Ríkey

þriðjudagur, nóvember 25, 2008

Kom við í Nettó á leiðinni heim í dag til að kaupa í matinn. Var búin að setja nokkra hluti ofan í körfuna og var komin í pasta og hrísgrjóna rekkann í búðinni og var í sakleysi mínu að leyta að ákveðinni tegund af pasta. Þar sem ég stóð þarna og var að leita sá ég útundan mér hvar eldri maður kom labbandi og stoppaði rétt áður en hann kom að mér. Ég hugsaði með mér að ég væri fyrir honum og ákvað að færa mig svo hann kæmist fram hjá. Þá horfði hann á mig og sagði: "mikið ert þú myndarleg"..... mér hálfbrá og horfði á hann, hélt kannski að þetta væri einhver sem ég þekkti - en nei ég kannaðist ekkert við hann. Ég horfði betur á hann og þá sá ég að hann var hálf perralegur með skyrtuna opna niður á miðja bringu, gráu bringuhárin blöstu við mér. Hann stóð þarna með bumbuna út í loftið og hálf sveittur í framan og horfði bara á mig. Ég missti út úr mér eitt stórt HA!! - það var það eina sem mér datt í hug að segja. Svo gekk hann áfram á meðan ég stóð eftir mjög pússluð, vissi ekki hvort þetta hefði verið gamall maður að reyna vera indæll eða hvort hann væri jafn mikill perri og hann leit út fyrir að vera. Ég dreif mig að ná mér pasta úr hillunni, fór á kassann og borgaði. Því næst dreif ég mig út í bíl, nema þegar ég var komin út á bílaplan og stóð fyrir utan bílinn að reyna opna hann með takkanum á fjarstýringunni þá gerðist ekki neitt. Alveg sama hvað ég reyndi ekkert gerðist, hummm mér fannst þetta nú svolítið skrítið og ákvað að kíkja á bílnúmerið til að fullvissa mig um að ég væri við réttan bíl........ og auðvitað var ég að reyna opna einhvern annan bíl sem var alveg eins á litinn, lagt alveg eins og ég hafði lagt. Minn bíll var bara þremur stæðum frá. Þessi gamli kall hafði alveg slegið mig út af laginu.

mánudagur, nóvember 24, 2008

Aldrei segja aldrei.....

Er alltaf að komast að því betur og betur að maður á aldrei að segja aldrei.... hélt alltaf að hlaup/skokk væri bara vor/sumar íþrótt, þ.e. úti við. Hélt alltaf að það væri ekki hægt að fara út að hlaupa þegar kominn væri vetur og hálka væri á gangstéttum. Maður hefur stundum séð fólk úti að hlaupa á veturna en ég hélt alltaf að það væri ruglað lið og sagði að ég myndi aldrei geta farið út að hlaupa að vetri til. Hummmm..... ég fór út að hlaupa í gær og það var hálka og smá snjóföl yfir gangstígnum sem ég hljóp á........ ég er sem sagt orðin ein af þessu ruglaða liði. En þvílíkt hressandi að fara út að hlaupa í svona kulda og það besta er að skella sér síðan í laugina og láta líða úr sér í heitu pottunum ......... eftir þessa góðu líkamsrækt fór ég í bíó og sá Jón Bónda aka James Bond. Ég var mjög sátt með myndina enda er Bondinn mega töffari og þokkalega vel vaxinn, þó svo að hann hafi sýnt aðeins meira hold í síðustu mynd. Allavegana þá mæli ég alveg með þessari mynd :)

sunnudagur, nóvember 23, 2008

Undanfarið hef ég verið að streytast á móti öllu sem tengist jólunum, held að það hafi verið einhver smá Grinch í mér en það gengur ekki lengur og ég er komin á fullt í að undirbúa jólin. Búin að fara í laufabrauðsgerð (meira að segja tvisvar sinnum), búin að mála piparkökur og byrjuð að kaupa jólagjafir. Held meira að segja að ég fari bráðum að hlusta á jólalög - nei ok kannski ekki alveg strax. Læt eina mynd fylgja af okkur systrunum að "hjálpa" mömmu að skera út laufabrauð, múhahahahaaaaaaa :)


fimmtudagur, nóvember 20, 2008

Í gær varð aldrei bjart, held ég..... allavegana þá var myrkur þegar ég fór í vinnuna og þegar ég fór heim úr vinnunni var ennþá myrkur. Tók aldrei eftir dagsbirtunni sem átti að koma þarna inni á milli. Hins vegar þegar það fór að snjóa í dag þá varð allt í einu bjart aftur:)
Finnst eins og allir séu farnir að tala um jólin en ég er einhvern veginn ekki alveg komin í jólagírinn. Ákvað samt á leiðinni heim úr vinnunni að skipta yfir á létt því þeir eru víst byrjaðir að spila jólalög ..... úfff ég var fljót að skipta um stöð því mér fannst þetta eitthvað svo rangt ;) greinilega ekki alveg komin í jafn mikið jólaskap og margir aðrir. Kannski samt gott að það sé svona langt í jólin því þá er möguleiki á að takmarkið náist, að koma sér í kjólinn fyrir jólin. Er allavegana með þvílíka strengi eftir æfinguna í gær, en var samt soldið svekkt í morgun þegar ég vaknaði ekki með sixpack, þrátt fyrir mörg hundruð magaæfingar í gær - þá verður maður víst að halda áfram að pína sig og gá hvað gerist ;)

þriðjudagur, nóvember 11, 2008

Var á leiðinni upp á Hellisheiði í dag, sem er nú svo sem ekki í frásögur færandi, nema hvað...... það var frekar mikil umferð, eins og gengur og gerist. Svo kemur sjúkrabíll með blikkandi ljós og sírenur í gangi úr hinni áttinni og allir koma sér út í kant nema bíllinn sem var fyrir framan mig. Hann notaði tækifærið og tók framúr með því að fara í "chicken" við sjúkrabílinn á miðjum veginum. Alveg magnað hvað fólk getur verið að flýta sér, en þetta sannar það að fólk er fífl.

Hef tekið eftir því að þegar karlmenn eru að tala í símann þá geta þeir ekki staðið kyrrir. Þeir verða að vera á ferðinni allan tímann meðan á símtalinu stendur. Þó þeir séu ekki að fara neitt heldur rölta bara um fram og til baka, meðan kvenfólk situr sem fastast og talar og talar. Skemmtilegur munur milli karla og kvenna sem maður sér þegar meirihluti samstarfsfélaganna eru karlkyns.

fimmtudagur, nóvember 06, 2008

Ótrúlegt hvað tíminn getur verið mislengi að líða. Mér fannst október aldrei ætla að verða búinn en svo er nóvember nýbyrjaður og allt lítur út fyrir að hann muni þjóta áfram. Kannski er það ágætt því í október var bara ein frétt í öllum fréttatímum og öllum fréttamiðlum, en það var hin magnaða kreppufrétt. Kreppan virðist koma víða við og alltaf eru nýjar fréttir verðhækkunum en sumstaðar veldur kreppan verðlækkunum.

Á netinu er hægt að finna allt og alveg ótrúlegt hvað fólki dettur í hug að setja á netið, kíkið á þetta :)

þriðjudagur, nóvember 04, 2008

Þvílíkt sem munar um að hafa engan snjó úti, það er miklu meira myrkur og skammdegið segir til sín. En þá var fínt að fara á árshátíð og lyfta sér aðeins upp. Mjög vel heppnuð árshátíð og þvílíkt stuð, enda var dansað út í eitt.
Var minnt á það í dag að eftir mánuð þá verður allt orðið jóla hitt og jóla þetta, fékk smá sjokk að það sé ekki lengra í jólin en þetta. Alveg magnað hvað tíminn getur liðið hratt. En samt eitt sem ég hef tekið eftir núna er að búðirnar eru ekki jafn snemma í því að skreyta fyrir jólin núna og oft áður. Ætli kreppan hafi þetta í för með sér að búðareigendur skreyti seinna en áður...... eða hef ég bara farið minna í búðir núna en áður? sem gæti líka verið afleiðing af kreppunni, humm eða kannski bara afleiðing af vinnunni því það er erfitt að fara í búðir þegar búið er að loka þeim, sem er hins vegar mikill sparnaður ;)

laugardagur, nóvember 01, 2008

Alveg magnað hvað fólk ætlaði að græða mikið í gær á því að fara í ríkið og hamstra áfengi áður en verðið hækkaði. Það besta var að enginn vissi hversu mikil hækkunin átti að vera en sumir fréttamiðlar voru búnir að tala um að hækkunin yrði í kringum 25-30%. Einn í vinnunni hjá mér hélt að hækkunin yrði allt að 50% þar sem gengið hefur breyst svo rosalega undanfarið. Fólk var alveg að missa sig og ætlaði ekki að missa af neinu og því var röð út úr dyrum í öllum áfengisverslunum (a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu) í gær. Ég hélt reyndar að þetta hefði nú bara verið blásið soldið upp í fjölmiðlum í gær, þ.e. fréttir af því að fólk væri að hamstra áfengi en ég fór í ríkið í Kringlunni í dag og þar voru grínlaust nánast tómar hillur. Þetta var alveg magnað að sjá þetta, hélt að þetta gerðist ekki nema kannski í mesta lagi föstudag fyrir verslunarmannhelgi. Enda sagði strákurinn á kassanum að þetta hefði verið söluhæsti dagurinn í ríkinu í ár og fólk var víst að kaupa rosalegt magn af áfengi. Er það kreppan sem fer svona með fólk eða ætluðu bara allir að græða, maður spyr sig??