Lagði af stað síðasta fimmtudagskvöld til Danmerkur. Fór með næturlest sem er alveg ótrúlega hressandi:) En það gekk allt vel fyrir utan hvað maður svaf bara svona stutta dúra, alltaf eitthvað sem truflaði mann. Eignaðist næstum því vin í lestinni, strákur sem var í sama klefa og ég og hann var að reyna að tala við mig en ég nennti eiginlega ekki að tala við hann þar sem að hann talaði nánast óskiljanlega ensku. Svo þegar ég sagðist ekki skilja hann þá spurði hann bara hvort að ég talaði ekki ensku, held að hann hafi sem sagt ekki náð því að það var hann sem talaði lélega ensku......Svo síðasta spottann þá þurfti lestin að keyra hægar vegna tæknilegra örðuleika þannig að lestin kom 30 seinna til Köben en áætlað var. Það var nú alveg að fara með þennan klefafélaga minn og þegar klukkan var orðin 10 og við ekki komin til Köben þá byrjaði hann að spyrja hvað það væri langt þangað til Köben (í km), ég sagðist ekki vita það. Þá spurði hann hvað það væru margar mínútur þangað til að við kæmum til Köben og ég vissi það nú ekkert frekar. Held að honum hafi fundist ég vera hálf vitlaus að vita þetta ekki, ekki að hann hafi nú vitað það neitt frekar.
En þegar ég kom á Hovedbanegård þá var
Eyja komin að ná í mig. Við fórum heim til hennar með dótið mitt og drifum okkur svo í bæinn. Þar gengum við um allt og hún sýndi mér þetta helsta. Ég heilsaði upp á litlu hafmeyjuna, ætlaði að kíkja í kaffi til Margrétar drottningar en hún var ekki heima. Svo röltum við upp á strikið og ég fór allt í einu að heyra íslensku út um allt. Er ekki vön þessu hérna í Karlsruhe, enda ekki nærri því jafn mikið af íslenskum túristum og í Köben. Það var frídagur þennan föstudag í Danmörku og þess vegna næstum allar búðir lokaðar en mér tókst að finna næstum einu opnu búðina og auðvitað fann ég mér skó. En hittum svo
Jónínu og ákváðum að við ætluðum að gera eitthvað skemmtilegt saman um kvöldið. Byrjuðum heima hjá Jónínu um kvöldið og ætluðum svo að fara eitthvað út á lífið en þar sem að það var svo kalt úti þá fannst okkur betra að sitja inni í hlýjunni og spjalla.
Á laugardeginum vöknuðum við og drifum okkur niður í bæ, það er náttúrulega skylda að kíkja í H&M í Köben. Keypti ekkert nema lítið veski. Röltum aðeins meira um strikið og þar var náttla ekkert nema íslendingar á ferð. Seinni partinn fór ég svo með lest til Óðinsvé þar sem Kristján, Noora og
Ingó tóku á móti mér. Þau hjóluðu með mig um bæinn og svo settumst við á kaffihús og fengum okkur “en stor öl” sem við drukkum úti í sólinni, en það var samt ekkert rosalega hlýtt. Hjóluðum svo heim til Nooru og Kristjáns og það var grillaður kvöldmatur. Uhmmm það var svo gott að fá grillaðan mat. Síðan komu fleiri íslendingar og við sátum það að spjalla og drekka bjór. Ákváðum að fara ekkert í bæinn því þau búa soldið langt frá.
Sunnudagurinn var tekinn mjög snemma. Var fyst vakin kl. 8:00 því þá vaknaði Kristján og vakti okkur hin. En hann og Ingó fóru svo út að ná í bíl sem Kristján og Noora voru að kaupa sér. Ég og Noora sváfum aðeins lengur en fórum svo út í hjólatúr og fengum okkur ís. Þar sem að við sátum niðri í bæ í mestu makindum þá kemur hópur af íslendingum að kaupa sér ís. Þessir íslendingar eru greinilega út um allt. Hjóluðum svo aftur til baka og þá komu strákarnir með nýja bílinn og keyrðu mig niður á lestarstöð í fína kagganum. Tók lestina aftur til Köben og Eyja sótti mig og fór með mig aftur niður í bæ til að skoða meira af bænum. Fórum upp í hringlaga turn þar sem að maður sá yfir alla Kaupmannahöfn. Fórum síðan heim til hennar og ég pakkaði og svo var brunað út á lestarstöð til að taka lestina heim. Settist upp í lestina rétt fyrir kl.19. Kom svo heim á mánudagsmorgni þreytt en ánægð eftir góða helgi.
Svo er vikan bara búin að þjóta framhjá manni því það er nóg að gera í skólanum. Annars er ekkert annað merkilegt búið að gerast hér í KA. Jæja besta að fara að drífa sig út í góða veðrið, lítur að minnsta kosti vel út í gegnum gluggann, og koma sér svo í skólann:)