Ríkey

þriðjudagur, ágúst 31, 2004

Mér finnst rigningin góð.......... eða þannig. Þvílíkt veður í dag, hélt að dagurinn ætlaði engan enda að taka. Ekki gaman að vinna úti í svona veðri. Ef að þið sáuð fréttirnar í gær þá er ég að vinna við hliðina á blokkinni þar sem að byggingakraninn fauk, sem sagt alltaf gott veður í vinnunni:)
En mál málanna er að ég er búin að fá allar einkunnirnar úr prófunum og ég náði þeim öllum, er bara nokkuð sátt með þetta allt saman. Núna er bara eitt próf eftir í B.Sc -inn. Ótrúlegt hvað það er lítið eftir.
Soldið skondið hvað sumt getur snúist við. Núna er Óli byrjaður í skólanum og ég er bara að vinna (samt bara í 2 vikur). Þegar ég kom heim úr vinnunni í dag þá var Óli ekki heima og ég skildi ekkert hvar hann var þannig að ég hringdi í hann. Viti menn þá var hann niðri í skóla að læra. Venjulega þá hefur þetta verið the other way around. Mér fannst þetta hálfskrítið en er samt hálf fegin að vera ekki byrjuð strax í skólanum, geta aðeins hvílt heilann eftir prófin. Veitir víst ekki af áður en maður fer að læra á þýsku:)
En núna ætla ég að hlamma mér fyrir framan sjónvarpið og glápa á eitthvað heilalaust og þarf ekki að hafa neitt samviskubit yfir því......

þriðjudagur, ágúst 17, 2004

Jæja þá er komið að því, fyrsta prófið er eftir 1 1/2 tíma. En þá er bara að róa sig niður og anda djúpt, kannski samt óþarfi að slaka of mikið á því þá er hætta á að maður gleymi bara að mæta í prófið:) held samt ekki. Próflestur er nú svona það eina sem hefur komist að núna undanfarið en í dag er bara vika eftir. Þangað til held ég að það verði ekki mikið um að vera hérna á síðunni því ég ætla að vera ofurdugleg að læra.
Adíós....

laugardagur, ágúst 14, 2004

ARRGGGG klukkan æðir alveg áfram. Þetta er alveg óþolandi hvað tíminn hefur liðið hratt þessa helgina, mér til mikillar skelfingar. Er nú samt nokkuð ánægð með mig, þó svo að Óli haldi að nú sé ég endanlega farin yfirum;) Ég fór nebbla út að skokka í morgun klukkan 7:15, já á laugardagsmorgni. Það var svo geggjað veður þannig að maður setti bara góða tónlist í eyrun og brunaði svo af stað. Þó svo að brunið hafi nú ekki staðið lengi yfir en þá tókst mér að komast skokkhringinn.
Kíkti aðeins við í afmælisveislu hjá Kristjáni Orra í gær og ekkert smá gaman því allir krakkarnir voru í grímubúningum, algjörar rúsínur. Sá síðan hluta af setningarathöfn Ólympíuleikanna og soldið fyndið að sjá þegar þjóðirnar voru að ganga inn á leikvanginn. Það var auðvitað heil hersing af fólki frá stóru þjóðunum en stundum kom bara fánaberinn eða kannski bara einn eða tveir með honum. Svo voru þjóðir þarna sem maður hefur aldrei heyrt minnst á, en það voru aðallega einhverjar Afríkuþjóðir. Afríkulandafræðikunnáttan kannski ekki neitt svo góð enda eru svo mörg lönd þarna. En ef þú hefur áhuga á að kanna hversu vel þú ert að þér í landafræði þá mæli ég með þessum leik. Nei ég er ekki að spila hann núna þegar ég á að vera að læra. En ég spilaði hann í vorprófunum:) kannski er það ástæðan fyrir því að ég er að taka próf núna, hummmm.......

föstudagur, ágúst 13, 2004

Væri nú alveg til í að fá svona veður oftar á sumrin og þá helst þegar ég er ekki að læra. En fór í gær með TMC niður á Austurvöll í hádegismat. Þvílíkt mikið af fólki þar enda með eindæmum þægilegt að sitja þarna og slappa af. Fyrir utan kannski geitungana sem voru mjög æstir í matinn okkar. Þannig að það var bara málið að drífa matinn í sig og sóla sig svo smá. Manni langaði ekkert að fara en bækurnar lesa sig víst ekki sjálfar. Fékk nýju gleraugun mín í gær, vei en þarf aðeins að venjast þeim því það er sterkara gler í þeim en gömlu. Maður verður svona smá sjóveikur fyrst;)
Afmælisbarn dagsins í dag er Kristján Orri, systursonur minn sem er 4 ára í dag. Eins gott að taka sér pásu á eftir og finna einhverja góða gjöf. Er nebbla að fara í kökuboð til hans um helgina, uhmm kökur:) Alltaf gott að hafa svona ástæðu til að taka sér pásu frá lærdómnum.
Vá á morgun eru bara 5 vikur þangað til að ég fer út, þetta líður svo hratt að það er ótrúlegt. Spennu og tilhlökkunarhnúturinn í maganum fer alltaf smá stækkandi, þó að núna sé smá prófstress að læðast að manni þar sem að fyrsta prófið er á þriðjudaginn......

miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Það ætti að banna lærdóm í svona góðu veðri. Settist út í hádeginu með Silju og Ásdísi og við vorum að stikna þegar við fórum inn aftur. Þetta var orðið eins og í Asíu í útskriftarferðinni, bakið sveitt og litli svitabletturinn kominn (þeir sem voru úti í Asíu skilja þetta). Sitjum núna inni með alla glugga galopna og það er samt hrikalega heitt hérna inni. Svo er allir að nýta góða veðrið í útivinnu. Hér fyrir utan er fólk búið að vera að slá og núna er verið að klippa trén með rafmagnsklippum sem eru með þvílík læti. Þetta er mjög gott fyrir einbeitinguna. En það eina góða við það að vera inni er að maður fær ekki sólsting á meðan;)
Í morgun leið mér eins og ég væri komin til útlanda því Óli hafði einhvern tímann í nótt náð sér í sængurver úr skápnum og svaf bara með það, sængin bara lögð til hliðar. Þetta er bara eins og maður gerir á Spáni.

þriðjudagur, ágúst 10, 2004

Ís er góður. Fórum í nauðsynlegan ísgöngutúr áðan og maður hresstist þvílíkt. En það er eins og maður sé kominn til útlanda þegar maður fer út, ekkert smá þægilegt. Soldið erfitt að einbeita sér í þessari blíðu en við Silja erum alveg ótrúlega duglegar:)
En stærðfræðin bíður.....

mánudagur, ágúst 09, 2004

Helgin liðin og ég mætt aftur í vr. Fór á föstudaginn norður með mömmu, pabba og tveimur börnum systur minnar. Þegar við komum svo á bóndabæinn til frænku minnar og ætluðum að fara að tjalda þá var grenjandi rigning og rok, frábært. En drifum okkur í að tjalda tuskuhúsunum (annað orð yfir tjaldvagn) og svo var bara að drífa sig í háttinn. Vaknaði daginn eftir í ágætisveðri. Það er alveg magnað hvað er alltaf mikið að borða þegar maður kemur í sveitina. Kökur og svoleiðis í morgunmat, ekki alveg það sem maður er vanur þannig að ég hélt mig nú bara við jógúrtið. Þegar allir voru vaknaðir og búnir að borða þá var haldið af stað upp á Eyvindarstaðaheiði og farið að veiða. Það var soldið rok fyrst og mér gekk ekkert að veiða og eiginlega gekk engum vel að veiða nema þeim sem voru yngri en 12 ára. Ég var varla komin út út bílnum þegar 4 ára frænka mín var búin að veiða fyrsta fiskinn sinn. En að lokum tókst mér að veiða 2 fiska, vei;)
Á laugardagskvöldinu var svo grillveisla og borðaði maður á sig gat og eins og í öllum góðum veislum þá var mjög góður og sætur eftirréttur. Svona klukkutíma eftir það þá var svo komið að kvöldkaffinu. Hélt ég yrði ekki eldri því þá voru bornar hver tertan á fætur annarri á borð, þetta var eins og í fermingarveislu eins og sjá má hér.
Eftir allt þetta át þá var maður nú bara uppgefinn og gat lítið annað en farið að sofa og ég svaf lengi á sunnudeginum, þurfti að jafna mig eftir allt sætabrauðið. Áður en við fórum svo heim var náttúrulega troðið í mann eins miklu af mat og kökum og hægt var. Alveg magnað þetta stanslausa át þegar maður kemur í sveitina. Fínt að koma heim og eiga ekkert að borða:)
Þegar ég var svo að fara á fætur í morgun þá hélt ég að ég væri endanlega farin yfirum, mér fannst ég heyra í hestum svona eins og í sveitinni. Ákvað nú að kíkja út um eldhúsgluggann og viti menn þarna voru 3 hestar í mestu makindum í göngutúr um hverfið og það var enginn með þeim eða ég sá að minnsta kosti engann. Ætli maður geti séð ofsjónir af völdum of mikils sykuráts, nei ég bara spyr......

föstudagur, ágúst 06, 2004

Mér tókst það loksins að vakna nógu snemma og fara í leikfimi áður en ég mætti í skólann. Ótrúlegt hvað manni líður vel eftir að vera búinn að sprikla svona. Lenti svo í árás á leiðinni í skólann. Brjálaðar gæsir sem voru að taka á loft rétt náðu að lyfta sér yfir bílinn hjá mér. Þeim hefði ekki veitt af smá leikfimi, þær voru svo feitar. En í dag verður stuttur dagur, er nebbla að fara norður seinnipartinn. Það er fjölskyldumót sem að maður verður að mæta á, en það verður nú bara gaman. Stefnan er tekin á að fara að veiða á laugardaginn en ég hef ekki gert það í mörg ár. Svo er það bara spurningin ætli maður veiði eitthvað eða tekst mér að krækja önglinum í einhvern fjölskyldumeðlim....humm spurning um að vera langt frá hinum, vil ekki slasa neinn.

fimmtudagur, ágúst 05, 2004

Þessir dagar líða allt of hratt. En er ekki sagt að þegar það er gaman þá líði tíminn hratt...... greinilegt að mér finnst gaman að læra því eins og ég sagði þá er þessi vika búin að fljúga fram hjá mér. Lærdómurinn er þó búinn að ganga ágætlega. Fyrir utan morguninn í morgun, hann er búinn að fara í íbúðastúss. Ef að þið búið í Þýskalandi og eigið húsgögn sem þið þurfið að losna við þá skal ég taka við þeim:)
En back to the books.....

þriðjudagur, ágúst 03, 2004

Þá er maður mættur aftur í VR 2, musteri viskunnar:) Held að ég hafi sjaldan mætta svona snemma hingað, var bara mætt á slaginu átta. Tókst það held ég aldrei síðasta vetur.
Fór í gær út á flugvöll að sækja Óla og þvílíkt mikið af ónýtu liði sem var þarna að koma frá eyjum, ekkert smá fyndið. Kannski ekkert skrítið að fólk sé eftir sig eftir svona rosalegt djamm. En ég er fersk og endurnærð eftir þessa verslunarmannahelgi. Tókst þó ekki að læra jafn mikið og ég ætlaði mér, því miður en þá er bara spurning um að vera þeim mun duglegri í dag.

sunnudagur, ágúst 01, 2004

Vann ekki stóra vinninginn í lottóinu í gær, enda fékk enginn stóra pottinn. En ég er samt svo ánægð því við Hafrún erum komnar með íbúð úti. Já það er þessi sem ég var að tala um í gær. Þetta er búið að gerast svo hratt og ég er ekkert smá ánægð. Betra en lottóvinningur eða allavegana frábært.... Var nú samt smá stress í morgun því ég fékk senda staðfestingu sem við þurftum að skrifa undir og senda út aftur. Byrjaði á því að ég fann ekki Hafrúnu. Hún svaraði ekki heima hjá sér og hún er ekki enn búin fá sér nýjan gsm-síma eftir að hennar var stolið. Endaði með að ég fann númerið heima hjá foreldrum hennar og hringdi þangað. Viti menn þar var hún og brunaði ég þangað til að láta hana skrifa undir og svo ætluðum við að skanna þetta inn þar því þau eiga skanna. Þegar ég kom til hennar þá vantaði snúru í skannann þannig að við gátum ekki notað hann. Þá ætlaði ég bara að byðja mág minn um að skanna þetta inn, það væri hvort eð er í leiðinni heim. Svo kom í ljós að ekki er hægt að nota skannann við nýju tölvuna þeirra þannig að nú voru góð ráð dýr. Hvern þekkti ég sem átti skanna og væri heima hjá sér......endaði hjá vini mágs míns og hann reddaði mér. Kom svo heim og var ekkert smá fegin þegar ég var búin að senda þetta út. En nei ég var að drífa mig svo mikið að senda þessa staðfestingu að ég gleymdi að setja hana með sem viðhengi. En núna er ég búin að koma þessu örugglega frá mér. Ég er svo ánægð að ég er búin að baka köku í tilefni þess að við erum komnar með íbúð. Þannig að þú ert velkomin/n í kökuboð í kjallarann til mín ef þér leiðist í dag. Ég baka svo köku seinna handa þeim sem eru búnir að vera svo frábærir að hjálpa okkur í þessari íbúðaleit.
Heyrði annars smá frá Óla í gærkvöldið og hann var þvílíkt hress með að hafa farið til Eyja. Trúði mér samt ekki þegar ég sagði að ég væri búin að fá gesti á hverju kvöldi síðan hann fór. Hann veit bara ekki hvað maður er vinsæll;)
Ætla að drífa mig að taka kökuna út úr ofninum svo ég geti sett krem á hana og svo verður smá straumfræðisessíon......