Ríkey

mánudagur, janúar 30, 2006

Eins og venjulega þá er tíminn allt of fljótur að líða. Ég sem ætlaði að gera svo margt meðan Óli væri úti en svo er hann bara að koma heim í kvöld og ég ekki búin að gera nema rétt svo helminginn af því sem ég ætlaði að gera. Líklega er það vegna þess að eins og venjulega ætlar maður að gera allt á engum tíma:)
En ég gerðist menningarleg um helgina og fór að sjá Carmen. Ég hélt að ég væri að fara að sjá óperu og var því mjög spennt því ég hef aldrei áður farið að sjá óperu. En mér fannst þetta vera meira eins og söngleikur. En vá þvílíkt flottir dansar og dansarar. Ég horfði eiginlega meira á þau heldur en söngvarana. En svona í heildina þá var þetta alveg ágætis skemmtun:)

miðvikudagur, janúar 25, 2006

Loksins laus við kallinn........skutlaði honum til Keflavíkur í morgun. Skil reyndar ekki að ég skuli ennþá vera vakandi, vaknaði nebbla kl.5:15 í morgun eða það er nú eiginlega ennþá nótt. Keyrði svo með Óla í roki og rigningu, ég var samt mjög fegin að það var ekki hálka því það var svo mikið rok að þá hefði bílinn bara fokið út af. En svo fór ég í leikfimi og er núna komin upp í skóla og mér finnst ég vera búin að afreka alveg heilan helling í dag:) En annars þá er Óli núna á leiðinni til frænda vorra Dana að heimsækja hann Kristján vin okkar.
Svo í gærkvöldi þá var svo mikill ferðahugur í okkur að við keyptum okkur sumarfrí, JEI við ætlum að fara til stóra eplisins í vestri í júní......Jabb til New York City thank you very much:) Ég hlakka ekkert smá til þó svo að það séu nú alveg 5 mánuðir þangað til. Þannig að núna er eins gott að bretta upp ermarnar og vera dugleg að læra svo maður geti farið með góðri samvisku.
Þannig að ég er hætta á netinu í bili og farin að læra, see ya........

föstudagur, janúar 20, 2006

Þá er þessi vika loksins að verða búin, vona að sú næsta verði betri. Það er að ég verði hressari og framkvæmi það sem ég ætla mér að gera:)
Í gær eftir skóla skrapp ég aðeins í Kringluna með Fjólu og eftir að hafa rölt um allt og skoðað næstum því allt þá var kominn tími til að halda heim á leið. Ég rölti af stað út í strætóskýli og þegar ég kom þangað var alveg góður slatti af fólki þar að bíða eftir strætó. Það var orðið dimmt og þeir sem þekkja mig vita að ég er frekar náttblind. En allavegana þá var ég ekki alveg viss hvort að minn strætó væri farinn framhjá eða ekki svo ég fór að líta í kringum mig að góðu fórnarlambi til þess að spyrja þegar ég sá nokkra unglingsstráka standa þarna í strætóskýlinu og tveir þeirra voru að kyssast(að því að mér fannst í myrkrinu). Mér fannst nú ekkert að því og ákvað að spyrja engan út í strætóinn heldur kíkja bara á ferðaáætlunina. Ég rölti nær þessum strákahóp og þá stendur parið sem var að kyssast beint fyrir framan strætóáætlunina, en þá sá ég að þetta par tilheyrði ekkert strákahópnum og þetta voru ekki tveir strákar heldur strákur og stelpa með þvílíka strákaklippingu og strákalega húfu:) Nema hvað þegar ég ætlaði að reyna að smeygja mér á bak við þau, þar sem þau voru ennþá upptekin af því að kyssa hvort annað, og kíkja á áætlunina þá segir strákurinn hátt og snjallt við kærustuna sína: "Ég elska þig" og því fylgdi að sjálfsögðu mjög innilegur koss. Þarna stóð ég og var ekki að sjá á strætóáætlunina en var ekki alveg viss hvort að ég ætti að biðja þau um að færa sig(og eyðileggja þar með momentið hjá þeim) eða hvort að ég ætti að bíða og vona að þau myndu hætta áður en að næsti strætó kæmi...... En loksins tók stelpan eftir mér og þau færðu sig hálfskömmustuleg og ég gat kíkt á hvenær strætó kæmi.
Svo kom strætó og ástfangna parið fer upp í sama vagn og ég og sest rétt hjá mér, það nálægt að ég heyri allt sem þau segja - ekki það að ég hafi verið að hlusta. En þá heldur þessi rómeó áfram að heilla kærustuna og segir við hana:"Þetta er fyrsta strætóferðin okkar saman" og honum fannst það mjög rómantískt. Ég verð að viðurkenna að mér finnst ekkert sérlega rómanstískt að vera að frjósa úr kulda í einhverju strætóskýli og fara svo í strætó. Kannski ég þurfi að fara að bjóða Óla með mér í strætó og athuga hvort að ég skilji þetta þá. Kannski ég bara bjóði honum í strætó í dag svona í tilefni bóndadagsins:)

Núna um helgina á að reyna að koma ofan í mann súrum mat, já ég er að fara á þorrablót á laugardaginn. Það er sem betur fer bara einu sinni á ári sem maður þarf að borða skemmdan mat. En hafið það sem allra best um helgina og gangið hægt um gleðinnar dyr:)

fimmtudagur, janúar 12, 2006

Góðan daginn og gleðilegt nýtt ár.
Þar með er þessari mánaðarlöngu bloggpásu lokið og hversdasleikinn tekinn við aftur. Eftir langt og gott jólafrí er maður mættur aftur niður í skóla. Já ég tók mér eins langt jólafrí og ég gat þar sem að væntanlegast var þetta síðasta jólafríið mitt sem námsmaður þannig að best að nýta það til fullnustu:) En núna er allt komið á fullt er að byrja á lokaverkefninu mínu og ætla að taka 2 kúrsa líka, manni má nú ekki leiðast.
En talandi um að leiðast þá er ég nú komin með pínu leið á þessari óákveðni í veðrinu, alltaf rigning og snjókoma til skiptis sem þýðir að það eru óþarflega margir slabbdagar. Slabb er einmitt óvinur þeirra sem taka strætó. Fyrst blotnar maður aðeins af því að labba út í strætóskýli. Meðan maður bíður eftir strætó þá reyna allir bílarnir sem keyra framhjá að hitta vel og vandlega ofan í pollana á götunni svo að gusan frá þeim verði sem stærst og nái örugglega að bleyta allt og alla sem í strætóskýlinu eru. Svo kemur nú loksins strætó og maður nær nú að þorna ágætlega á þessari löngu leið en svo fer maður út á leiðarenda og er orðinn kaldur og hálfblautur aftur þegar maður kemst inn í skóla.
Já þið sem eruð á bíl njótið þess;)

Ég fór í bíó í gær og þið sem þekkið mig vitið að ég er algjör sökker fyrir rómantískum gamanmyndum þannig að meðan Óli fór á einhverja splatter mynd með vinum sínum þá dró ég Kristínu vinkonu með á Family Stone. Ég verð reyndar að viðurkenna að þetta var aðeins of væmin mynd fyrir mig eða aðallega hvernig hún endaði þó svo að hún hafi verið fyndin inn á milli. Kannski gerði ég of miklar væntingar til hennar en allavegana þá varð ég fyrir pínu vonbrigðum. En eins og ég segi oft þá er betra að gera engar væntingar og þá getur maður ekki orðið fyrir vonbrigðum með myndir:)
En hafið það gott í slabbinu og heyrumst síðar.......