Ríkey

mánudagur, febrúar 21, 2005

Ég er á leiðinni.....

Já þar með er það ákveðið, ég kem heim eftir örfáa daga. Þar sem að prófið mitt frestaðist þá ákvað ég bara að skella mér heim og útskrifast. Ég kem heim á fimmtudaginn og útskrifast á laugardaginn. Allri kennslu er hvort eð er lokið í bili og hey ekki á hverjum degi sem maður útskrifast með B.Sc. í verkfræði;)

En annars var bara fyrsti lærdómsdagurinn í dag og hann gekk með eindæmum vel, þ.e. fyrsti lærdómsdagur eftir að kennslu lauk. Eða gekk vel þar til að tölvan mín byrjaði að fríka út. Já núna virkar músin (touchpadið) á tölvunni ekki. Er að segja ykkur það tölvum og hraðbönkum er illa við mig. Já fór nebbla í hraðbanka á föstudaginn og gat ekki tekið út vegna tæknilegra örðuleika en hvað haldiði .... jú það var samt tekinn peningur út af reikningnum mínum. En sem betur fer lenti ég á almennilegum þjónustufulltrúa sem reddaði öllu fyrir mig, en það var eftir að vera búin að hjóla niður í bæ og tala við bankann þar. Mjög fyndin kona í bankanum sem ég talaði við. Ég og Hafrún biðum eins og maður gerir svona í banka en svo var konan voða upptekin og hafði engan tíma til að tala við okkur og leit ekki einu sinni í áttina að okkur. En eftir mikla þolinmæði leit hún til mín og spurði: " Ætlaru virkilega að koma og fá að tala við mig án þess að eiga pantaðan tíma?" með þvílíkum hneykslunartón. Þessir þjóðverjar geta verið svo skrítnir;) en ég fékk 3 mín. af hennar dýrmæta tíma án þess að eiga pantaðan tíma.

En best að drífa sig í háttinn því á morgun bíður annar skemmtilegur lærdómsdagur og eins gott að vera út sofin....... en ég segi nú bara sjáumst bráðum;)

sunnudagur, febrúar 20, 2005

Úff tíminn farinn að fljúga frá manni enn á ný.
Síðasta vika fór í fyrirlestrargerð að mestu leyti. Fór nú samt í magadans á miðvikudagskvöldið og þegar við Hafrún vorum á leiðinni þangað þá sáum við að fólk var búið að henda út á gangstéttarnar allskonar húsgögnum. Þetta er víst gert nokkru sinnum á ári þá hendir fólk út stólum, borðum, gömlum sjónvörpum ofl. ofl. sem það er hætt að nota. Svo eftir að þetta er komið út á götu þá má hver sem er hirða það sem hann vill. Þetta var mjög fyndið þegar við vorum að labba í strætó þá sáum við fólk með vasaljós að leyta að einhverju góssi í þessum gömlu húsgögnum, mjög fyndið:) En svo á fimmtudaginn þá kom bara ruslabíll og hirti allt draslið. Soldið furðulegt, en þetta er eins og íslendingar gera með jólatrén sín.

Svo rann upp hinn fagri fimmtudagur og komið að mér að halda fyrirlesturinn mikla. Ég mætti á svæðið aðeins meira stressuð en ég hafði ætlað mér. Ég hélt fyrirlesturinn og hann gekk alveg allt í lagi. Fékk bara uppbyggilega gagnrýni annað en strákurinn sem var á eftir mér, hann var skammaður í 10 mín. greyið. Fór svo um kvöldið í bíó með Hafrúnu og Bjargeyju. Við fórum á Meet the Fockers og hún var bara ágætis skemmtun. Fórum á hana með ensku tali auðvitað;)

Föstudagurinn var nú síðan soldið vel pakkaður. Fór í tíma og svo beint út í mötuneyti í skólanum og hitti þar flest alla íslendingana og Palla Vald, sem kominn var til að heilsa upp á okkur. Borðuðum saman og svo var best að drífa sig heim í sturtu. Fórum svo heim til Bjargeyjar og gerðum okkur sætar og fínar. Síðan komu strákarnir og náðu í okkur og ferðinni var heitið til Stuttgart á Þorrablót Íslendingafélagsins. Þar tók á móti okkur þessi líka girnilegi þorramatur. Ég var svo dugleg að ég fékk mér einn bita af hákarli og kom honum niður með einu staupi af brennivíni. Verð að viðurkenna að þetta var ekki jafn ógeðslegt eins og ég hafði ímyndað mér EN þetta var nú samt ekki neitt sérlega gott heldur. Eftir að við vorum búin að troða í okkur matnum þá byrjuðu skemmtiatriði sem voru nú svona misgóð. Það voru líka seldir happadrættismiðar og dregið úr þeim en heppnin var ekki með mér þetta kvöldið. En þegar öll skemmtiatriðin voru búin þá var komið að hljómsveitinni, en það voru Land og synir sem spiluðu fyrir dansi og þvílíkur dans. Ég hef ekki dansað svona mikið lengi lengi. Þegar hljómsveitin hætti síðan að spila þá var komið að heimferð, en við höfðum leigt okkur bíl og Toggi keyrði heim. Mikið var gott að komast heim og sofa, þreytt en ánægð með frábært þorrablót.

Laugardagurinn var nú svona frekar mikill rólegheitadagur, enda þreyta í fólki eftir allt blótið:) Framundan er svo skemmtileg vika þar sem ég er nú að fara í próf næsta fimmtudag. Öll kennsla er hætt í skólanum en síðasti tíminn var á föstudaginn þannig að þessi önn er í raun búin nema próf og verkefnaskil. Þannig að best að snúa sér að þessum blessuðu bókum........

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Já enn ein helgin afstaðin ekki svo langt í þá næstu. Alveg magnað hvað þessar helgar koma ört. Vaknaði eldsnemma á laugardagsmorgun og sat fyrir framan tölvuna í 45 mín. til að reyna að kaupa miða á U2 tónleika. Ekkert gekk og hræðsla um að missa af miðum farin að gera vart við sig. Því var ákveðið að drífa sig af stað niður í bæ og bíða í biðröð. Eftir nokkuð langa bið og smá áhyggjur af miðaframboði þá fengum við miða á fínum stað á tónleika. Ég er sem sagt á leiðinni á U2 tónleika 12.júní í Gelsenkirchen, VEI VEI VEI..... er búin að dreyma lengi um að fara á tónleika með þessari snilldarhljómsveit:) Var sem sagt mjög ánægð með þennan laugardagsmorgun.
Eftir hádegi á laugardag fórum við með Dóru og Bjarka niður í bæ. Þau voru í heimsókn hjá okkur í einn dag og þvílíkur dagur. Aldrei hefur ringt jafn mikið hérna síðan ég kom hingað í haust eins og á laugardaginn, enda eftir smá bæjarferð þá flutum við heim. Þórey Edda kom svo í heimsókn seinnipartinn á laugardaginn. Var ákveðið að kíkja aðeins út á lífið og sýna Dóru, Bjarka og Þóreyju hvernig næturlífið er hér í KA. Allir skemmtu sér mjög vel.....:)

Komst að því í dag að veturinn hefur sko alls ekki yfirgefið KA. Vaknaði og leit út í morgun og hummmm.... þvílík snjókoma og ég sem skildi hjólið mitt eftir úti síðustu nótt. Það þýddi ekkert annað en að ég þurfti að skafa af hjólinu áður en ég gat hjólað af stað í skólann. Hélt að þetta myndi nú hætta fljótlega rétt eins og það hefur alltaf, en nei það snjóaði hérna í allan dag. En það fyndnasta er nú samt að þó svo að það snjói allan daginn þá er nánast enginn snjór eftir, undarlegur snjór;)

Fór sem sagt í tíma í morgun og kennarinn sem kennir okkur venjulega gat ekki kennt okkur og var því forfallakennari sem kenndi. Hann var svo sem ágætur nema hvað hann talaði hratt og andaði ekki nema á svona 5 mín. fresti. Og þegar ég er að hlusta á einhvern sem andar svona sjaldan og talar svona hratt þá hætti ég líka að anda, en þetta er mjög slæmt því eftir smá stund er mig farið að svima og ég löngu hætt að hlusta á kennarann. Þannig að ég sat í dag og var að rembast við að anda reglulega. Eftir tímann var ég bara hálf þreytt en þó aðallega svöng, enda tekur það á að einbeita sér svona mikið:)
En fyrirlesturinn minn bíður þannig að best að snúa sér að honum aftur........

föstudagur, febrúar 11, 2005

Já alveg magnað hvað maður finnur sér alltaf eitthvað skemmtilegra að gera en læra þegar maður þarf þess. Er núna að böglast við að gera fyrirlestur sem ég á að halda næsta fimmtudag. Hann fjallar um vatnsaflsvirkjanir á Íslandi, jábbs ótrúlega spennandi. Var að fá senda bók frá Íslandi sem er einmitt um vatnsaflsvirkjanir og þar sá ég að það er til virkjun sem heitir Fjarðarselsvirkjun en ég bý einmitt í Fjarðarseli. Skemmtileg tilviljun ekki satt;) Já ég er sem sagt að skemmta mér konunglega hérna. En best að halda áfram því ekki klárar fyrirlesturinn sig sjálfur, því miður:)

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Afmælisbarn dagsins er Silja, til hamingju með daginn;)

Í gær hélt ég að sumarið væri bara að byrja, sólin skein og það var eiginlega hlýr vindur sem lék um kinnarnar. En í dag er svo orðið kalt aftur, hummm ekki alveg sátt en kannski full snemmt að sumarið byrji í febrúar.

Á þriðjudaginn var hérna svokallað Fasching, en þá fer risaskrúðganga í gengum bæinn og fólk er klætt í allskonar búninga. Þeir sem að eru í skrúðgöngunni eru með allskonar vagna og spila tónlist og henda nammi til áhorfenda sem standa meðfram götunni tilbúnir að beita öllum ráðum til að fá sem mest nammi. Sumir voru með regnhlífar og héldu þeim á hvolfi og náðu þannig í mikið nammi aðrir hentu sér bara í götuna og hirtu allt sem þar lenti. Ég fór ásamt Hafrúnu og Bjargey niður í bæ til að fylgjast með öllu. Auðvitað urðum við að taka þátt í þessu og keyptum okkur þessa líka fínu hatta. Það voru eiginlega fleiri fullorðnir sem voru í búningum en börn og mikið lagt í suma búningana þó svo að aðrir hafi verið ekkert spes.

Í gær var svo flutningur á dagskrá. Ásta, Toggi og Óttar Geir eru nebbla að flytja heim á klakann aftur og í gær voru allir að hjálpa til við að setja búslóðina þeirra í gám. Svo var okkur boðið í mat um kvöldið til þeirra, en það var reyndar heima hjá jónunum. Fengum humar, bruchetta, salat og fiskirisotto, ekkert smá gott. Svo reyndi ég að taka af mér tærnar, var á leiðinni á klósettið en það er svona örlítil hækkun þegar maður gengur inn á klósettið og ég var greinilega ekki að hafa fyrir því að lyfta fótunum því ég held að ég hafi skilið eftir smá stykki af táberginu þarna. Ekkert sérlega þægilegt en bara týpískt fyrir mig;)

Er svo núna að fara að gera fyrirlestur sem ég á að flytja í næstu viku, vei get ekki beðið. Kennarinn var að reyna að stappa í okkur stálinu í morgun fyrir þessa fyrirlestra því hann heldur að við séum öll að deyja úr stressi yfir þessu. Hann segir reyndar að vélaverkfræðingar kunni ekki að halda fyrirlestra og séu verstu fyrirlesarar allra tíma, ekki að þessi kennari kunni það neitt betur. Þannig að eins gott að fara að hreinsa raddböndin og brosið og sýna honum hvernig maður heldur fyrirlestur, hehe;)

mánudagur, febrúar 07, 2005

Ég er á lífi þó svo að það hafi ekkert heyrst frá mér í heila viku. Það var bara svo mikið að gera í síðustu viku að hún bara flaug framhjá mér á ógnarhraða. Það var náttúrulega nóg að gera í skólanum og svo var smá ferðalag með einu námskeiðinu sem ég er í. Áttum að leggja af stað á fimmtudagsmorgun kl.7:30 og viti menn ég var mætt fyrst af öllum, en það hefur nú ekki verið mín sterka hlið að vakna svona snemma á morgnanna:) Ég sofnaði þó fljótlega eftir að rútan fór af stað. Eftir 4 tíma keyrslu komum við til Essen þar sem að við heimsóttum fyrirtækið sem kennarinn okkar vinnur hjá. Eftir marga klukkutíma af misáhugaverðum fyrirlestrum var klukkan orðinn 19:00 og þá var kominn tími til að bruna á farfuglaheimilið sem við gistum á. Við áttum bara að fá að henda dótinu okkar inn og fara svo aftur því það var búið að panta borð fyrir okkur á veitingastað í nágrenninu. En við stelpurnar urðum náttúrulega að skipta um föt og gera okkur sætar, en það skipti ekki máli þar sem að það tók bara 5 mín að keyra í matinn. Þar var okkur boðið í mat af fyrirtækinu sem kennarinn vinnur hjá. Eftir matinn fórum við aftur upp á farfuglaheimilið og sátum bara og spjalla og mér til mikillar undrunar þá þekktist fólk ekki þannig að við byrjuðum á að kynna okkur. Og auðvitað komu fullt af skemmtilegum spurningum um Ísland eins og alltaf þegar þjóðverjar komast að því að ég sé frá Íslandi.
Á föstudeginum þá fengum við aðeins meira af fyrirlestrum en svo fórum við og skoðuðum kolaorkuver sem var mjög gaman. Myndi samt ekki vilja búa þarna í nágrenninu, mér fannst allt vera hálf grátt þarna en fólk býr samt bara rétt handan við hornið. Svo var loksins brunað af stað aftur heim um kl.16:00 og ég var komin heim til mín um hálf níuleytið. Þá tók ég mig til á mettíma og dreif mig niður í bæ þar sem að Íslensku stelpurnar voru á veitingahúsi. Þetta átti nebbla að vera kveðjudjamm fyrir Ástu en hún er að flytja heim á fimmtudaginn. Verð að viðurkenna að ég var orðin soldið þreytt undir lok kvöldsins og var mjög fegin að komast heim í rúmið mitt.
Á laugardagskvöldið var svo skundað heim til Fredriks (einn af svíunum sem er hérna) því hann var búinn að bjóða í innflutningspartý. Það endaði auðvitað með bæjarferð og fullt af vitleysu eins og oft vill verða. Til dæmis ákvað Konni að gefa okkur (mér, Tryggva og Jón Atla) morgunmat á þjóðlegu nótunum, já hann gaf okkur kaldann sviðakjamma. Verð að viðurkenna að þessi eini biti sem ég borðaði var ekki alveg það besta sem ég hefði getað hugsað mér í morgunmat. En eftir að hafa sofið svo í nokkra tíma var skundað út í bakarí og keyptur betri morgunmatur, uhmmm nýbökuð rúnstykki og súkkulaði croissonts.
Seinnipartinn á sunnudaginn var síðan haldið þetta líka svaðalega bollukaffi heima hjá Elínu og Adrian. Eins og íslendingum einum er lagið var alveg þvílíkt mikið á boðstólnum og allir átu á sig gat og enginn þurfti á kvöldmat að halda þetta kvöldið. Eftir mjög skemmtilega tiltekt eftir kaffiboðið, takk fyrir skemmtiatriðið Bjargey ;) , var haldið heim á leið.
Þannig að maður missti ekki alveg af bolludeginum þó svo að maður sé ekki á klakanum en þið sem eruð heima þá segi ég nú bara: Passið ykkur á bollunum:)