óli kom að lokum og auðvitað stökk ég á hann og knúsaði hann og kyssti, maður getur ekki farið að vera öðruvísi en hinir;)

miðvikudagur, september 13, 2006

Stóra spurning dagsins er: "Ætli Óli komi heim á morgun eða er hann kominn með enn eina afsökunina fyrir að koma ekki heim á klakann"?????? Maður fer nú bráðum að taka þessu persónulega að hann sé búinn að framlengja ferðina sína tvisvar........ skil reyndar að hann sé ekkert spenntur að koma heim í haustveðrið sem er hérna á klakanum. Álpaðist að kíkja á veðurspána fyrir næstu daga og það er bara alltaf spáð rigningu á hverjum einasta degi.

En ég komst að því í gær að börn upplifa rigninguna allt öðruvísi en fullorðnir. Ég var að passa fyrir bróður minn í gær og eftir að vera búin að skutla eldri stráknum á fimleikaæfingu þá vildi sá yngri sýna mér leikskólann sinn. Hann leiðbeindi mér hvert ég ætti að keyra og hvar ég gæti lagt. Svo vorum við komin þangað þá sé ég hvar hann losar bílbeltið og gerir sig líklegan til að hlaupa út. Ég stoppaði hann nú og spurði hvort við gætum ekki séð hann út um gluggann á bílnum. Nei við þurftum sko að fara út og ég benti honum nú á að það væri svo mikil rigning og rok. Honum fannst það nú ekkert tiltökumál og sagði að við þyrftum bara að hlaupa hratt þá væri þetta allt í lagi. Hvað gat ég sagt við því....ekkert þannig að við drifum okkur út og hlupum eins hratt og við gátum að leikskólanum og svo aftur til baka. Hann var hæstánægður með að vera í stígvélum og hafa ekkert blotnað meðan ég var bara fegin að komast aftur inn í bíl og keyra heim í hlýjuna, maður er soddan kuldaskræfa:)

föstudagur, september 08, 2006

Haustið er alveg greinilega komið, allavegana er veðrið í dag algert haustveður. Í dag var svokallaður Stúdentadagur hér við HÍ þar sem stúdentaráð stendur fyrir ýmsum uppákomum og meðal annars voru grillaðar pulsur í hádeginu. Auðvitað drifum við, verkfræðinördarnir okkur þangað og fengum okkur pulsu, gos og skúffuköku. Þetta var haldið inni í svona stóru hvítu samkomutjaldi en það var frekar blaut stemmingin þarna þar sem að allir sem komu inn voru svo hundblautir eftir að hafa hlaupið í rigningunni til að ná sér í ókeypis hádegismat, fátækir stúdentar að spara(eins og ég gerði:)). Þó svo að okkur hafi fundist tómatsósan heldur útþynnt, pulsurnar hálf kaldar og skúffukakan ekkert sérstök þá komumst við nú samt að þeirri niðurstöðu að þetta hafi verið alveg ágætis hádegismatur, þetta var nú einu sinni ókeypis. Mér finnst ég vera farin að hljóma eins og nískupúkinn Jóakim Aðalönd;)

mánudagur, september 04, 2006

Er búin að hafa nóg að gera síðan Óli fór og það besta er að ég hef ekkert þurft að elda sjálf þar sem mér hefur verið boðið í mat á hverju kvöldi síðan hann fór:)
Á laugardagskvöldið fór ég síðan á ball með Kristínu vinkonu, fórum á Sálarball upp í Mosó og dönsuðum alveg eins og brjálæðingar allt ballið. Það var líka þvílíkt stuð þarna og langt síðan ég hef farið á svona ball með hljómsveit og alles.
Sunnudagurinn var tekinn frekar snemma og ekki eytt í svefn. Fór með pabba, Ingu systir, Kristjáni og Tryggva í heimsókn í álverið í straumsvík því þar var opið hús. Þar var manni pískað út í kassabílarallýi, Kristján og Tryggvi settust upp í sitthvorn kassabílinn á meðan ég og pabbi hlupum með þá eins og óð værum. Eftir heimsóknina í straumsvík fór ég heim og tók mig til því leiðin lá í skírn þar sem ég át á mig gat enda ekkert smá stórar og góðar kökur í boði. Það virðist vera sem ég hafi ekki gert neitt annað síðan Óli fór en að borða, hummm........ekki nógu gott. Held að ég verði að fara endurskoða þetta mál annars verð ég orðin kringlótt þegar Óli kemur aftur:-)

föstudagur, september 01, 2006

Var búin að skrifa langan og fínan pistil en einhvern veginn þá tókst mér að klúðra þessu og hann strokaðist út og er því týndur og tröllum gefinn:( Verð að viðurkenna að ég nenni ekki að skrifa hann allan aftur þannig að þetta verður bara stutt í þetta skiptið.

Ég er grasekkja þessa dagana. Óli stakk af til Ameríku á miðvikudaginn. Greinilega svona erfitt að búa með mér þar sem hann virðist þurfa að taka sér svona húsfeðraorlof að minnsta kosti tvisvar á ári. Þegar ég skutlaði honum út á völl og sá allt fólkið með ferðatöskurnar sínar þá hefði ég alveg verið tilbúin í að stökkva upp í næstu vél og skella mér til útlanda. Ég held að þetta sé ávanabindandi, það er útlandaferðir. Þeim mun oftar sem maður fer út þeim mun oftar vill maður fara, það er bara svo gaman í útlöndum:)