Ríkey

laugardagur, apríl 30, 2005

Váááááááá.......hvað það var gott veður í dag. Sólin skein í allan dag og það var mjög heitt. Í kvöld klukkan hálf tíu var ennþá 22°C hiti úti. Vona að þetta veður sé komið til að vera. Gæti reyndar valdið vandræðum þegar maður þarf að læra, hummm spurningin um að æfa sig að lesa úti í sólinni. Allavegana þá var þvílíkt líf og fjör hérna í dag. Allir úti eins lítið klæddir og þeir mögulega gátu. Á morgun(sunnudag) er búið að plana að liggja úti í sólinni og gera ekki neitt nema kannski borða ís:)
En fórum á vorhátið í Stuttgart á föstudagskvöldið. Það var þvílíkt gaman og þvílík stemming þarna. Sátum inni í svona bjórtjaldi, risa stóru, þar sem allir stóðu uppi á bekkjunum sem voru við borðin og dönsuðu og sungu. Til þess að vera minna útlendingslegur þá gerðum við slíkt hið sama og skemmtum okkur mjög vel. Reyndar þegar maður er alltaf að standa upp og setjast svo aftur og klöngrast eitthvað þarna (það er nebbla ekki mikið pláss þarna) þá uppskar maður nokkra marbletti og kúlu á sköflunginn en vel þess virði. Svo af því að við erum svo skemmtileg þá var þjóninn farinn að þekkja okkur og sagði bara jæja hvað vilja íslendingarnir núna;)
En best að fara að sofa til að vera úthvíld áður en ég fer í leti morgundagsins;)

fimmtudagur, apríl 28, 2005

Lagði af stað síðasta fimmtudagskvöld til Danmerkur. Fór með næturlest sem er alveg ótrúlega hressandi:) En það gekk allt vel fyrir utan hvað maður svaf bara svona stutta dúra, alltaf eitthvað sem truflaði mann. Eignaðist næstum því vin í lestinni, strákur sem var í sama klefa og ég og hann var að reyna að tala við mig en ég nennti eiginlega ekki að tala við hann þar sem að hann talaði nánast óskiljanlega ensku. Svo þegar ég sagðist ekki skilja hann þá spurði hann bara hvort að ég talaði ekki ensku, held að hann hafi sem sagt ekki náð því að það var hann sem talaði lélega ensku......Svo síðasta spottann þá þurfti lestin að keyra hægar vegna tæknilegra örðuleika þannig að lestin kom 30 seinna til Köben en áætlað var. Það var nú alveg að fara með þennan klefafélaga minn og þegar klukkan var orðin 10 og við ekki komin til Köben þá byrjaði hann að spyrja hvað það væri langt þangað til Köben (í km), ég sagðist ekki vita það. Þá spurði hann hvað það væru margar mínútur þangað til að við kæmum til Köben og ég vissi það nú ekkert frekar. Held að honum hafi fundist ég vera hálf vitlaus að vita þetta ekki, ekki að hann hafi nú vitað það neitt frekar.
En þegar ég kom á Hovedbanegård þá var Eyja komin að ná í mig. Við fórum heim til hennar með dótið mitt og drifum okkur svo í bæinn. Þar gengum við um allt og hún sýndi mér þetta helsta. Ég heilsaði upp á litlu hafmeyjuna, ætlaði að kíkja í kaffi til Margrétar drottningar en hún var ekki heima. Svo röltum við upp á strikið og ég fór allt í einu að heyra íslensku út um allt. Er ekki vön þessu hérna í Karlsruhe, enda ekki nærri því jafn mikið af íslenskum túristum og í Köben. Það var frídagur þennan föstudag í Danmörku og þess vegna næstum allar búðir lokaðar en mér tókst að finna næstum einu opnu búðina og auðvitað fann ég mér skó. En hittum svo Jónínu og ákváðum að við ætluðum að gera eitthvað skemmtilegt saman um kvöldið. Byrjuðum heima hjá Jónínu um kvöldið og ætluðum svo að fara eitthvað út á lífið en þar sem að það var svo kalt úti þá fannst okkur betra að sitja inni í hlýjunni og spjalla.

Á laugardeginum vöknuðum við og drifum okkur niður í bæ, það er náttúrulega skylda að kíkja í H&M í Köben. Keypti ekkert nema lítið veski. Röltum aðeins meira um strikið og þar var náttla ekkert nema íslendingar á ferð. Seinni partinn fór ég svo með lest til Óðinsvé þar sem Kristján, Noora og Ingó tóku á móti mér. Þau hjóluðu með mig um bæinn og svo settumst við á kaffihús og fengum okkur “en stor öl” sem við drukkum úti í sólinni, en það var samt ekkert rosalega hlýtt. Hjóluðum svo heim til Nooru og Kristjáns og það var grillaður kvöldmatur. Uhmmm það var svo gott að fá grillaðan mat. Síðan komu fleiri íslendingar og við sátum það að spjalla og drekka bjór. Ákváðum að fara ekkert í bæinn því þau búa soldið langt frá.

Sunnudagurinn var tekinn mjög snemma. Var fyst vakin kl. 8:00 því þá vaknaði Kristján og vakti okkur hin. En hann og Ingó fóru svo út að ná í bíl sem Kristján og Noora voru að kaupa sér. Ég og Noora sváfum aðeins lengur en fórum svo út í hjólatúr og fengum okkur ís. Þar sem að við sátum niðri í bæ í mestu makindum þá kemur hópur af íslendingum að kaupa sér ís. Þessir íslendingar eru greinilega út um allt. Hjóluðum svo aftur til baka og þá komu strákarnir með nýja bílinn og keyrðu mig niður á lestarstöð í fína kagganum. Tók lestina aftur til Köben og Eyja sótti mig og fór með mig aftur niður í bæ til að skoða meira af bænum. Fórum upp í hringlaga turn þar sem að maður sá yfir alla Kaupmannahöfn. Fórum síðan heim til hennar og ég pakkaði og svo var brunað út á lestarstöð til að taka lestina heim. Settist upp í lestina rétt fyrir kl.19. Kom svo heim á mánudagsmorgni þreytt en ánægð eftir góða helgi.

Svo er vikan bara búin að þjóta framhjá manni því það er nóg að gera í skólanum. Annars er ekkert annað merkilegt búið að gerast hér í KA. Jæja besta að fara að drífa sig út í góða veðrið, lítur að minnsta kosti vel út í gegnum gluggann, og koma sér svo í skólann:)

fimmtudagur, apríl 21, 2005

GLEÐILEGT SUMAR........
Held að sumarið hafi ákveðið að koma hingað í dag, búið að vera sól í allan dag en samt soldið kalt. En jæja þetta verður ekki lengra í dag því ég er farin út á lestarstöð. Jább er farin til Danmerkur............

miðvikudagur, apríl 20, 2005

Mér finnst rigningin góð...................en það mætti samt rigna aðeins minna. Þetta er nú víst gott fyrir gróðurinn, er það ekki annars sagt alltaf:) Er reyndar ekki frá því að öll trén séu orðin grænni eftir að það fór að rigna. En mér finnst alltaf jafn fyndið að sjá fólk á hjóli með regnhlíf. Hef ekki prófað það sjálf, hef áhyggjur að ég færi mér og öðrum að voða ef ég myndi reyna það.

Í síðustu viku byrjaði ný önn hérna í skólanum og þar með nýjir kúrsar. Á síðustu önn var ég aldrei í það fjölmennum kúrsum að kennararnir þyrfu að tala í míkrafón. En það breyttist núna á þessari önn. Hef nú svo sem alveg verið í fyrirlestrum á Íslandi þar sem að kennarinn er með svona lítinn nettann míkrófón sem er nældur í barminn á kennaranum. En hérna þekkist það greinilega ekki því á mánudaginn þá hengdi kennarinn míkrafón í fullri stærð (jafn stóran og fólk notar til að syngja í) í snúru utan um hálsinn á sér og talaði í hann. Það var nú hálf kjánalegt að sjá þetta. Míkrafóninn náði frá hálsi og næstum niður að nafla. Annað sem ég er búin að taka eftir er að íslendingar eru nú ekki neitt svo dónalegir. Þegar fólk kemur of seint í tíma heima þá reynir það oftast að koma sér hljóðlega inn en hérna kemur fólk of seint og skellir hurðum á eftir sér, sest niður og byrjar að tala við næsta. Alveg magnað...........

sunnudagur, apríl 17, 2005

Jæja sem betur fer er helgi. Það var nóg að gera í síðustu viku en á mánudaginn byrjaði kennsla aftur, þ.e. næsta önn byrjaði. En ekki nóg með það heldur var ég í síðasta prófinu mínu núna á föstudaginn. Þannig að það var nóg að gera að mæta í tíma og læra undir próf. En þetta er búið og ég náði öllum prófunum:) Hafrún kláraði sín próf á miðvikudaginn þannig að á föstudagskvöldið var haldið upp á próflokin með því að við fórum, ásamt Jóni Geir, Bjargeyju og Togga og fengum okkur þvílíka risa hamborgara og svo í bíó. Sáum myndina Coach Carter, alveg ágætis afþreying en ekkert mikið meira en það. En maður var samt alveg uppfullur af trú á sjálfan sig því þetta var svona "you can do it" mynd.
Verð eiginlega að viðurkenna að þetta var svona hálfgerð bíómynda helgi, því í gær leigðum við okkur 2 vídeómyndir og horfuð á. Erum alveg að njóta þess að vera ekki lengur í prófum:)

En núna bíð ég bara eftir því að það komi fimmtudagur, því þá fer ég til Danmerkur í fyrsta skipti á ævinni. Já maður hefur ferðast hinum megin á hnöttinn en aldrei farið til hinna norðurlandanna. En loksins er komið að því. Verð því miður ekki mjög lengi en ætla hins vegar að reyna að nýta tímann til fulls og hitta sem flesta sem ég þekki sem búa þarna. Verst að maður kann ekkert í dönsku nema kannski "Jeg skal ha en stor öl" en kannski er það það eina sem ég þarf að kunna;)

sunnudagur, apríl 10, 2005


Fína afmæliskakan mín:) Posted by Hello

Já á föstudaginn hittumst við nokkrir Íslendingar og elduðum saman þennan þvílíkt góða mat, svo fékk ég þessa fínu köku og það var sungið fyrir mig og allt. Svo þurfti ég náttúrulega að blása á kertin eins og í alvöru afmæli og það hófst þótt ótrúlegt megi virðast, þetta voru nú ansi mörg kerti:) En ég vil bara þakka fyrir öll sms-in, emailin og hringingarnar sem að ég fékk. Gaman að fá svona á afmælisdaginn.

Á morgun byrjar svo skólinn aftur, það er að segja kennslan hefst í fyrramálið en ég á nú samt eftir eitt próf. Já alveg magnað þetta fyrirkomulag hjá þjóðverjunum að maður geti ennþá verið í prófum þegar ný önn byrjar. Þannig að best fyrir mig að drífa mig í háttinn svo að ég geti vaknað í fyrramálið.
Gute Nacht....

föstudagur, apríl 08, 2005

Vaknaði í morgun með fögur fyrirheit um það að fara út og skokka. Dreif mig framúr, leit út um gluggann og sá rigningu og rok......... ekki ákjósanlegt veður til að fara út í til að skokka þannig að ég ákvað bara að sleppa því og fara að læra í staðinn. Síðan ég settist niður til að læra þá er veðrið bara búið að batna, samt ekki orðið neitt gott. Fer bara kannski á morgun að skokka. Alltaf gott að stefna að einhverju:) Er búin að ætla mér að fara út að skokka síðan ég steig á viktina eftir Spánarferðina, en hef ekki ennþá komið mér af stað. En það skal takast, einn góðan veðurdag.
Held samt að aldurinn sé farinn að segja til sín. Getur fólk ekki alltaf sofið minna eftir því sem það verður eldra? Já það gerðist bara strax í morgun, ég er búin að stilla klukkuna á sama tíma alla vikuna og aldrei getað vaknað á réttum tíma fyrr en í morgun. Held samt að það hafi bæst við ein hrukka í nótt, en hef ekki miklar áhyggjur - Inga systir ætlar nebbla að strauja þær allar í burtu þegar hún kemur í heimsókn eftir mánuð.
En læra læra svo ég geti farið og fengið mér eitthvað gott í gogginn í hádeginu með góðri samvisku. Hlakka reyndar til í kvöld því þá ætlum við að borða saman nokkur heima hjá Konna. Hann ætlar að töfra fram eitthvað girnilegt, ætlar reyndar að fá smá aðstoð frá okkur stelpunum. Eða það heldur hann.......við ætlum bara að segja honum hvað hann á að gera og sitja með tærnar upp í loft hehehe......nei nei við erum ekki svo vondar:) Jón Geir varaði Konna þó við, hann heldur að við séum einhverjar gribbur í eldhúsinu, skil ekki hvaðan hann hefur þær hugmyndir.....

fimmtudagur, apríl 07, 2005

Jei ég er loksins búin að fatta hvernig maður getur sett inn myndir á bloggið, ég veit að ég er soldið slow:) En ákvað að setja inn eina mynd af mér og Óla sem var tekin á Spáni.
En er það eðlilegt að vera svangur í heilan dag? Ég vaknaði svöng í morgun og það er sama hvað ég er búin að borða í dag mér finnst ég alltaf vera svöng. Held að líkaminn sé að gera uppreisn gegn öllu þessu grænmeti sem ég er búin að borða undanfarna daga. Smá heilsuátak í gangi, það má allavegana reyna;) Ef maður sofnar saddur þá vaknar maður yfirleitt svangur þannig að ég var að pæla, ef að ég sofna svöng í kvöld ætli ég vakni þá södd á morgun? hummmm........held samt ekki


Erum við ekki sæt saman:) Posted by Hello

miðvikudagur, apríl 06, 2005

Ætlaði að setja hér inn ferðasöguna frá því um páskana. Settist því niður áðan og byrjaði að skrifa. Ákvað þó að skrifa hana fyrst inn í word svo ég ætti hana nú einhvers staðar á öruggum stað. Þegar ég var búin að pikka inn öll ævintýrin þá var þetta orðið að 4 blaðsíðum í word þannig að ég ákvað að það færi ekki hingað inn, langar ekki til að drepa ykkur úr leiðindum. Þannig að verð bara að leyfa ykkur að lesa hana næst þegar ég hitti ykkur. En stutt samantekt þá fórum við til Spánar, keyrðum niður til Portúgal og svo aftur til Spánar og flugum svo heim. Fengum sól og gott veður fyrsta og síðasta daginn og þess á milli rigning og skýjað. Ferðin tókst vel og allir ánægðir. Held að þetta sé svona ágætis samantekt:) Reyni svo að setja inn myndir við tækifæri, en var að setja inn nokkrar myndir frá því að við fórum í Europapark skemmitgarðinn. Þær eru ekki neitt svo margar og þess vegna linka ég inn á myndirnar hans Tryggva.

En síðan Óli fór þá er búið að vera í gangi próflestur hérna á Werthmannstrasse. En bæði ég og Hafrún erum að fara í próf. Ég fór í fyrra prófið í morgun og það gekk allt í lagi, náði því allavegana. Svo er próf þarnæsta föstudag (15.apríl). En kennsla byrjar samt næsta mánudag (11.apríl). Gaman að byrja á nýrri önn og eiga enn eftir próf frá hinni önninni en svona er þetta hérna í KA. Veðrið hérna er búið að vera mjög gott, sól og hlýtt en það rigndi samt í gær sem er gott þegar maður er að læra. Það eina sem er ekki gott með þetta góða veður er að það eru allar pöddur og flugur að vakna til lífsins, er nú þegar búin að útrýma fyrsta óboðna skriðdýrinu. Vona að þýsku pöddurnar séu lofthræddar og þori ekki að klifra hingað upp á aðra hæð þar sem við búum;)

föstudagur, apríl 01, 2005

Komin aftur heim eftir gott páskafrí. Fórum til Spánar og Portúgal 1o Íslendingar saman. En ferðasagan kemur síðar, ætlaði bara aðeins að láta vita af mér. Núna er sól og ágætis veður úti en ég sit inni og læri fyrir próf:) Já alvara lífsins er tekin við aftur. Óli er núna á leiðinni til Íslands, er einhvers staðar yfir Atlantshafinu núna þannig að letilífið er búið og skólinn kallar. En það var mjög gott að fá Óla í heimsókn þó svo að greyið hafi nú fari hálfveikur heim.
Hér er kominn sumartími og er þýskaland því aftur orðið 2 tímum á undan Íslandi. Bara svona að láta ykkur vita;)
En best að fara að læra svo manni verði nú eitthvað úr verki í dag, ekki samt svo auðvelt með þetta góða veður fyrir framan nefið á sér. En það vill til að það á eftir að hlýna eftir því sem líður á sumarið. Svo styttist nú óðfluga í næstu heimsókn en það er mæðgnaheimsóknin mikla. Það er svo gaman að fá fólk í heimsókn:)