Ríkey

mánudagur, febrúar 23, 2009

Ég komst að því um helgina að vöfflur í hárið er bara töff. Var í skíðaferð með vinnunni á Dalvík um helgina og á laugardagskvöldinu var 80´s þema. Að sjálfsögðu fór maður alla leið í búningnum og ég held að ég hefði átt að vera upp á mitt besta á þessum árum því þetta fer mér alveg fáránlega vel :)

En það var líka skíðað eins og enginn væri morgundagurinn, sem betur fer því mér tókst að sjálfsögðu að taka góða dýfu á sunnudeginum og skíðaði ekkert eftir það. Hoppa svo um núna eins og hölt hæna, en það gátu að minnsta kosti allir vinnufélgar mínir hlegið að mér - gott að maður geti skemmt öðrum :)

laugardagur, febrúar 14, 2009

Föstudagurinn þrettándi, er hann eitthvað verri en aðrir dagar? Velti þessu fyrir mér í gær en gat ekki rekist á neitt sem var verra en aðra daga. Ætli þetta sé bara dagur fyrir hjátrúarfulla? eða hvenær er maður hjátrúarfullur, er það ef maður fer aðra leið þegar svartur köttur fer yfir götuna fyrir framan mann...... eða ef maður er ekki hjátrúarfullur sæji maður þá kannski ekki svarta köttinn...... maður spyr sig :)

Svo er það valentínusardagurinn, var alveg búin að gleyma þeim degi. Skrapp svo örsnöggt í Kringluna í dag og gerði ekki annað en að mæta karlmönnum með blóm sem þær ætluðu að gefa elskunni sinni. Til hvers að eltast við svona ameríska siði þegar við eigum okkar eigin íslensku daga, bóndadaginn og konudaginn. Þessir íslensku dagar eru líka við upphaf og enda þorrans sem er svo einstaklega skemmtilegur tími eða frekar tími illa lyktandi og ónýtan mat. Var einmitt að koma af þorrablóti númer 2 og ég er því búin að fá meira en nóg af skemmdum mat til að duga þangað til á næsta ári.

fimmtudagur, febrúar 12, 2009

Fór í hádegismat áðan í vinnunni sem er nú svo sem ekki í frásögur færandi, nema hvað...... ég komst að því að einföldustu athafnir geta verið stórhættulegar. Fór sem sagt í mat og borðaði dýrindis mat, en þegar ég var að yfirgefa mötuneytið ákvað ég að ná mér í tannstöngul. Meðan ég var að ganga upp stigana notaði ég tímann til að stanga úr tönnunum (ojjj hljómar eitthvað ekki nógu vel, en jæja) svo finn ég allt í einu svakalegan sting í annað munnvikið. Hvað haldið þið...... já ég fékk flís úr tannstönglinum í annað munnvikið. Vissi ekki að þetta væri hægt en svona er maður fjölhæfur :o)

þriðjudagur, febrúar 03, 2009

Búin að vera veik heima í allan dag og held að ég sé búin með internetið....... kíkti aðeins á fésbókina og ég held að það þekki allir alla, allavegana þá er hið ótrúlegasta fólk sem þekkist eða eru a.m.k. vinir á fésinu.
Eitt að því sem ég þoli helst ekki er símasölufólk (eða ekki fólkið sjálft heldur starfið þeirra) og ég fæ næstum eitt símtal á hverju kvöldi þar sem hvert gylliboðið á fætur öðru flæðir inn um annað eyrað og út um hitt. Það er samt mjög fyndið að sumir eru greinilega ekki að nenna þessu á meðan aðrir eru mjög áhugasamir um starfið sitt reyna allt sem þeir geta til að pranga inn á mann nýjum tryggingum eða símaáskrift. Sumir tala nógu hratt og mikið í byrjun þannig að maður kemst ekki að fyrr en eftir að hafa hlustað á þónokkuð langa söluræðu. En ég reyni að enda þessi samtöl eins hratt og kurteislega og ég mögulega get með því að afþakka það sem verið er að selja. Jæja þá er ég búin að kvarta smá og best að fara gera eitthvað af viti eins og að horfa á fitubollur í sjónvarpinu keppa um hver missir flest kíló, svo uppörvandi sjónvarpsefni, fær mann allavegana til að langa til að fara út og hlaupa :o)

mánudagur, febrúar 02, 2009

Hversu hress þarf maður að vera til að lenda í þessu :o)